Samkaup
Samkaup

Fréttir

Fréttaannáll Víkurfrétta 2024 // Apríl, maí og júní
Föstudagur 3. janúar 2025 kl. 07:07

Fréttaannáll Víkurfrétta 2024 // Apríl, maí og júní

Víkurfréttir birta fréttaannál ársins 2024 í fjórum hlutum hér á vf.is. Hér er brot af því helsta úr umfjöllun blaðsins á öðrum ársfjórðungi nýliðins árs.

Víkurfréttir 4. apríl 2024:

Hitaveita með eldgos í bakgarðinum

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina, sem hófst að kvöldi laugardagsins 16. mars, er enn í gangi og hefur staðið í næstum þrjár vikur. Gossprungan var í upphafi goss um 3,5 kílómetrar. Á fyrstu klukkustundum gossins rann hraun yfir Grindavíkurveg norðan varnargarða við Svartsengi. Nú gýs aðeins í tveimur gígum við Sundhnúk og hraunrennslið er til suðurs. Varnargarðar við Grindavík hafa sannað gildi sitt. Ef þeirra hefði ekki notið má gera ráð fyrir að hrauntungur, sem garðarnir hafa leitt frá bænum, hefðu náð inn í byggð. Ekki hefur reynt á varnargarða við Svartsengi. Þeim er ætlað að verja orkuverið og þá innviði sem þar eru. Í Svartsengi er framleitt heitt vatn fyrir byggðina á Suðurnesjum. Á myndinni að ofan má sjá eldgosið í bakgarði orkuversins og hluta af varnargarðinum sem er ætlað að verja innviðina í Svartsengi.

Víkurfréttir 4. apríl 2024:

Þórkötlu boðnar 550 fasteignir í Grindavík

Fasteignafélaginu Þórkötlu ehf. hafa borist óskir frá um 550 Grindvíkingum um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Úrræði félagsins getur náð til um 900 fasteigna í Grindavík og þ.a.l. hefur Þórkötlu verið boðið að kaupa rúman helming fasteigna einstaklinga í Grindavík. Félagið stefnir að því að hefja kaupin í byrjun apríl. Vinna stendur yfir hjá félaginu, Stafrænu Íslandi og sýslumönnum við undirbúning á uppgreiðslu lána, afléttingu kvaða og nauðsynlega skjalagerð. Í tilkynningu frá félaginu segir að mörgum fyrirspurnum frá Grindvíkingum hefur verið svarað og unnið er að greiningu og flokkun umsókna.
Í reglugerð um framkvæmd kaupanna segir að afhendingardagur húsnæðis skuli vera einum til þremur mánuðum eftir undirritun kaupsamninga. Þannig má reikna með að fyrstu eignirnar verði afhentar fasteignafélaginu í byrjun maí. Endanlegur afhendingardagur verður ákveðinn í samráði við seljendur.
Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Grindavíkur, skrifaði ítarlegan pistil á samfélagsmiðla um páskana þar sem hann veltir upp stöðu mála og spyr spurninga. „Erum við of fljót á okkur í þessum uppkaupum? Það eru ekki sex mánuðir liðnir frá 10. nóvember og við erum komin með um 2/3 þeirra sem falla undir þann rétt að geta nýtt sér uppkaup á húsnæði sínu hafa nú þegar sótt um. Sumir sjá hag í því að gera það þar sem brunabótamat er mun hærra en verðmat á húsnæðinu þeirra. Aðrir eru bara alls ekki í það góðum málum,“ skrifar Gunnar Már og bætir við: „Ég hef engan áhuga á því að flytja frá mínu samfélagi og búa einhversstaðar annarsstaðar en í Grindavík. Það sem við áttum hér saman öll var dýrmætt og flott samfélag af harðduglegu fólki hvort sem er í vinnu eða sjálfboðaliðum. Erum við tilbúin til að tvístra því og reyna að bindast öðru samfélagi þar sem það þarf að skipuleggja alla vinahittinga barnanna með fyrirvara, allir með lykla eða kóða af nýja húsnæðinu sínu þar sem enginn þorir að hafa ólæst lengur og geta treyst á nágrannan að fylgjast með ef þú fórst eitthvað í lengri tíma. Þannig samfélög heilla mig ekki og það að horfa upp á íþróttafélögin okkar leysast upp hægt og hægt eins og litlu og meðalstóru fyrirtækin okkar í Grindavík á meðan ekkert er gert til uppbyggingar er virkilega sárt að horfa upp á.“


Víkurfréttir 4. apríl 2024:

Samráðsteymi komi með tillögu um staðsetningu gervigrasvallar í Suðurnesjabæ

Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur samþykkt samhljóða að samráðsteymi um uppbyggingar- og viðhaldsáætlun íþróttamannvirkja verði falið að vinna tillögu um staðsetningu gervigrasvallar og skili tillögu til bæjarráðs fyrir 20. maí 2024.

„Bæjarráð leggur áherslu á að knattspyrnufélögin taki fullan þátt og ábyrgð við vinnu að tillögu um staðsetningu vallarins. Jafnframt vinni samráðsteymið að framtíðarsýn um uppbyggingu íþróttamannvirkja og í samstarfi við íþróttafélögin að framtíðarsýn um starfsemi þeirra,“ segir í afgreiðslu bæjarráðs frá því í síðustu viku.

Umrætt samráðsteymi var samþykkt á 67. fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar. Starfsmaður umhverfissviðs, forstöðumaður íþróttamannvirkja og íþrótta- og tómstundafulltrúi sitji í samráðsteyminu. Íþróttafélögin Reynir og Víðir hafa ekki getað komið sér saman um hvar völlurinn skuli staðsettur – og þar stendur hnífurinn í kúnni. Búið er að samþykkja 200 m.kr. fjárveitingu í verkið á þessu ári, 140 m.kr. á því næsta og 50 m.kr árið 2026.

Víkurfréttir 4. apríl 2024:

Tugir hvala á Stakksfirði

Tugir hvala héldu til á Stakksfirði, skammt undan landi við Keflavík, á miðvikudagsmorgun í þessari viku. Hvalirnir virðast hafa verið í miklu æti og blésu ótt og títt. Hraðbátar með fólki í hvalaskoðun komu frá Reykjavík og fylgdust með aðförunum. Ljósmyndari Víkurfrétta sendi dróna til móts við hvalina og voru þessar myndir teknar við það tækifæri á Stakksfirði. VF/Hilmar Bragi

Víkurfréttir 10. apríl 2024:

Gummi Kalli sækist eftir biskupskjöri

Guðmundur Karl Brynjarsson sækist eftir kjöri í embætti biskups Íslands en biskupskjör hefst 11. apríl og því lýkur 16. apríl. Gummi Kalli, eins og hann er alltaf kallaður, er Keflvíkingur sem ólst m.a. upp í Holtunum í Keflavík. Hann hlustaði á pönktónlist, féll ítrekað á mætingu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og segir í samtali við Víkurfréttir að um tíma hafi hann verið afhuga kristinni trú. Útsendarar Víkurfrétta hittu Gumma Kalla í Keflavík á dögunum. Hann er í viðtali í blaði vikunnar en ítarlegt viðtal er í þættinum Suður með sjó sem verður aðgengilegur á vf.is á föstudag. Þátturinn verður einnig aðgengilegur sem hlaðvarp á helstu hlaðvarpsveitum.

Víkurfréttir 17. apríl 2024:

Aukið orkuöryggi með nýrri sorporkustöð í Helguvík

Niðurstöður úr nýrri skýrslu um hvort hagkvæmt sé að brenna úrgangi til orkuvinnslu hér á landi í nýrri hátæknisorpbrennslu eru jákvæðar. Það sé hagkvæmara að brenna úrgangi til orkuvinnslu en að flytja hann úr landi. Til skoðunar er að staðsetja stöðina sem myndi kosta 20-40 milljarða í Bergvík/Helguvík á Suðurnesjum.

Orkan, heita vatnið og rafmagnið sem stöðin myndi framleiða er umtalsverð og hugmyndin er að nýta hana og staðsetja brennsluna í samræmi við það. Hátæknibrennslustöð með 140 þúsund tonna afköst á ári geti verið mikilvægt „púsl“ til að auka orkuöryggi á Suðurnesjum og auka framboð á orku sem nú er umframeftirspurn eftir. Ef hugmyndin hlýtur brautargengi er næsta skref að stofna undirbúningsfélag til að vinna frekari greiningar- og undirbúningsvinnu. Sorpa, Kalka, HS Orka og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa sýnt áhuga á að koma að stofnun slíks félags.
Þegar hugmyndin kom upp á borð árið 2021 lýstu sveitarfélögin á Suðurnesjum yfir stuðningi við þessa uppbyggingu í Helguvík.

Víkurfréttir 17. apríl 2024:

Til í að vera með fimm svona bíla og gætu selt þá alla daga í allt sumar

Segja má að fyrstu frækornunum að Fjallagörpum hafi verið sáð í kringum 1970 þegar Guðmundur var að ferðast með föður sínum um hálendi Íslands. Hann tók ástfóstri við landið sitt og þennan ferðamáta og þegar hann hafði aldur til var hann kominn með farartæki sem hentaði í slík ferðalög. Hann byrjaði að vinna fyrir sér sem leiðsögumaður og kynntist svo Írisi sem hafði sömuleiðis áhuga á fjallaferðum. Eftir að hafa ferðast vítt og breitt um landið með börnin sín fjögur ákváðu þau að gera áhugamálið að sínu lífsviðurværi og stofnuðu Fjallagarpa. Íris byrjaði á að fara yfir upphafsskref fyrirtækisins og fór yfir hvernig ferðir eru í boði. „Fyrirtækið er stofnað út frá áhuga okkar á göngu og fjallaferðum. Guðmundur er alger fjallageit, þekkir nánast allt fjalllendi Íslands og Reykjanesið eins og handarbakið á sér. Við gengum með þennan draum í maganum, fengum okkur svo okkar fyrsta breytta bíl og í dag gerum við út þrjá bíla í ferðaþjónustu. Þetta er búin að vera vinnan hans Guðmundar í nokkur ár og ég er alltaf að koma meira og meira inn í daglega reksturinn, er einmitt að klára meiraprófið sem er skilyrði til að keyra með ferðamenn og stærsta bílinn okkar sem við köllum Mosa en hann er mikið breyttur ellefu manna Sprinter. Eins og bókunarstaðan fyrir sumarið lítur út væri ég til í að vera með fimm svona bíla, ég gæti selt þá alla daga í allt sumar. Ég á von á að þetta sumar verði alger bomba og er sannfærð um að Ísland eigi helling inni sem ferðamannastaður. Við eigum svo mikið af perlum hér á Íslandi, kúnninn okkar elskar þegar við förum með hann á stað sem hann hafði ekki hugmynd um og hann getur staðið þar í kyrrðinni og notið útsýnisins, hann þarf ekki að fara á Gullfoss og Geysi til að upplifa æðislega íslenska náttúru. Að keyra með erlendu ferðamennina hér á Reykjanesinu er líka mikil upplifun fyrir þá, þeim finnst eins og þeir séu á tunglinu. Við Íslendingar tökum þessu sem sjálfsögðum hlut en ferðamönnunum finnst landið okkar vera einstakt. Á síðasta ári fórum við rúmar 70 ferðir en hver ferð er allt frá degi upp í tíu daga, við fórum t.d. á föstudaginn langa í tveggja daga ferð með fjölskyldu frá Bandaríkjunum. Viðskiptavinahópurinn er að langstærstum hluta til erlendir ferðamenn en það er alltaf að aukast að íslensk fyrirtæki bjóði starfsfólki upp á hvataferðir með okkur, við höfum verið með steggjanir og gæsanir og eitt sinn fór Guðmundur með erlent par sem gifti sig í bílnum uppi á hálendinu. Erlendu ferðamennirnir eru hinir betur borgandi ferðamenn sem eru búnir að skipuleggja ferð sína frá a til ö. Við vinnum þetta mikið með ferðaskrifstofum, þar erum við saumuð inn í skipulag ferðarinnar og eins og ég segi, allt skipulagt í þaula, hvar sé gist o.s.frv,“ segir Íris.

Víkurfréttir 24. apríl 2024:

Líkbíllinn nær ekki þröngri vinstri beygju og þarf að fara krókaleiðir í kirkjugarðinn

Sóknarnefnd Njarðvíkurkirkju telur, í erindi til Reykjanesbæjar, lokun Reykjanesvegar til suðurs óásættanlega og óskar eftir að umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar endurskoði þessa ákvörðun og sú breyting sem verður gerð sé unnin í samvinnu við sóknarnefnd. Silja Dögg Gunnarsdóttir, formaður sóknarnefndar Njarðvíkursóknar, segir í erindi til bæjaryfirvalda að lokun á Reykjanesvegi við kirkjuna skapi, að mati sóknarnefndar, aukna slysahættu og óhagræði á umferð þegar margir kirkjugestir reyni að taka vinstri beygju inn á Njarðarbraut, t.d. eftir útfarir. „Líkbíllinn nær ekki að taka þessa þröngu vinstri beygju og þarf því að fara miklar krókaleiðir til að komast áleiðis í kirkjugarðinn, sem er óásættanlegt,“ segir Silja Dögg í erindinu og óskar eftir því að yfirvöld endurskoði þessa ákvörðun. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 7. júlí 2023 voru kynntar tillögur ungmennaráðs um betri gönguleiðir undir liðnum Umferðaröryggi íbúa Reykjanesbæjar. Fallist var á framkomnar tillögur. Lokun götunnar í samræmi við óskir ungmenna sem þekkja gönguleiðina er réttmæt ákvörðun en útfæra má lokunina betur. Afgreiðsla ráðsins er að starfsmenn umhverfis- og framkvæmdasviðs leggi fram tillögur að mögulegum lausnum.

Víkurfréttir 1. maí 2024:

Uppspretta kvikunnar í Svartsengi er undir Nátthagakrika

Sennilegast er að skjálftavirknin undir Fagradalsfjalli/Nátthagakrika stafi af djúpu innrennsli kviku. Þessir skjálftar eru djúpir, á 6-9 km. dýpi. Síðast á mánudag urðu nokkrir skjálftar á þessu svæði. Skjálftasvæðið er ábrerandi á Skjálftalísu Veðurstofu Íslands en með fréttinni má sjá skjáskot af vefsíðunni sem sýnir uppsafnaða jarðskjálfta frá áramótum og fram í þessa viku. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Víkurfréttir að líklegt sé að frá Fagradalsfjalli/Nátthagakrika fari kvikan til hliðar undir Svartsengi og upp í gosið við Sundhnúk/Hagafell. „Að svo komnu er því ekki ástæða til að draga þá ályktun að það stefni í nýtt gos þarna austar, hvað sem síðar verður,“ segir Magnús Tumi. Hann segir að ef rétt reynist, er líklegt að rennslið verði áfram á svipuðum slóðum og gýs nú, á Sundhnúkaröðinni. „Það er auðveldasta leiðin og kallar ekki á frekari opnun á svæðinu.“

Víkurfréttir 1. maí 2024:

Sjö fengu gullmerki

Um 2.000 manns mættu í afmælisveislu hjá Björgunarsveitinni Suðurnes og Slysavarnadeildinni Dagbjörgu, sem haldin var í húsnæði ­félaganna við Holtsgötu 51 í Reykjanesbæ, síðastliðinn laugardag. Hátíðarhöldin hófust kl. 13:00 með boði fyrir boðsgesti. Við það tækifæri veitti Björgunarsveitin Suðurnes tuttugu og tveimur fyrirtækjum þakklætisvott fyrir stuðning og samstarf á undanförnum áratugum. Víkurfréttir voru á meðal fyrirtækja í hópnum. Sjö félagar í Björgunarsveitinni Suðurnes fengu gullmerki sveitarinnar á þessum tímamótum. Það voru þau Guðbjörg Jónsdóttir, Arnar Steinn Elísson, Gunnar Stefánsson, Halldór Halldórsson, Pétur Gunnar Sigurðsson, Siggeir Pálsson og Haraldur Haraldsson. Sigurlaug Erla Pétursdóttir, formaður Slysavarnadeildarinnar Dagbjargar og Kristófer Jón Kristófersson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, fluttu ávörp og sögðu frá starfsemi félaganna. Björgunarsveitin Suðurnes var stofnuð þann 16. apríl 1994 og Dagbjörg, sem fyrst var Kvennasveitin Dagbjörg, var stofnuð á 10 ára afmæli björgunarsveitarinnar, 16. apríl 2004. Félögin voru því 20 og 30 ára á dögunum. Björgunarsveitin Suðurnes byggir á gömlum grunni og varð til við sameiningu Björgunarsveitarinnar Stakks í Keflavík og Hjálparsveitar skáta í Njarðvík. Björgunarsveitin Eldey í Höfnum kom svo síðar inn í félags­skapinn. Slysavarnarfélagsdeildin Eldey var stofnuð í Höfnum af tuttugu og einum félaga, nítján körlum og tveimur konum þann 6. desember 1931.

Víkurfréttir 1. maí 2024:

Úr Garðinum á stóru sviðin úti í heimi

„Það var ofboðslega spennandi þegar áhugi á hljómsveitinni vaknaði í Bandaríkjunum,“ segir Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, ein meðlima einnar vinsælustu hljómsveitar Íslands á erlendri grundu, Of Monsters and Men. Nanna ólst upp í Garðinum, fór í FS og heldur ennþá mikilli tengingu við Suðurnesin. Hljómsveitin vann Músíktilraunir árið 2010 og skaust má segja strax upp á stjörnuhimininn. Fjórða platan er í vinnslu en Nanna hefur auk þess gefið út eina sólóplötu og fleiri munu pottþétt fylgja í kjölfarið.

Nanna er ánægð með að hafa alist upp í Garðinum. Hún fæddist í Keflavík árið 1989 og bjó þar fyrstu árin en ólst svo upp í Garðinum svo fyrstu minningarnar eru þaðan. „Ég var held ég hefðbundið barn, byrjaði snemma að æfa íþróttir og þá helst fótbolta, ég á bara góðar minningar af því að hafa alist upp í Garðinum, þetta er yndislegt samfélag og mér finnst alltaf jafn gott að koma þangað. Ég fékk snemma áhuga á tónlist og um þrettán ára aldurinn fékk ég minn fyrsta gítar. Ég er ættuð frá Vestmannaeyjum, amma mín og afi í móðurætt eru þaðan eins og Geiri frændi minn, sem kenndi mér fyrstu gítargripin og fljótlega var ég farin að semja. Ég hafði strax mjög mikinn áhuga á að reyna búa til lög og skrifa texta, í raun þurfti ég að læra á hljóðfæri til að geta komið lögunum frá mér. Ég gat dundað mér endalaust inni í herbergi að teikna, skrifa texta og æfa mig á gítarinn og ég gekk líka í tónlistarskólann í Garðinum, var með frábæra kennara þar. Ég var ánægð með hvað þeir ýttu mér meira út í að læra m.v. að ég væri að semja, í stað þess að kenna mér á hefðbundinn máta. Mér fannst leiðinlegt að læra nótur og þetta hefðbundna sem manni er kennt í tónlistarskóla en fékk í staðinn aðeins að leika lausum hala. Í dag er ég hins vegar farin að hafa áhuga á að læra að lesa nótur, mér finnst magnað hvernig tónlistarmaður getur mætt í gigg án þess að hafa heyrt viðkomandi lag og spilar það bara eftir nótum!

Eftir grunnskóla fór ég í FS og var þá farin að spila aðeins opinberlega, kynntist fljótlega Brynjari Leifssyni, gítarleikara, sem er með mér í Of Monsters and Men (OMAM) í dag og við fórum að spila saman. Við byrjuðum að spila í Keflavík, t.d. á Paddy´s og vorum farin að spila talsvert í Reykjavík og víðar. Þarna vorum við eingöngu að spila mín lög, við Brynjar höfðum mjög svipaðan tónlistarsmekk og „bonduðum“ mjög vel tónlistarlega. Eftir nám í FS flutti ég svo til Reykjavíkur, fór í myndlistaskólann að læra myndlist, vann m.a. á videoleigu og var að spila, fljótlega urðu svo kaflaskil má segja.“


Víkurfréttir 8. maí 2024:

Heldur til í Svartsengi og bíður eftir gosi

Bílstjórinn Sigurbjörn Arnar Jónsson á sitt annað heimili í Svartsengi um þessar mundir. Hann stendur neyðarvakt allan sólarhringinn og er með tiltækan strætisvagn til að flytja á brott hótel- og baðgesti Bláa lónsins. Sigurbjörn gistir á Silica hótelinu og hefur síðasta vakt staðið yfir frá því á sumardaginn fyrsta. Víkurfréttir kíktu í heimsókn til kappans og ræddu við hann um starfið en það er mögulega einföldun á starfslýsingunni en Sigurbjörn hefur það starf þessa dagana að bíða eftir eldgosi. VF/Hilmar Bragi Bárðarson

Víkurfréttir 15. maí 2024:

Gerir við reiðhjól í frítímum

Svanur Már Scheving er vel þekktur hlaupa- og hjólreiðakappi í Reykjanesbæ og má sjá honum bregða fyrir hlaupandi eða hjólandi allan ársins hring, sama hvernig viðrar. Það eru fáir sem stand­ast Svani snúning en hann hjólaði m.a. hringinn kringum Ísland fyrir fáeinum árum. Nú hefur Svanur opnað hjólaverkstæði á Smiðjuvöllum í Reykjanesbæ en þá þjónustu hefur sárlega vantað í bæinn.

„Ég auglýsti mig og svo spyrst þetta einfaldlega út,“ segir Svanur en talsverður erill hefur verið hjá honum síðan hann opnaði hjólaverkstæðið sitt á Smiðjuvöllum í byrjun síðasta mánaðar. „Það koma alltaf fleiri og fleiri með hjól til mín. Það er virkilega gaman hvað fólk tekur þessu vel.“

Það hefur verið mikil þörf á svona þjónustu í bæinn, sérstaklega núna þegar skólarnir eru að klára. „Já og allir að fara af stað. Þessi þjónusta þarf að vera til staðar, hjólið bilar alveg eins og bíllinn. Það þarf að smyrja bílinn og sinna viðhaldi, þetta er alveg eins.“

Hvernig fólk hefur verið að leita til þín? „Þetta hefur verið allskonar fólk; eldra fólk, fólk á miðjum aldri eða fólk að koma með hjólin fyrir börnin.“
Svanur segir að hann muni jafnvel fljótlega fara að selja ný reiðhjól. „Ég ætlaði nú ekki að byrja á því strax en fólk hefur verið að spyrja um þetta og mögulega tek ég fljótlega inn hjól í samstarfi við Örninn. Þar fæ ég alla varahluti og þeir bakka mig upp.“

Víkurfréttir 22. maí 2024:

Íbúum Voga fjölgað um 22% og börnum fjölgar í Heiðarhverfi

Íbúum með skráð lögheimili í Sveitarfélaginu Vogum fjölgaði um 12,2% á árinu 2023 og voru þeir 1.500 talsins í árslok. Frá síðustu áramótum hefur íbúum með skráð lögheimili fjölgað um tæp 9% en að meðtöldum þeim íbúum sem hafa skráð aðsetur í Vogum en lögheimili í Grindavík nemur fjölgunin um 22% frá síðustu áramótum. Í heild eru íbúar í Vogum nú um 1.830 talsins en samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu Íslands voru íbúar í sveitarfélaginu 1.337 talsins í ársbyrjun síðasta árs. Íbúar Suðurnesja voru um síðustu mánaðamót 32.599 talsins og hafði fækkað um fjórtán einstaklinga frá 1. desember 2023. Það að íbúum Suðurnesja fjölgi ekki á tímabilinu má rekja til þess að Íbúum Grindavíkurbæjar fækkar um 266 á þessu tímabili eða um 7,2%. Í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 161 einstakling frá því í desember og í Suðurnesjabæ um 34. Í tölum fyrir Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ er ekki gert ráð fyrir þeim Grindvíkingum sem mögulega eru sestir þar að en eru með lögheimili skráð ennþá í Grindavík. Í viðtali við Lóu Björg Gestsdóttur, skólastjóra Heiðarskóla í Keflavík, í Víkurfréttum í dag kemur fram að í skólahverfi Heiðarskóla er barnafólki að fjölga mikið. í Haust eru 460 nemendur skráðir í Heiðarskóla en voru 407 á sama tíma í fyrra. Lóa segir að m.a. séu mörg börn úr Grindavík sem hafa byrjað nám í Heiðarskóla nú eftir áramót og fleiri séu skráð til skólavistar í haust. Þetta er fjölgun um þrjár bekkjardeildir á milli ára og Heiðarskóli, eins og margir aðrir skólar, glímir nú við húsnæðisskort.


Víkurfréttir 22. maí 2024:

Stærsti róðurinn á ævinni

Arnar Magnússon, strandveiðisjómaður á Golu GK, bjargaði lífi Þorvaldar Árnasonar, lyfjafræðings og strandveiðisjómanns, úti fyrir Garðskaga í síðustu viku. Þorvaldur var á leiðinni til fiskjar á Höddu HF þegar fraktflutningaskipið Longdawn sigldi hann niður á siglingaleið um sex sjómílur norðvestur af Garðskaga á þriðja tímanum aðfaranótt fimmtudagsins 16. maí síðastliðinn. Arnar og Þorvaldur hafa þekkst í um fjóra áratugi. Þeir voru saman á sjó í gamla daga og hafa svo verið að fást við strandveiðar á bátum sínum sem þeir gera út frá Sandgerði. Þorvaldur er nýlega byrjaður að stunda sjóinn að nýju. Hann átti Apótek Suðurnesja og Lyfjaval þar til fyrir stuttu að hann seldi reksturinn. Í stað þess að setjast í helgan stein ákvað hann að hafa eitthvað fyrir stafni með sjómennsku.



Víkurfréttir 22. maí 2024:

1.250 íbúðir verða byggðar á Vatnsnesi

Reykjanesbær hefur lagt fram vinnslutillögu um breytingu aðalskipulags svæðis M9 Vatnsness unnið af Kanon arkitektum og VSÓ Ráðgjöf, sem dagsett er maí 2024. Meginbreyting er að heildarfjöldi íbúða verður 1250 á svæðinu og heildarbyggingarmagn verður 185.000 fermetrar. Einnig er ákvæðum breytt í almenna kaflanum varðandi leyfisskylda starfsemi á miðsvæðum. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur jafnframt veitt heimild til að auglýsa vinnslutillöguna.


Víkurfréttir 29. maí 2024:

Gólfið skemmdist eftir heitavatnsleysi í náttúruhamförum

Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur samþykkt samhljóða tillögur í minnisblaði Jóns Ben Einarssonar, sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Suðurnesjabæjar, um endurnýjun á gólfi íþróttamiðstöðvarinnar að Garðbraut 94. Bæjarstjóra var falið að fylgja málinu eftir og kynna breytingu á fjárfestingaráætlun. Jón Ben Einarsson sat fund bæjarráðs og gerði grein fyrir minnisblaði og kostnaðaráætlun um endurnýjun á gólfi í íþróttasal íþróttamiðstöðvarinnar í Garði. Tjón á gólfinu kom til af völdum heitavatnsleysis vegna náttúruhamfara í febrúar 2024.


Víkurfréttir 29. maí 2024:

Stríðsástand við flugstöðina

Á A-stöðinni eru um fimmtíu leigubílar. Flestir eru bílstjórarnir karlra en nokkrar konur eru einnig með stöðvarleyfi og eru í akstri. Það hefur þó verið þannig í gegnum árin að leigubílaaksturinn hefur ferkar verið karlastarf, enda vinnutíminn oft langur og á ókristilegum tíma. Leigubílstjórar eru oftar en ekki komnir á ferðina um miðja nótt og síðasti túr dagsins jafnvel í kringum miðnætti. Leigubílstjórar eru að lenda í ýmis konar aðstæðum og margt skrautlegt sem oft gengur á. Undanfarnir mánuðir hafa verið sérstakir fyrir marga leigubílstjóra. Menn sem hafa alist upp við það sem kallað er stöðvarleyfi og að regluverk hafi verið í gildi um þessa atvinnugrein eru í dag að upplifa eitthvað frumskógarlögmál og algjört stjórnleysi. Upp hafa sprottið nýir bílstjórar sem eru mættir í harkið og jafnvel hefur komið til átaka. En hvernig stendur gamalgróna Aðalstöðin eða A-stöðin eins og hún heitir í dag? Útsendari Víkurfrétta hringdi í 420-1212 og pantaði bíl frá A-stöðinni. Óskað var eftir bílstjóra sem talaði kjarngóða íslensku og gæti sagt frá lífi leigubílstjórans á A-stöðinni. Kristinn Arnar Pálsson er talsmaður stöðvarinnar og tók blaðamann í bílferð um Reykjanesbæ.

Hvernig er líf leigubílstjórans í dag? „Já, það er mjög breytt eftir að þessi nýju lög komu og allt var gefið frjálst. Þetta er bara orðinn hálfgerður frumskógur. Það var allt gefið frjálst, verðlagning og annað og menn geta bara hagað sér eins og þeir vilja. Eins og kannski allir hafa heyrt þá er náttúrulega ástandið við flugstöðina ekki til að bæta að það. Það er bara stríðsástand þarna upp frá. Það er kominn hellingur að nýjum stöðvum og þær skiptast bara eftir þjóðernum, þjóðarbrotum og trúarbrögðum. Þetta er bara alls ekki gott hvernig ástandið er á þessu og eftirlitið er ekkert.
Á meðan gömlu lögin voru, þá voru við undir stanslausu eftirliti frá ríkisskattstjóra og lögreglu. Það var athugað með leyfi og hvort við værum að borga skatta. Í dag hefur ekkert verið gert síðan nýju lögin komu. Það hefur ekki verið litið á þetta. Á meðan gömlu lögin voru var litið á þetta sem fullt starf, nú er þetta hlutastarf og þar af leiðandi eru menn okkur frjálsir með hvað er gefið upp á sig og hvað er mikill tími á bak við þessa vinnu. Þetta er ekkert skoðað.“


Víkurfréttir 5. júní 2024:

Gosin fara stækkandi og engin merki um að dragi úr innrennsli kviku að neðan

„Gosin fara heldur stækkandi og það má skýra með því að nú er sáralítil gliðnun sem tengist gosunum. Því þarf að byggjast upp meiri þrýstingur nú en í upphafi. Þess vegna verða gosin stærri. Sprengivirknin sem við höfum séð telst minni háttar og stafaði af því að hraunið fossaði ofan í sprungu sem opnaðist og komst þar í snertingu við grunnvatnið, þá er algengt að af stað fari öflug sprengivirkni þar sem hvellsuða vatnsins tætir kvikuna í sundur. En það er engin ástæða til að ætla að við fáum raunveruleg sprengigos á þessum sprungum. Það gæti gerst ef gýs í sjó, eins og má búast við þegar gýs við Reykjanes, hvenær sem það verður. Miðað við söguna er líklegra að það gerist eftir nokkra áratugi eða jafnvel aldir,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Hann segir í samtali við Víkurfréttir að eldsumbrotin við Grindavík séu svipuð því sem sást í Kröflueldum, bara á öðrum tímaskala. Engin merki hafa komið fram sem benda til þess að það dragi úr innrennsli kviku að neðan. Meðan svo er, er ekkert hægt að segja til um hve lengi þessi virkni mun standa. „Gosvirkninni sem nú er búin að vera í gangi gæti hætt í sumar, en hún gæti líka staðið í ár í viðbót. Við höfum einfaldlega ekkert í höndunum til að segja fyrir um lokin á þessum atburðum.“


Víkurfréttir 12. júní 2024:

Afmælistónleikar á þaki Hljómahallar

Þrjátíu ára afmæli Reykjanesbæjar var m.a. fagnað með stórtónleikum á þaki Hljómahallar að kvöldi afmælisdagsins, þriðjudaginn 11. júní. Hljómsveitin Albatross kom fram ásamt Röggu Gísla, Friðriki Dór, Jóhönnu Guðrúnu og Sverri Bergmann. Meðfylgjandi mynd var tekin yfir hátíðarsvæðið, þar sem öll skemmtu sér konunglega. Nánar er fjallað um afmæli Reykjanesbæjar í blaðinu í dag en einnig bendum við á dagskrá á síðunni 30ara.is. VF/Hilmar Bragi Bárðarson

Víkurfréttir 12. júní 2024:

Fagurgrænn Stakkavíkurvöllur í Grindavík

Stakkavíkurvöllurinn í Grindavík er fagurgrænn eftir að hann var sleginn síðasta föstudag. Völlurinn er hins vegar ekkert notaður, þar sem heimavöllur Grindavíkur er í Reykjavík þetta sumarið. Grindvíkingar hafa þó áhuga á að spila a.m.k. einn leik í Grindavík í sumar og Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, staðfesti í samtali við Fótbolti.net að félagið hafi sótt um að fá að spila einn leik í Grindavík í sumar. Það fer svo eftir regluverkinu hjá viðbragðsaðilum hvað þurfi að gera svo hægt sé að spila leikinn, en Grindvíkingar hafa áhuga á að leika í Grindavík gegn Þór Akureyri miðvikudaginn 14. ágúst. Myndirnar voru teknar með dróna yfir Grindavíkurvellinum síðdegis á föstudag. VF/Hilmar Bragi

Víkurfréttir 12. júní 2024:

Jarðhræringar og mikil íbúafjölgun helstu áskoranir Reykjanesbæjar

Kjartan Már Kjartansson hefur starfað sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar frá 1. september 2014. Hann hefur yfirumsjón með starfsemi bæjarfélagsins og sér um að samþykktum bæjarstjórnar og ákvörðunum tengdum fjárhagsáætlun sé fylgt eftir. Í þrjátíu ára sögu Reykjanesbæjar hafa setið þrír bæjarstjórar. Kjartan Már frá árinu 2014, en á undan honum var Árni Sigfússon bæjarstjóri í tólf ár, frá 2002 til 2014. Ellert Eiríksson var hins vegar fyrsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar og gegndi því embætti frá stofnun sveitarfélagsins árið 1994 og til ársins 2002 eða í átta ár. Víkurfréttir fengu Kjartan Má í heimsókn á ritstjórnina og fyrsta spurningin var um það hvernig afmælisbarnið Reykjanesbær hefði það?

Hvernig hefur afmælisbarnið það?
„Afmælisbarnið er bara nokkuð vel haldið. Það hefur stækkað mikið og þroskast. Það er orðið mjög sjálfstætt og stendur á traustum fótum.“ Það hefur stækkað hratt. „Já, undanfarin misseri hefur það stækkað hratt. Áður stækkaði það bara hæfilega og jafnt en undanfarin misseri hefur það stækkað hratt. Síðustu tíu ár hefur það vaxið um 50%, þannig að frá 20 ára til 30 ára hefur afmælisbarnið stækkað um helming og það er ansi mikið. Þetta er mikil áskorun að öllu gamni slepptu fyrir okkur öll, íbúana og stjórnsýsluna, sem að þessu koma.“

Þú ert búinn að vera með puttana í málum Reykjanesbæjar á einn eða annan hátt í þessi þrjátíu ár. Þú hefur tekið þátt í bæjarstjórninni sem bæjarfulltrúi og nú hin síðari ár sem bæjarstjóri.
„Ég er eiginlega búinn að vera í þessu allan tímann. Ég gerðist varabæjarfulltrúi árið 1994, þegar afmælisbarnið fæddist. Ég var varabæjarfulltrúi frá 1994 til 1998 og var svo í bæjarstjórn frá þeim tíma til 2002 í meirihlutasamstarfi fyrir Framsókn. Þar vorum við Skúli Skúlason í bæjarstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ég var svo í minnihluta frá 2002 til 2006.“

Hvernig finnst þér svo hafa tekist til með sameinað sveitarfélag Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna?
„Mér finnst það að lang flestu leyti hafa tekist mjög vel til. Ég held að þetta hafi verið mikið gæfuspor fyrir okkur íbúa sem hér búum. Ég er líka minnugur orða Ellerts Eiríkssonar vinar míns, blessuð sé minning hans. Hann sagði alltaf að það tæki þrjár kynslóðir að sameina sveitarfélag eða sveitarfélög. Ég held að þetta, eins og allt annað sem kom frá þeim mæta manni, sé rétt. Þetta tekur tíma og ég held að þessar þrjár kynslóðir séu búnar að ganga í gegn. Það er að nást sátt. Það er samt alltaf einn og einn sem maður hittir sem telur að þetta hafi verið röng ákvörðun. En ég held að lang, langflestir, og sérstaklega allir þessir nýju íbúar sem hingað hafa flutt frá sameiningunni, séu ekkert að pæla í því hvort þeir séu í Keflavík eða Njarðvík. Þeir eru bara í Reykjanesbæ og það eru alltaf fleiri og fleiri sem líta þannig á að þeir búi í Reykjanesbæ og séu frá Reykjanesbæ. Það er alltaf minna og minna um Keflvíkinga og Njarðvíkinga.“

Og vita varla hvar bæjarmörkin voru.
„Já, einmitt. Og þegar maður útskýrir það fyrir þeim sem ekki bjuggu hér eða tóku þátt í þessu þá hlæja menn og konur af því. Við vitum hvar línan var en þeim fer hratt fækkandi sem eru að pæla í því.“

Hverjar eru helstu áskoranir Reykjanesbæjar í dag?
„Þær eru all nokkrar. Í fyrsta lagi núna, þegar við erum að tala saman, eru þessar jarðhræringar og eldgos á Reykjanesskaganum. Þó þetta komi ekki beint við okkur hérna, þá vissulega hefur þetta áhrif. Og jarðsagan segir okkur að þetta geti staðið í 100 ár. Þá verðum við að krossleggja fingur og biðja til guðs að það verði nú ekki þannig og þá kannski helst Grindvíkinga vegna. Við vitum ekkert hvernig þetta þróast og hvernig þetta fer allt saman. Önnur áskorun er gríðarleg fólksfjölgun sem heldur bara áfram. Þó það kunni að vera af hinu góða þá er það að mínu mati aðeins of mikið einmitt núna. Okkur er að fjölga um rúm sex prósent á ári sem þýðir að við þurfum að hafa okkur öll við að reisa grunnskóla og leikskóla, gera nýjar götur og hverfi. Við huggum okkur þó við það að það væri helmingi verra ef þetta væri í hina áttina og íbúar væru að flýja og fara í burtu og þeim myndi fækka. Þriðja stóra áskorunin tengist íbúafjölguninni, sem er að mestu leyti fólk af erlendum uppruna. Yfir 90% af íbúafjölguninni er fólk af erlendu bergi brotið. Við höfum sagt það mörgum sinnum að núna eru yfir 100 þjóðerni sem búa í sveitarfélaginu og það eru á milli þrjátíu og fjörutíu tungumál töluð í leik- og grunnskólum bæjarins. Hún reynir mjög mikið á allt og alla þessi fjölmenningu, sem þetta náttúrulega er. Við þurfum að læra af þeim þjóðum sem hafa þegar gengið í gegnum nákvæmlega þetta sama, eins og Norðurlöndin fyrir áratugum síðan. Við erum með mjög gott fólk að vinna í þessum málum. Smátt og smátt snertir þetta allar hliðar samfélagsins og við höfum alveg orðið vör við það og það er mjög mikil áskorun.“

Víkurfréttir 20. júní 2024:

Frostfrí Suðurnes með lághita úr Rockville

Borun eftir lághita við Rockville á Miðnesheiði hefur skilað góðum árangri. Þar streymir nú upp vatn sem er yfir 70 gráðu heitt. Auður Agla Óladóttir, jarðfræðingur hjá ÍSOR, segir holuna sem var boruð við Rockville vera mjög vel heppnaða.

Í vetur var ráðist í neyðarverkefni á vegum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Lagt var upp með að bora þrjár djúpar tilraunaholur í leit að lághita og koma upp vara hitaveitu ef röskun verður á starfsemi hitaveitunnar í Svartsengi vegna eldsumbrota. Að borunum standa HS Orka, Ísor og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Holurnar eru svo boraðar í samstarfi Jarðborana og Ræktunarsambands Flóa og Skeiða. Í vetur var boruð hola á Njarðvíkurheiði, nálægt Stapafellsvegi. Hún er að gefa um 30 sekúndulítra af um 40 gráðu heitu vatni. Í byrjun sumars var svo ráðist í borun á Miðnesheiði við Rockville. „Það er mjög vel heppnuð hola. Hún er að gefa um 30 sekúndulítra af yfir 70 gráðu heitu vatni. Ef holan er notuð til skamms tíma má ná mun meira magni úr henni á sekúndu,“ segir Auður Agla í samtali við Víkurfréttir.

Holan við Rockville gjörbreytir stöðunni í heitavatnsmálum á Suðurnesjum til betri vegar. Vatnið er salt og verður notað til að hita upp kalt ferskvatn. Að sögn Auðar Öglu mun það magn sem fæst úr holunni við Rockville nýtast til að halda húsum á Suðurnesjum frostfríum komi upp svipuð staða og í vetur þegar Njarðvíkuræðin brast undan hraunstraumi.

Nú á eftir að bora eina tilraunaholu til viðbótar við Vogshól áður en framhaldið verður ákveðið. Möguleikar eru á að bora fleiri holur við Rockville og ná upp meira magni af heitu vatni þar. Það er hins vegar verkefni framtíðarinnar og er utan þess neyðarverkefnis sem almannavarnir réðust í á svæðinu.

Víkurfréttir 20. júní 2024:

Þurfum að byrja strax á næsta verkefni


„Þetta var æðisleg vika og heppnaðist vel. Veðrið var svo gott og þá voru margir skemmtilegir viðburðir. Þetta var frábær vinna hjá menningarstarfsfólkinu okkar og þeim hópum sem komu að þessu. Þau hafa staðið sig vel með barna- og ungmennahátíðina en þetta var næsta verkefni, risastór heil vika með fullt af ígrunduðum viðburður og eitthvað fyrir alla. Það var gaman alla daga, svo ég tali nú ekki um tónleikana á þaki Hljómahallar. Þeir tókust rosalega vel og ég er eiginlega bara orðlaus. Ég heyrði í okkar allra besta Sverri Bergmann, sem var þarna uppi á þaki, og hann heldur að það hafi verið 1500 til 2000 manns á svæðinu þegar mest var. Ég fæ bara hlýtt í hjartað yfir því að fólkið okkar sé að mæta svona vel á skipulagða viðburði,“ segir Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, í viðtali við Víkurfréttir að aflokinni afmælisviku Reykjanesbæjar, þar sem 30 ára afmæli bæjarins var fagnað. Guðný Birna sagðist alsæl eftir afmælisvikuna.

Hvað fékk þig til að fara að stússast í pólitík?
„Ég var eiginlega plötuð í þetta fyrir tíu árum síðan. Ég mætti þá í viðtal hjá Hauki Guðmundssyni sem fékk mig til að ganga í Samfylkinguna og taka annað sætið á framboðslista í bæjarstjórnarkosningum. Ég lét til fallast en það hefur verið mitt lífsmottó að taka vel í hlutina og prófa nýja hluti og hafa gaman af öllu. Ég slysaðist í þetta en sem betur fer kann ég vel við mig. Þetta er búin að vera ótrúleg ferð, vegferð að taka við Reykjanesbæ á erfiðum tímum og núna tíu árum síðar að sjá hvert bærinn er kominn, orðinn 30 ára þar sem hefur verið rosaleg fólksfjölgun og mikið um að vera. Ég er bara glöð í hjartanu að sjá hversu vel þetta hefur gengið undanfarin ár. Ég er heppin að hafa unnið með góðu fólki og við eigum frábært starfsfólk hjá bænum okkar. Það eru allir metnaðarfullir að gera okkur æðisleg og við erum á þannig vegferð.“

Þið hafið fengið fullt af verkefnum í hendurnar?
„Já, heldur betur. Og núna á miðju þriðja kjörtímabili var ég að vonast til að við gætum farið í gæluverkefni og eyða peningum í eitthvað gleðilegt, en þá lendum við í þessum hörmungum sem húsnæðisskemmdirnar voru, bæði í Holtaskóla og Myllubakkaskóla. Reyndar í fleiri stofnunum einnig. Ég kalla þetta hörmungar, því þetta er búið að vera mjög erfitt og gríðarlega kostnaðarsamt og flókið. Við erum með starfsfólk og nemendur út um allan bæ en sem betur fer erum við að sjá fyrir endann á þessu. Við settum alla okkar áherslu á að laga þessi hús og gera byggingarnar heilsusamlegar vistarverur fyrir okkar allra besta fólk. Það hefur verið okkar fókuspunktur núna.“

Víkurfréttir 26. júní 2024:

Húsfyllir hjá Hallgrími

Það var þétt setinn kirkjubekkurinn í Hvalsneskirkju síðasta sunnudag. Þar fór fram sumarmessa sem helguð var minningu sr Hallgríms Péturssonar, sem þjónaði á Hvalsnesi á árunum 1644–1651. Í haust verða liðin 350 ár frá andláti hans. Félag fyrrum þjónandi presta annaðist sumarmessuna í Hvalsneskirkju en myndin var tekin að lokinni athöfn. Kirkjugestum var öllum boðið í kaffi og konfekt að lokinni messu í gamla Hvalsnesbænum. Þar verður opnað veitinga- og kaffihús í lok júlí. VF/Páll Ketilsson

Víkurfréttir 26. júní 2024:

Rífa Hópið og tugi annarra eigna í Grindavík

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur heimilað sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að hefja undirbúningsvinnu við niðurrif á Hópinu, knattspyrnuhúsi Grindavíkur. Hópið er eitt af yfir sextíu húsum í Grindavík sem þarf meira og minna að rífa. Ástand húseigna Grindavíkurbæjar eftir náttúruhamfarir var tekið fyrir á síðasta fundi bæjarstjórnar. Forgangsraða á verkefnum og kostnaðarmeta og leggja fyrir bæjarstjórn. Að minnsta kosti 64 altjón hafa verið skráð hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, að því er greint var frá á ruv.is á dögunum. Á meðal þessara eigna eru Hópið. Dvalar- og hjúkrunarheimilið Víðihlíð er mikið skemmt að hluta. Þá var sagt frá því að nýleg viðbygging við Hópskóla, þar sem kennsla 1. til 4. bekkjar hefur farið fram, væri skemmd og þurfi jafnvel að rífa. Fjölmargar húseignir við Víkurbraut austanverða hafa orðið fyrir altjóni og eignir í Hópshverfinu. Einnig eignir í iðnaðarhverfi austan Grindavíkurhafnar. Flestar skemmdu eignirnar standa í jöðrum þeirra tveggja sigdala sem mynduðust eftir hamfarirnar í nóvember 2023 og eftir eldgosið í janúar 2024. Vonast er til að niðurrif eigna geti hafist síðar í sumar. Ekki er heimilt að byggja aftur á þeim lóðum þar sem eignir víkja.