Mannlíf

Góður árangur dansara frá Suðurnesjum á Samfés
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 4. mars 2025 kl. 18:17

Góður árangur dansara frá Suðurnesjum á Samfés

Danskeppni Samfés (Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi) fór fram sl. föstudag í Garðabæ og sendi félagsmiðstöðvar af Suðurnesjum einn hóp til keppni. Stelpurnar stóðu sig frábærlega og hrepptu þriðja sætið í keppninni.

Hópurinn samanstendur af þeim Emelíu Bjarnveigu Skúladóttur, Birtu Rós Árnadóttur, Natalíu Mist Pétursdóttur og Emilíu Hrönn Björnsdóttur og koma þær frá þremur félagsmiðstöðvum á Suðurnesjum, Fjörheimum, Eldingu og Þrumunni.

Alls tóku yfir 30 hópar og einstaklingar þátt frá fyrir tuttugu félagsmiðstöðvum en keppnin hefur lengi verið einn af hápunktum viðburða Samfés fyrir þenna aldurshóp. Keppnin í ár vakti athygli fyrir fjölbreytta dansstíla og var frábær stemning á viðburðinum, sem fjölmörg ungmenni sóttu. Keppnin er einstakur vettvangur fyrir unga dansara til að þróa hæfileika sína, byggja upp sjálfstraust og kynnast jafningjum með sömu áhugamál. Augljóst er að dansmenning meðal ungmenna er í miklum blóma og framtíðin er björt fyrir ung og skapandi listafólk, eins og segir á heimasíðu Samfés.

Svala Rún Magnúsdóttir.

Svala Rún Magnúsdóttir er aðstoðarforstöðumaður Fjörheima, hún var himinlifandi yfir árangri stelpnanna.

„Það var gaman að sjá hvað stelpunum gekk vel en þær koma frá þremur félagsmiðstöðvum, Fjörheimum, Eldingu og Þrumunni sem er frá Grindavík. Einn keppandinn, Birta Rós, er þaðan og hún vildi keppa undir merkjum Þrumunnar, að sjálfsögðu leyfðum við það. Atriðið þeirra var frábært og það kom mér ekki á óvart að þær skyldu hið minnsta ná þriðja sætinu, þær voru frábærar. Ég er búin að vera vinna í Fjörheimum í þrjú ár og okkar keppendum hefur venjulega gengið vel en árangurinn í ár var frábær. Það er mikil gróska í dansinum hér í Reykjanesbæ, ég held að allar stelpurnar í hópnum séu að æfa í Danskompaní og þar fá þær frábæra æfingu. Síðan virkar þetta þannig að þegar lýður að aðalkeppni samfés þá geta hópar og einstaklingar skráð sig, þær æfa sig og svo er mætt í keppnina. Það var ofboðslega gaman að vera á keppninni í ár, mjög góð mæting og hörkugóð stemning. Ég held að það sé ekki nokkur spurning um að framtíð dansmenningar hjá ungdómnum okkar er björt,“ sagði Svala Rún.

Hópurinn frá Suðurnesjum, frá vinstri: Emelía Bjarnveig Skúladóttir, Birta Rós Árnadóttir, Natalía Mist Pétursdóttir og Emilía Hrönn Björnsdóttir.