Fréttaannáll Víkurfrétta 2024 // Júlí, ágúst og september
Víkurfréttir birta fréttaannál ársins 2024 í fjórum hlutum hér á vf.is. Hér er brot af því helsta úr umfjöllun blaðsins á þriðja ársfjórðungi nýliðins árs.
Víkurfréttir 3. júlí 2024:
Skessan vakti athygli hjá skipagestum
„Þetta gekk alveg ljómandi vel en auðvitað eru alltaf einhverjir smá hnökrar eða lærdómur sem maður þarf að taka inn þegar verið er að byrja á einhverju. Það helsta sem talað var um að vantaði var meiri upplýsingagjöf fyrir farþega skipsins þegar þeir komu í land. Við munum bæta það áður en næsta skip kemur,“ sagði Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar en síðasta laugardag kom snemma að morgni skemmtiferðaskipið Azamara Quest með um 600 farþega sem lang flestir fór í land í Keflavíkurhöfn. Farþegarnir voru ferjaðir í land með léttabátum frá skipinu sem lagði skammt frá Keflavíkurhöfn. Um þriðjungur þeirra fóru í skipulagðar ferðir um svæðið en aðrir fóru sjálfir um bæinn, tóku leigubíla eða gengu og einhverjir fengu sér bílaleigubíl til að fara á um svæðið að sögn Halldórs. Reykjaneshöfn í samvinnu við Markaðsstofu Reykjaness hefur frá árinu 2017 unnið markaðsvinnu í þeim tilgangi að fá minni skemmtiferðaskip til Reykjanesbæjar. Halldór segir að gestirnir hafi verið mjög ánægðir, m.a. hópur sem fór í skipulagða skoðunar- og fræðsluferð undir leiðsögn heimamanneskju eftir strandlengjunni í Keflavík og endaði við Skessuhelli í smábátahöfninni. „Það voru margir hrifnir af skessunni, einni af fornsögulegum íbúum landsins og einhverjir höfðu á orði að hún þyrfti að leita læknishjálpar vegna vindgangs,“ segir Halldór og svarar því til að það sé margt sem útlendingar hafi áhuga á að skoða þegar þeir koma, t.d. gamli bærinn, húsin, sagan og fleira. Aðilar í verslun og þjónustu og ferðaþjónustu á svæðinu fengu sent fréttabréf áður en skipið kom með upplýsingum um komu þessara farþega. „Við sáum allnokkra gesti með poka með varningi í og við vitum að gestirnir fóru víða um bæinn og nýttu sér þjónustu og veitingastaði. Skipið er búið að bóka heimsókn aftur á næsta ári og svo þurfum við að vinna áfram í markaðsmálum. Það myndi skipta svæðið talsverðu máli að fá fimm til sex skipaheimsóknir á ári. Það myndi skapa helling án þess að yfirkeyra eitthvað. Þetta er vonandi upphafið að einhverju meiru,“ sagði hafnarstjórinn. Farþegar á skipinu voru frá unga aldri upp í eldri borgara og allt þar á milli en þeir komu frá þrjátíu þjóðlöndum. Skipið er í Íslandsferð og kom frá Grundarfirði til Keflavíkur en kom fyrst til Seyðisfjarðar.
Víkurfréttir 17. júlí 2024:
Nýr meirihluti tekinn til starfa í Suðurnesjabæ
Nýr meirihluti tekinn til starfa í Suðurnesjabæ Sameiginlegur málefnasamningur kynntur: Ætla að fækka fulltrúum í bæjarstjórn úr níu í sjö og skipulagsmál í forgangi. Fundur bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar var haldinn á fimmtudag í síðustu viku þar sem nýr meirihluti tók til starfa. Nýr meirihluti samanstendur af bæjarfulltrúum O-, S- og tveggja fulltrúa D-lista, Einars Jóns Pálssonar og Oddnýjar Kristrúnar Ásgeirsdóttur, en Magnús Sigfús Magnússon, kjörinn fulltrúi D-lista, stendur fyrir utan meirihlutasamstarfið. Fundurinn var langur og strangur en fyrsta mál á dagskrá var að kjósa nýjan forseta bæjarstjórnar og í kjölfarið fyrsta og annan varaforseta. Þá var nýtt bæjarráð skipað og skipan í ráð og nefndir stokkuð upp. Jónína Magnúsdóttir (O-lista) er nýr forseti bæjarstjórnar og tók hún við stjórn fundarins úr höndum Einars Jóns Pálssonar (D-lista) sem hefur gegnt embættinu frá stofnun sveitarfélagsins. Fyrsti varaforseti er Laufey Erlendsdóttir (O-lista) og annar varaforseti er Anton Kristinn Guðmundsson (B-lista). Kjör í embættin eru til eins árs. Sigursveinn Bjarni Jónsson (S-lista) tekur við formennsku í bæjarráði en með honum eru Einar Jón Pálsson, varaformaður, og Laufey Erlendsdóttir, varamenn eru Elín Frímannsdóttir (S-lista), Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir (D-lista), Jónína Magnúsdóttir (O-lista).
Víkurfréttir 31. júlí 2024:
Nýr heimavöllur Njarðvíkur á lokametrunum
Frágangur við íþróttahúsið í Stapaskóla og tilvonandi heimavöll körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur er á lokametrunum og Ungmennafélaginu Njarðvík verður afhent lyklavöldin að húsinu í september. Þá verður einnig hægt að nýta húsnæðið til íþróttakennslu að sögn Guðlaugs H. Sigurjónssonar, sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar. Síðar í haust verða sundlaug og heitir pottar afhentir og opnað inn í bókasafn í Stapaskóla. Þá má segja að Stapaskóli verði orðinn að samfélagsmiðstöð fyrir Innri-Njarðvík. Nánar er fjallað um framkvæmdir á síðu 4 í Víkurfréttum í dag. VF/Hilmar Bragi Bárðarson
Víkurfréttir 31. júlí 2024:
Kosti 14 til 19 milljarða króna koma Grindavík í íbúðarhæft ástand
Ætla má að kostnaður við að laga skemmdir, að meðtöldum sprungum og holrýmum, og koma Grindavík í íbúðarhæft ástand geti legið á bilinu fjórtán til nítján milljarðar króna. Ábyrgðaraðilar mátu umfang skemmda á innviðum í Grindavík rúma níu milljarða króna, eða um 22% af verðmæti innviða. Þetta kemur fram í skýrslu sem Deloitte vann fyrir forsætisráðuneytið og var skilað fyrr í sumar. Skýrslan heitir Kostnaðar- og ábatagreining vegna innviða og atvinnulífs í Grindavík.
Víkurfréttir 31. júlí 2024:
Kríuungar fórnarlömb í ógætilegum akstri
Kríuungum er hreinlega slátrað með ógætilegum akstri á Stafnesvegi við Sandgerði. Daglega liggur fjöldi fugla í valnum. Páll Þórðarson er æðar- og kríubóndi í Norðurkoti II. Hann hreinsaði á annan tug dauðra kríuunga af þjóðveginum í vikunni. Í samtali við Víkurfréttir sagðist Páll vera hættur að fjarlægja hræin, það sé betra að þau séu á veginum svo fólk átti sig á hættunni á því að aka yfir fuglana. Hann sagði eitthvað um það að fólk stoppi og hendi dauðum fugli út fyrir veg. Kríuvarpið á Suðurnesjum virðist hafa tekist mjög vel í sumar. Óvenju mikið er af ungum núna miðað við undanfarin ár. Krían virðist vera að komast í nægt síli. Það er í öllum stærðum og er borið í ungana sem eru feitir og pattaralegir. Ungarnir sækja úr grasinu og upp á vegina þar sem þeir eru sagðir ná sér í hita. Þar stunda þeir einnig sínar flugæfingar og geta verið miklir klaufar. Þegar bílar koma aðvífandi fljúga þeir upp en lenda oft fljótt aftur framan við bílana og geta reynt á þolinmæði bílstjóra. Þá segir Páll í Norðurkoti II einnig þekkt að ungarnir fljúgi í veg fyrir bíla og þá sé ekki við ökumenn að sakast. Nú er stutt í að krían yfirgefi landið, jafnvel bara ein til tvær vikur. Það er því ástæða til að virða lífið sem er að læra fyrstu flugtökin á vegunum við þéttbýlið á Suðurnesjum.
Víkurfréttir 31. júlí 2024:
960 kíló af rusli úr fjörunni
Starfsfólki Lagardère Travel Retail bauðst á dögunum að nýta hluta vinnutíma síns við strandhreinsun á Garðskaga. Um 30 manns tóku þátt og söfnuðu um 960 kílóum af rusli á hreinsunardeginum. Samkvæmt Magdalena Anna Bilska, gæða- og sjálfbærnistjóra Lagardère, kom innblásturinn að þessu tiltekna framtaki frá Bláa hernum þegar Lagardère hafði samband við þau varðandi samvinnu tengda sjálfbærni. Blái herinn eru félagasamtök sem hafa fjarlægt yfir 1.550 tonn af rusli úr íslenskri náttúru á undanförnum 25 árum. „Garðströnd varð fyrir valinu þar sem hún er í nærumhverfi starfseminnar okkar á flugvellinum. Þetta framtak passar fullkomlega við sjálfbærnistefnuna okkar, sem miðar að því að auka jákvæð áhrif fyrirtækisins á umhverfi og samfélag. Það er góð tilfinning að geta gefið til baka til samfélagsins í kringum okkur og styðja við varðveislu íslenskrar náttúru um leið,” segir Magdalena.
Víkurfréttir 21. ágúst 2024:
Rauðu örvarnar á Keflavíkurflugvelli
Listflugsveitin Rauðu örvarnar hafði viðkomu á Íslandi á laugardaginn. Tólf þotur komu til landsins í tveimur hópum, sex vélar í hvorum hópi. Þoturnar komu að Keflavíkurflugvelli úr suðri og flugu lágflug yfir völlinn og slepptu lituðum reyk. Á móts við norðurenda flugvallarins hækkuðu vélarnar svo flugið og tóku krappa vinstri beygju og stefndu aftur inn til lendingar úr suðri. Eftir lendingu var farið með vélarnar til geymslu á vestursvæði flugvallarins, þar sem sprengjuheld flugskýli NATO eru. Rauðu örvarnar voru á leiðinni vestur um haf til þátttöku í flugsýningum í Kanada. Flugsveitin hefur áður haft viðkomu á Íslandi, síðast árið 2008 en þar á undan árið 2002 og 1970, samkvæmt heimildum Víkurfrétta. VF/Hilmar Bragi
Víkurfréttir 21. ágúst 2024:
Vel heppnaðir fjölskyldudagar í Vogum
Veðurguðirnir léku við íbúa í Sveitarfélaginu Vogum og gesti þeirra á árlegum fjölskyldudögum sem fram fóru í síðustu viku. Dagarnir eru ávallt haldnir aðra helgina eftir verslunarmannahelgi.
Fjölskyldudagar hófust með tónleikum í Háabjalla. Þar er skógarrjóður og skemmtilegt umhverfi til tónleikahalds. Brekkusöngur var á föstudagskvöldið en laugardagurinn er ávallt stærsti dagur hátíðarinnar. Þá safnast fólk saman í Aragerði, skjólsælum garði í Vogum þar sem sett er upp svið og sölutjöld. Þar var dagskrá allan daginn og fram á kvöld þegar tónlistarveisla var á sviði og kvöldinu lauk svo á flugeldasýningu. Á sunnudeginum var svo dagskrá við Kálfatjarnarkirkju.
Víkurfréttir 28. ágúst 2024:
Engin ástæða til óttast að mannvirkin séu gjörónýt
„Það er engin ástæða til hræðslu þrátt fyrir að bryggjan sé búin að síga, við erum á verði en munum ekki fara út í neinar dramatískar fyrirbyggjandi aðgerðir að svo stöddu,“ segir Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri Grindavíkurhafnar. Við hamfarirnar í nóvember og aftur í janúar, seig land í Grindavík nokkuð. Á hafnarsvæðinu seig Kvíabryggja um 30 til 40 sentimetra í viðbót við þá 50 sentimetra sem land í Grindavík hefur sigið síðan 1980. Sigurður segir að hafnarstarfsmenn muni vakta hafnarsvæðið eftir því sem hægt er þegar stórstraumsflóð ber upp og skýrði út hvað er í gangi þá. „Tími milli flóðs og fjöru er rúmlega sex klst. Því flæðir tvisvar að og frá á rúmlega sólarhring. Stórstraumsflóð og -fjara verða á u.þ.b. tveggja vikna fresti þegar jörðin, sólin og tunglið eru í beinni línu, þ.e. þegar tungl er fullt og svo á nýju tungli. Munur milli háflæðis og fjöru er þá mestur. Að sama skapi er smástraumsflóð og -fjara um viku síðar. Stórstraumsflóð í Grindavík er alltaf kl. 7 og 19 á tveggja vikna fresti. Þegar svo ber undir að í stórstreymi, í stífri suðlægri vindátt með hárri ölduhæð og löngum sveiflutíma ásamt lágum loftþrýstingi, er nánast öruggt að sjór muni flæða yfir bryggjur og við erum að undirbúa okkur undir þannig atburði. Vegagerðin hefur keypt 100 metra flóðvarnargirðingu sem er sett saman af fimm metra löngum hylkjum sem fyllt eru af sjó eða vatni. Við sjáum fyrir okkur að setja flóðvarnagirðingar á þau svæði sem Vegagerðin mun ásamt okkur meta sem mest útsett fyrir flóðahættu sem er vestasta bryggjan okkar í Grindavík, hún hefur alltaf verið lægst og seig mest að undanförnu. Það er engin ástæða til óttast að mannvirkin séu gjörónýt, við tökum á þessu þegar þar að kemur og ég trúi því staðfastlega að við spýtum rækilega í lófana og hefjum uppbyggingu bæjarins. Eldgosin eru að færa sig fjær Grindavík og okkur því ekkert að vanbúnaði að hefjast handa. Ég á ekki von á neinu öðru en höfnin verði iðandi af lífi eftir áramót þegar vertíðin hefst en skipstjórnarmenn hafa haldið að sér höndum að undanförnu, eðlilega kannski þar sem eldgos var í aðsigi. Það brast loksins á, fjarri Grindavík og ég á ekki von á öðru en bátar og skip muni fylla Grindavíkurhöfn áður en langt um líður,“ sagði Sigurður að lokum.
Víkurfréttir 28. ágúst 2024:
Hraun runnið yfir sveitarfélagamörk Grindavíkur og Voga
Hraun úr sjötta eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni hefur náð þeim áfanga að renna yfir sveitarfélagamörk Grindavíkurbæjar og Sveitarfélagsins Voga. Eldgosið, sem hófst fimmtudagskvöldið 22. ágúst kl. 21:26, er áberandi stærsta gosið til þessa af þeim eldgosum sem orðið hafa á Sundhnúkagígaröðinni fá 18. desember 2023. „Þetta er áberandi stærsta gosið til þessa. Mælingar í dag [mánudag] benda til tæplega 50 milljón rúmmetra á fyrstu fjórum dögunum, fimmtudagskvöld til eftirmiðdags á mánudag. Þetta er heldur meira en kom upp í öllu síðasta gosi. Jafnframt er hraunið nú 12 km2, meðan að gosið í maí var u.þ.b. 8,5 km2,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Víkurfréttir.
Víkurfréttir 28. ágúst 2024:
Við verðum líka að sameina íbúana
„Framtíð ferðaþjónustu í Garðinum og á Reykjanesi í heild sinni er björt,“ segir Gísli Heiðarsson, einn þriggja eigenda hótelsins Light-house Inn í Garðinum, hinir eigendurnir eru eldri bræður hans, Einar og Þorsteinn. Gísli er framkvæmdastjóri en vel hefur gengið allar götur síðan hótelið hóf göngu sína árið 2017. Þar áður höfðu bræðurnir rekið gistiheimilið Guesthouse Garður frá árinu 2009 og fyrir það höfðu þeir verið í fiskvinnslu en ákváðu að venda kvæði sínu í kross og sjá ekki eftir því. Lighthouse Inn hefur gengið mjög vel og var stækkun komin á teikniborðið en COVID setti þær fyrirætlanir á ís í bili allavega.
„Þegar við rákum gistiheimilið þá sáum við hvað fólki líkaði vel að vera svona nálægt vitanum, umhverfið hér í kring er mjög fallegt og þegar sveitarfélagið auglýsti lóðir fyrir hótelbyggingu stukkum við á tækifærið og vorum fyrstir að sækja um lóðina þar sem hótelið er. Við hófum framkvæmdir árið 2016 og náðum að opna ári seinna, erum með 26 herbergi og vorum langt komnir með stækkun en COVID setti smá strik í reikninginn og við héldum að okkur höndum. Elsti bróðir minn, Einar, er hættur að vinna og farinn að spila golf og við Þorsteinn erum að reka hótelið saman. Nýtingin á herbergjunum var 95% á síðasta ári, það er fáheyrt í þessum bransa og það sem vantaði upp í 100% var afbókun á síðustu stundu og ekki tókst að selja herbergið. Svona hefur þetta verið allan tímann, þetta er mest ferðafólk sem annað hvort er nýlent eða er að fara af landi brott en þó er farið að bera meira á því að gestir okkar stoppi lengur og skoði Reykjanesið. Ég er sannfærður um að svæðið á helling inni og ekki skemmir fyrir uppbyggingin úti á Reykjanesskaga, svo ég tali nú ekki um Grindavík. Þegar bærinn opnar aftur mun hann pottþétt virka sem segull á erlent ferðafólk,“ segir Gísli.
Við höfum verið með veitingastað á hótelinu frá 2021 en annar aðili hefur rekið hann, við leigjum bara út aðstöðuna. Tapas-staðurinn El faro var fyrst og var mjög vinsæll og oft á tíðum skapaðist hálfgert vandamál hjá okkur því bílastæðin voru full. Eigendurnir voru Viktor sonur minn og Jenný tengdadóttir ásamt tveimur kokkum þeim, Álvaro og Inmu. Tengdadóttirin var flugmaður hjá Icelandair og missti vinnuna í COVID og sonurinn í flugnámi hjá Icelandair. Þegar þau byrjuðu aftur að fljúga í fyrra luku þau leik í veitingabransanum ásamt því að Alvaro og Inma eignuðust barn. Nýr aðili tók því við, hann var að vinna á El faro og stofnaði sinn eigin stað, Eos. Þetta er veitingastaður fyrir almenning en langmest eru það gestir hótelsins sem stunda staðinn, sem er sömuleiðis mjög góður.
Svo er spennandi verkefni að fara í gang við hliðina á okkur, nálægt fjörunni á Garðskaga, Mermaid geothermal seaweed spa. Þetta verður baðaðstaða með heitum potti, sjósundi, nuddi o.fl. og þarinn og þangið er m.a. notað. Þetta er mjög spennandi verkefni og mun styðja vel við okkur á hótelinu og aðra í ferðaþjónustugeiranum hér á svæðinu, ég er bjartsýnn á framtíð ferðaþjónustu hér í Garðinum og á Suðurnesjum í heild sinni.“
Víkurfréttir 4. septembet 2024:
Sex þúsund lítrar af kjötsúpu frá Skólamat á Ljósanótt
Sex þúsund lítrar af kjötsúpu sem inniheldur tvö tonn af lambakjöti verður gerð í Skólamatareldhúsinu á föstudaginn fyrir tæplega átján þúsund nemendur í grunn- og leikskólum á og síðast en ekki síst, fyrir gesti Ljósanætur á föstudagskvöldi. „Það er alltaf jafn gaman að vera með kjötsúpuna á Ljósanótt en þetta er í tuttugasta og annað sinn sem við bjóðum upp á hana á Ljósanótt,“ sögðu þau Fanný og Jón Axelsbörn í Skólamat en Guðjón Vilmar Reynisson, yfirmatreiðslumaður, gaf þeim smakk í vikunni en eins og alltaf er von á ljúffengri súpu. VF/Páll Ketilsson
Víkurfréttir 4. septembet 2024:
Eldborgin sést frá Reykjanesbæ
Myndarleg eldborg hefur hlaðist upp í sjötta eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni og því níunda á Reykjanesskaganum frá árinu 2021. Eldgosið hófst þann 22. ágúst sl. og gýs úr tveimur gígum. Gígarnir eru þeir nyrstu sem hafa myndast í þessari röð eldgosaröð. Mikil virkni hefur verið í eldgosinu á þessum slóðum og hraunrennslið er í átt að Reykjanesbraut og Snorrastaða-tjörnum. Gro Birkefeldt Pedersen, sérfræðingur í eldfjallafræðum hjá Veðurstofu Íslands, hefur verið að fylgjast með hraunrennsli frá eldstöðinni. Hún sagði í samtali við Víkurfréttir á föstudag að hrauntunga var þá í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Snorrastaðatjörnum. Þær eru á útivistarsvæði nærri Háabjalla í Sveitarfélaginu Vogum. Samkvæmt mælingum frá því á föstudagsmorgun var hraunið 3,6 kílómetra frá Reykjanesbraut og 3,2 kílómetra frá Suðurnesjalínu. Á fimmtudag í síðustu viku færðist hraunjaðarinn 170 metra á sólarhring og hafði hægt á rennslinu sem var dagana á undan 250-280 metrar á sólarhring. Það mun því taka einhverja sólarhringa að ná til Snorrastaðatjarna. Á leiðinni eru torfærur eins og gjár og sigdalur sem hraunið þarf að fylla á leið sinni að náttúruperlunni. Fylgst er með eldgosinu á vf.is og streymt beint því.
Víkurfréttir 4. septembet 2024:
Heilsugæsla opni í Suðurnesjabæ fyrir maí á næsta ári
Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa mörg undanfarin ár unnið að því að íbúar sveitarfélagsins fái notið heilsugæsluþjónustu í heimabyggð. Í góðu samstarfi Suðurnesjabæjar við heilbrigðisráðherra og forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur nú verið gengið frá viljayfirlýsingu þessara aðila um að heilsugæslustöð verði opnuð í Suðurnesjabæ. Síðasta föstudag undirrituðu heilbrigðisráðherra, forstjóri HSS og bæjarstjóri Suðurnesjabæjar viljayfirlýsinguna, samkvæmt henni er unnið að því að starfsemi heilsugæslunnar hefjist fyrir maí 2025. Heilsugæslan verður staðsett í húsnæði Suðurnesjabæjar í Vörðunni, Miðnestorgi 3 í Sandgerði. Markmið með viðbótarstarfsstöð HSS í Suðurnesjabæ er að bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu í sveitarfélaginu, færa hana nær íbúum og styrkja um leið þjónustu við íbúana. Boðið verður upp á almenna heilsugæsluþjónustu á ákveðnum tímum. Þetta fyrirkomulag fellur vel að áherslum stjórnvalda um jafnt aðgengi óháð búsetu og því verkefni að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað notenda innan heilbrigðiskerfisins. Suðurnesjabær fagnar þessum mikilvæga áfanga, sem er liður í því að efla innviði í sveitarfélaginu og auka þjónustu við íbúana. Suðurnesjabær er ört vaxandi sveitarfélag og er íbúafjöldi sveitarfélagsins nú tæplega 4.200 og hefur fjölgað um 5% á einu ári.
Víkurfréttir 11. septembet 2024:
Framkvæmdir hafnar við sprungufyllingar í Grindavík
Framkvæmdir við sprungufyllingar eru hafnar á fimm stöðum í Grindavík, þ.e. við Sjávarbraut, Eyjasundi, Víkurbraut, Verbraut og Víkurtúni. Áætlað er að framkvæmdunum ljúki í október. Framkvæmdirnar eru hluti af aðgerðaáætlun um viðgerðir á götum, opnum svæðum og öðrum innviðum í Grindavík. Aðgerðirnar miða að því að tryggja virkni og öryggi innviða, þar á meðal á gatnakerfi, lögnum og opnum svæðum. Þá er einnig hafin vinna við að girða af óörugg svæði innanbæjar en áætlað er að lagðir verði 6,8 km af mannheldum girðingum. Gert er ráð fyrir að hægt sé að leggja 350 metra af girðingum á dag.
Víkurfréttir 11. septembet 2024:
Þúsundir skemmtu sér vel á Ljósanótt
Tugþúsundir gesta nutu tónlistar á stóra sviði Reykjanesbæjar, glæsilegrar flugeldasýningar og lýsingu Bergsins á laugardagskvöldi. Dagskrá Ljósanætur náði hápunkti um kvöldið og fór vel fram í góðu veðri. „Sólin gerir auðvitað gott betra,“ sagði Guðlaug María Lewis, verkefnastjóri Ljósanætur, í skýjunum eftir vel heppnaðan og sólríkan laugardag á Ljósanótt. „Við fögnuðum sérstaklega 30 ára afmæli Reykjanesbæjar með hreint út sagt frábærri tónlistarveislu og flugeldasýningu sem landsmenn fengu að njóta með okkur í beinni útsendingu.“ Skipuleggjendur hátíðarinnar telja að hún hafi verið með þeim fjölmennari og að tugþúsundir gesta hafi tekið þátt í dagskrá laugardagsins enda margt til skemmtunar. Hátíðin hófst formlega að venju á fimmtudegi með opnun fjölda listsýninga en um hundrað aðilar tóku þátt. Á föstudag var tónlistardagskrá á ráðhústorginu og boðið upp á kjötsúpu frá Skólamat. Heimatónleikar voru á sex stöðum. Veðurguðirnir voru í óstuði þegar leið á kvöldið en voru í góðu skapi annars alla hátíðina og hafði það mikið að segja á laugardegi þegar þúsundir fóru í árgangagöngu og enn fleiri mættu á frábæra tónleika um kvöldið. Margir notuðu sunnudaginn til að fara á listsýningar, sögugöngu í Keflavík og tónleika í Höfnum og í Keflavíkurkirkju. Að sögn Guðlaugar var virkilega góð og jákvæð stemning á svæðinu og langsamlega flestir staðráðnir í að vera með ljós í hjarta á Ljósanótt eins og lagt var upp með. „Við höfum auðvitað áhyggjur eins og aðrir af hópamyndun og ölvun unglinga sem virðist orðið samfélagslegt vandamál sem þjóðin þarf að taka höndum saman um að stemma stigu við. Eftir því sem við best vitum á þessari stundu gekk þetta stórslysalaust hjá okkur og fyrir það erum við þakklát.“ Lögregla þurfti að hafa afskipti af nokkrum ungmennum vegna ölvunar og einn réðist að tveimur lögreglumönnum en Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn, segir að hátíðin hafi gengið mjög vel á heildina litið. Lögreglan var vel mönnuð á hátíðinni fylgdist vel með.
Víkurfréttir 18. septembet 2024:
Ívar settur í embætti djákna
Ívar Valbergsson var settur í embætti djákna við Keflavíkurkirkju í innsetningar- og sjálfboðaliðamessu síðasta sunnudagskvöld. Messan var auk þess tileinkuð þeim einstaklingum sem eru í sjálfboðinni þjónustu við Keflavíkurkirkju. Fyrir messu var sjálboðaliðum boðið til stundar í Kirkjulundi þar sem Guðmundur Brynjólfsson, djákni, ræddi sjálfboðastarfið innan kirkjunnar. Þá var boðið upp á ljúfa tóna, auk þess sem Skólamatur bauð í súpu og Soho bauð upp á brauðmeti og álegg. Á myndinni hér að ofan má sjá þau Hans Guðberg Alfreðsson, prófast í Kjalarnesprófastsdæmi, séra Erlu Guðmundsdóttir, sóknarprest í Keflavíkurkirkju, og Ívar Valbergsson, djákna. VF/Hilmar Bragi
Víkurfréttir 25. septembet 2024:
Grindvískar réttir
Frístundabændur í Grindavík ráku fé í réttir um síðustu helgi. Réttað var í Þórkötlustaðarétt á sunnudag en smölun hófst á föstudag og rekið var í hólf í Litla Hamradal, austan Grindavíkur. Þaðan var svo hóprinn rekinn snemma á sunnudagsmorgun að Þórkötlustöðum þar sem dregið var í dilka. Sauðfé hefur fækkað talsvert á milli ára í Grindavík og búist við að enn færra fé verði á næsta ári. Nánar um réttirnar í blaðinu í dag og í Suðurnesjamagasíni á föstudag. Þar verður m.a. rætt við Bjarka Sigmarsson sem ætlar að bregða búi í ljósi stöðunnar. VF/Hilmar Bragi
Víkurfréttir 25. septembet 2024:
Byggja 450 íbúðir við Aðaltorg
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi við Aðaltorg í Reykjanesbæ verður send Skipulagsstofnun til athugunar fyrir auglýsingu. Þetta var samþykkt á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar. Breyting á aðalskipulagi fyrir reit M12 Aðaltorg sem felst í því að stækka landnotkunarreit Miðsvæði 12 (M12) til norðurs og austurs um 4,25 ha og auka heildarbyggingarmagn í 100.000 m² með heimild fyrir 450 íbúðum, þar af 138 þjónustu- og öryggisíbúðum fyrir eldri borgara. Með breytingu þessari mun nýtingarhlutfall fara úr 0,2 í 0,6.
Víkurfréttir 25. septembet 2024:
Bónstöð með hágæða bílageymslu í Sandgerði
„Við fórum upphaflega í þetta með þá hugmynd að vera bílageymsla sem býður upp á þrif. Þegar við vorum að bíða eftir því að geymslusalurinn fyrir bílana yrði tilbúinn fórum við í að þrífa bíla fyrir fólk í Sandgerði til að hafa eitthvað að gera. Það vatt þannig upp á sig að það varð alveg hellingur að gera í því. Fljótlega snérum við verkefninu við og erum í dag bónstöð sem býður upp á hágæða geymslu á bílum þeirra sem kaupa af okkur þrif,“ segir Gunnar Borgþór Sigfússon, ungur Sandgerðingur, sem rekur fyrirtækið Airpark í Suðurnesjabæ.
Víkurfréttir 25. septembet 2024:
Nýjabíó verði rifið og háhýsi byggt
Nýjabíó við Hafnargötu í Keflavík verður rifið og þar byggt hús upp á fimm hæðir auk kjallara og bílageymslu, nái hugmyndir eigenda húsnæðisins fram að ganga. Nordic Office of Architecture, fyrir hönd eigenda Sambíó í Reykjanesbæ, fer þess á leit við Reykjanesbæ með erindi dagsettu 11. september 2024 að fá að rífa núverandi byggingu á lóðinni að Hafnargötu 33 og fá þess í stað að skipuleggja og reisa á umræddri lóð byggingu er mundi hýsa verslun og þjónustu á 1. hæð íbúðir á 2., 3. og 4. hæð auk íbúða á inndreginni 5. hæð. Í kjallara yrðu geymslur og bílakjallari sbr. meðfylgjandi tillögu dags. 9. september 2024. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar tók erindið fyrir í síðustu viku og vísaði því í vinnu deiliskipulags við Hafnargötu.