Orð eru til alls fyrst í Duus-húsum og víðar í Reykjanesbæ
Fimmtudaginn 6. mars hófst Skáldasuð í Duus-húsum en þetta er annað árið í röð sem þessi ljóða- og listasýning er haldin og er yfirskrift sýningarinnar í ár, Orð eru til alls fyrst. Sýningin stendur til 23. mars en það er listakonan Gunnhildur Þórðardóttir sem stendur á bak við sýninguna. Sýningin fer ekki bara fram í Duus-húsum, ljóðlestur verður í sundhöll Reykjanesbæjar, Vatnaveröld og eins verður hægt að lesa ljóð þar og á vinsælum gönguleiðum. Ljóðaupplestur fór fram í Duus-húsum þegar sýningin opnaði og mun aftur fara fram fimmtudaginn 13. mars.

Gunnhildur byrjaði á að skýra nafn sýningarinnar út.
„Ég hugsaði nafnið út frá Suðurnesjum og suð er ákveðið hljóð, það kemur jú stundum fyrir að vindurinn blási hér og þá er suð en svo eru Suðurnesin líka suðupottur að einhverju skapandi, hér hefur alltaf verið blómlegt listalíf og fjölmörg ljóðskáld sem héðan koma. Ég vildi koma á nýrri listahátíð hér og get ekki sagt annað en ég sé ánægð með byrjunina, það var mjög góð mæting á hátíðina í fyrra og ég held að hún verði ekki síðri í ár. Það eru bæði þekkt og óþekkt ljóðskáld sem koma fram á sýningunni, og bæði frá Suðurnesjum og utan þeirra.“

Það eru ekki allir sem lesa ljóð en ef fólk myndi gera það þá telur Gunnhildur að þau kynnu að meta þau, hún er með góð ráð í pokahorninu.
„Ég mæli alltaf með að fólk komi á upplestur, það er allt öðruvísi að mæta og heyra ljóðskáldið sjálft fara með ljóðið sitt því það túlkar sitt eigið ljóð á annan hátt en þegar maður les ljóðið heima hjá sér, þó það sé frábært líka. Það er svo mikil upplifun að heyra skáldið fara með ljóðið sitt, þá heyrir maður áherslurnar og á auðveldar með að setja sig inn í hugarheim skáldsins. Ég hvet alla til að koma á upplesturinn á fimmtudaginn kl. 17.“
Listagyðjunni svalað frá unga aldri
Gunnhildur var ekki gömul þegar hún hneigðist til lista.
„Ég var snemma byrjuð að semja ljóð, í raun á sama tíma og ég lærði að lesa og skrifa, ég á eitthvað af þeim ljóðum ennþá. Ég myndskreytti þau og þetta voru mínar stundir, ég las mikið af ljóðabókum og hef alltaf haft mikinn áhuga á ljóðum. Foreldrar mínir voru ekki mikið að spá í ljóðum svo þessu var alls ekki ýtt að mér, ég bara fæddist með þennan áhuga held ég. Mér hefur alltaf þótt gaman að vinna með texta og list, þetta tvennt passar mjög vel saman finnst mér. Ég var ekki gömul þegar ég sendi ljóð til Morgunblaðsins en ég gaf ekki út mína fyrstu ljóðabók fyrr en talsvert seinna og hef gefið út nokkrar síðan þá. Ég mun lesa ný ljóð á sýningunni í ár en von er á nýrri ljóðabók frá mér á árinu.
Ég fór til Cambridge í Englandi í sjö ár í listnám og menningarstjórnun eftir að ég kláraði FS árið 1999. Tíminn í Cambridge var frábær, ég tók þátt í alls kyns skemmtilegu sjálfboðastarfi tengdu listum og flutti svo heim rétt fyrir hrun. Ég bætti á mig kennsluréttindum, kenndi í Myllubakkaskóla í tíu ár en er að vinna sem myndlistarkennar í FS í dag. Ég sinni listagyðjunni samhliða þessu, er alltaf að vinna tví- og þrívíð verk, var með sýningu fyrir stuttu en ég reyni að vera með tvær einkasýningar á ári og tek auk þess þátt í samsýningum. Svo er ég auðvitað alltaf líka að semja ljóð og eins og ég nefndi, ný ljóðabók kemur út á þessu ári.
Ég hlakka mikið til að taka á móti gestum á Skáldasuði í ár,“ sagði Gunnhildur að lokum.
Viðtal við Gunnhildi er í spilaranum hér að neðan.