HSS
HSS

Fréttir

Endurskoðun á reglum um lóðarúthlutanir mótmælt
Þriðjudagur 4. febrúar 2025 kl. 19:05

Endurskoðun á reglum um lóðarúthlutanir mótmælt

Nýlega hefur reglum um lóðaúthlutanir sem samþykktar voru árið 2017 verið breytt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Ekki eru allir sammála um breytinguna. Umbót er ekki sammála þessum breytingum og var bókun þess efnis lögð fyrir á bæjarstjórnarfundi sem var að ljúka í dag, þriðjudaginn 4. febrúar.

Í bókuninni segir m.a.:

„Umbót er algerlega ósammála þeim breytingum sem lagðar hafa verið til á reglum um lóðarúthlutanir og mun ekki samþykkja þær. Samkvæmt nýjum reglum er hjónum og sambýlisfólki jafnað til eins umsækjenda með vísan í skilgreiningu fjármálaeftirlitsins á lögaðilum sem fjárhagslega tengdir innherjar. Þessi breyting er ósanngjörn og hefur íþyngjandi áhrif á einstaklinga sem vilja búa nálægt fjölskyldu sinni. 

Í dag búa börn lengur í heimahúsum þar sem staða á leigumarkaði er óásættanleg. Ef foreldrar og fullorðinn einstaklingur ætla að kaupa sér lóð undir hús og búa hlið við hlið, gengur það ekki upp samkvæmt nýju reglunum, þar sem þau teljast til sama umsækjenda vegna sameiginlegs lögheimils. Eina leiðin til að komast hjá þessu er að einstaklingur skrái sig á annað lögheimili, sem er bæði óraunhæft og ósanngjarnt. 

Umbót telur þessar reglur  mismunun og óskiljanlega skerðingu á möguleikum fjölskyldna til að skipuleggja búsetu sína með hagkvæmum og skynsamlegum hætti. Við segjum því nei við þessum breytingum.“

Undir þetta ritar Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.