Fréttir

Mörg stór mál að klárast á árinu
Fimmtudagur 9. janúar 2025 kl. 06:05

Mörg stór mál að klárast á árinu

Ef áætlanir ganga eftir mun Reykjanesbær taka í notkun tvo nýja leikskóla á árinu og hefja byggingu þess þriðja. Auk þess verður opnuð glæsileg 25 metra innisundlaug og almenningsbókasafn í Stapaskóla í Innri Njarðvík og í lok árs nýtt 80 rúma hjúkrunarheimili við Nesvelli í samvinnu við ríkið. Þetta kom fram í nýársræðu Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar í Keflavíkurkirkju á nýarsdag. Ræðuna má sjá í heild á vf.is.

Kjartan Már nefndir fleiri stór mál á vegum Reykjanesbæjar á nýju ári. „Ráðhúsið við Tjarnargötu verður uppfært að innan og endurbygging Holta- og Myllubakkaskóla mun halda áfram. Mörg fleiri framkvæmdaverkefni eru í gangi í þeim tilgangi að mæta mikilli íbúafjölgun og bæta þjónustu,“ sagði bæjarstjórinn sem hefur hafið störf í hlutastarfi en stefnir að því að mæta í fullu starfi 1. febrúar nk. eftir veikindaleyfi.