Mögnuð upplifun að keyra hægfara jarðýtu með glóandi hraun skammt frá
Vinnudagur verkafólks í Grindavík er í mörgum tilvikum frá u.þ.b. 7:30 til 15:30 og allt eftir það er yfirvinna, sjaldnast unnið um helgar en það kemur þó fyrir. Vinnudagur og vinnuvika Sigurbjörns -Ingvarssonar hefur verið talsvert lengri síðan skömmu eftir að jarðhræringarnar við Grindavík hófust í nóvember 2023. Fljótlega var farið í stórkostlegar mótvægisaðgerðir þar sem varnargarðar risu á undraskömmum tíma við Svartsengi og svo við Grindavík.
Sibbi eins og hann verður kallaður í þessari grein, var einmitt staddur á bakvakt helgina örlagaríku í janúar 2024 þegar annað eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni hófst. Hann og aðrir starfsmenn máttu hafa sig alla við að bjarga tækjum sem sum eru metin á hundruðir milljóna króna en til eru mögnuð myndbönd af þessum björgunarleiðangri þar sem einungis nokkrir metrar voru í glóandi hraunið. Sibbi þurfti ekki að hafa kveikt á hitanum inni í jarðýtunni sem hann stjórnar á þeim tímapunkti en sú græja er „ekki nema“ 75 tonn að þyngd og er þó ekki þyngst, ein ýtan vegur heil 115 tonn!
Sibbi vissi fljótlega hvert hans leið myndi liggja á atvinnubrautinni, hann er frá Þorlákshöfn en býr í dag á Selfossi, þaðan sem konan hans er. Það er varla að hann viti hvað enski boltinn er en er sem Þorlákshafnarbúi, mikill áhugamaður um körfuknattleik. Áhugamálin hafa þó alltaf snúist um mótorsport og vélar almennt. Hann var byrjaður að keyra traktor í sveitinni sem pjakkur og ekki kæmi á óvart ef hann hafi stolist á vinnuvélar áður en tilskildum sautján ára bílprófsaldri var náð.
„Ég var ekki gamall þegar áhugi á alls kyns vélum heltók mig og því þurfti ekki að koma á óvart að leið mín á atvinnubrautinni lægi í þá átt. Ég var á átjánda ári þegar ég var byrjaður að vinna á stórum vinnuvélum og í dag vinn ég hjá Ingileifi Jónssyni ehf. og hef verið hjá honum síðan 2007.
Maður þarf að sjálfsögðu að vera með meiraprófið, fara á vinnuvélanámskeið en svo fær maður einfaldlega þjálfun hjá einhverjum sem hefur reynslu og hefur auk þess réttindi til að kenna á viðkomandi tæki. Ég er með slík réttindi, fæ oft nemendur upp í ýtuna hjá mér og þá er ekkert annað að gera en læra á stjórntakkana og æfa sig. Ég taldi mig vera nokkuð vel lærðan í þessum fræðum en er búinn að læra helling af öðrum reyndari ýtumönnum.
Það hefur alltaf verið nóg að gera hjá okkur hjá Ingileifi Jónssyni, við vorum lengi með snjómokstur á Hellisheiði og í Þrengslunum og höfum verið með jarðvinnu og vetrarþjónustu fyrir Orku Náttúrunnar á Hellisheiði og Nesjavöllum, auk annarra svæða. Auðvitað sá enginn þetta fyrir hér í Grindavík í kjölfarið á hamförunum en það var vitað að fyrirtækið ætti stórvirkar vinnuvélar og ég fylgdi minni jarðýtu til Grindavíkur og hef verið hér meira og minna síðan 16. nóvember 2023. Það var unnið á vöktum allan sólarhringinn til að byrja með og það var gaman að sjá hversu fljótt garðarnir við Svartsengi risu. Strax eftir jólafríið keyrði ég svo ýtuna mína yfir Grindavíkurveginn og við vorum byrjaðir fljótlega í janúar að reisa garðana austan við Grindavík. Sem betur fer vorum við komnir vel af stað þegar eldgosið hófst sunnudaginn 14. janúar og nokkuð ljóst að garðarnir sem voru komnir upp þá björguðu mjög miklu. Við gátum eðlilega ekki varist hrauninu sem komst í sprungu undir garðana og opnaðist svo rétt fyrir utan Grindavík, það var ömurlegt að horfa upp á það en eins og ég segi, við gátum ekkert gert í því.“
Björgunarleiðangur um miðja nótt
Sibbi var ræstur rúmlega þrjú aðfaranótt sunnudagsins 14. janúar, hann gleymir ekki ræsingunni þessa örlagaríku nótt og brunaði Suðurströndina til Grindavíkur.
„Við söfnuðumst saman í vinnubúðum sem við höfum í Svartsengi þegar við komum á svæðið og biðum þar í skjálftum og hræringum þar til gosið byrjaði. Þetta er talsverður spotti þaðan sem vinnuvélarnar allar voru, að Grindavíkurvegi. Þetta hafa verið á bilinu tíu til tuttugu vélar, allt frá stærstu ýtu landsins sem vegur 115 tonn, yfir í Búkollu-vörubíla. Ég fór tvær ferðir og ég neita því ekki, ég mun aldrei gleyma þessum augnablikum að vera keyra hægfara vinnuvélar og glóandi hraun var það nálægt að hitinn nánast bræddi það sem var inni í stýrishúsinu! Það er nokkuð ljóst að þessi björgunarleiðangur bjargaði verðmætum sem eru fljót að hlaupa upp í milljarða! Ég á myndbönd af þessum aðgerðum og mun alltaf varðveita þau,“ segir Sibbi.
Langur vinnudagur, og -vika
Vinnuvika verkafólks telst vera 40 klukkustundir. Fólk í alls kyns þjónustu og verslun vinnur 35 tíma vinnuviku. Öll vinna umfram þennan klukkustundafjölda telst til yfirvinnu og vinna um helgar flokkast að sjálfsögðu þar undir. Hér áður fyrr var miðað við tvo kaffitíma, 30 mínútur hvor og klukkustundar matarhlé. Pásur eru þarna inn á milli. Vinnutími Sibba og félaga hefur verið talsvert meiri.
„Ég er mættur upp í ýtuna mína á slaginu átta, sem þýðir að ég stilli vekjaraklukkuna á sex en við erum tveir sem keyrum saman frá Selfossi. Við getum tekið með okkur nesti sem okkur er skaffað en við yfirgefum vinnuvélina ekki fyrr en hálf eitt þegar við fáum 30 mínútna neysluhlé. Svo er haldið áfram sleitulaust til klukkan sjö um kvöld þegar unnið er á vöktum og þá einfaldlega keyrt heim til fjölskyldunnar, eytt tíma með henni og lagst til hvílu en ég á kærustu og þrjú börn. Undanfarnar vikur höfum við unnið laugardaga líka en fengum frí á sunnudegi. Þá daga var maður ekki líklegur til stórræða, konan hafði vit á að vera ekkert að reyna draga mig í Kringluna eða Smáralind fyrir jólin. Þetta er búið að vera mikið álag og maður þarf að hvíla lúnu beinin sín. Síðasti laugardagur var sá fyrsti í langan tíma sem ekki var vinna og það var fín tilbreyting, ég neita því ekki. Við erum búnir með þetta verkefni núna en þó verður unnið áfram hér í Lágafelli við að lagera okkur upp fyrir næsta viðburð, það þýðir ekki að byrja reisa varnargarða með ekkert efni tiltækt.“
Ekki fyrir lofthrædda
Það var magnað að standa með nafna sínum við Lágafell, já eða réttara sagt, því sem eftir stendur af því! Viðtalið fór að mestu fram undir berum himni en þar stóð áður eitt stykki fell! Blaðamaður fékk lofthræðslusting í magann þegar hann sá risastóra ýtu efst í því sem eftir er af Lágafellinu og hélt að hún ætlaði að húrra niður!
„Þetta er ekkert, þetta er mín vinna. Ég fer á ýtunni minni upp, „rippa“ upp jarðveginn en það má líkja því við að vera með plóg að plægja akur. Ripperinn er aftan á ýtunni og þegar ég er búinn að rippa, sný ég mér við og ýti efninu fram af fellinu og það hrynur alla leið niður og er mokað þaðan upp á vörubíla sem flytja það í garðana.
Þegar vinnan við garðana hófst var fyrst tekið efni úr Melhólanámu en á síðasta ári færðum við okkur hingað yfir og eins og sést þá er búið að taka gífurlegt magn af efni héðan. Við erum búnir að vera hækka garðana við Svartsengi og austan við Grindavík og þessari törn er að ljúka en svo vitum við auðvitað ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér en eitt er víst að við verðum við öllu búnir.
Ég lít á þetta sem alger forréttindi og heiður, að fá að eiga þátt í að bjarga svona fallegu bæjarstæði og -félagi eins og Grindavík er. Ég held að það blasi við að ef þessir garðar hefðu ekki risið, væri Grindavík jafnvel öll komin undir hraun og það mátti alls ekki gerast. Ég mun alltaf muna eftir Grindavík og mér mun alltaf þykja vænt um Grindavík og Grindvíkinga,“ sagði Sibbi að lokum.