Sjávarflóð verði flokkuð með ofanflóðum og hraunflóðum
„Það er augljóst að byggja þarf upp mun öflugri varnir gegn sjávarflóðum og styrkja varnir víða með ströndinni, þar sem ágangur sjávar hefur aukist og reikna má með að sú þróun haldi áfram í nánustu framtíð. Miðað við núverandi aðstæður eru ýmis konar mannvirki og verðmæti í hættu,“ segir í afgreiðslu bæjarráðs Suðurnesjabæjar. Deildarstjóri umhverfismála hefur tekið saman minnisblað um þau sjávarflóð sem urðu m.a. í Suðurnesjabæ í byrjun mánaðar.
Í minnisblaðinu koma fram lýsingar á umtalsverðum sjávarflóðum í Suðurnesjabæ í byrjun mars ásamt upplýsingum um áherslur Suðurnesjabæjar til Vegagerðarinnar og stjórnvalda um uppbyggingu varna gegn sjávarflóðum.
Bæjarráð Suðurnesjabæjar skorar á stjórnvöld að styðja mun meira við aðgerðir til varnar sjávarflóðum með ströndum landsins og verja til þess mun meira fjármagni en nú er gert ráð fyrir í samgönguáætlun. Jafnframt skorar bæjarráð á stjórnvöld að skoða þann kost að sú náttúruvá sem felst í sjávarflóðum verði flokkuð með ofanflóðum og hraunflóðum og byggður verði upp sérstakur sjóður til að fjármagna aðgerðir og framkvæmdir til að verjast þeim náttúruhamförum.