Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Mannlíf

Skáldasuð Ljóða- og listahátíð á Suðurnesjum
Fimmtudagur 27. febrúar 2025 kl. 06:39

Skáldasuð Ljóða- og listahátíð á Suðurnesjum

Skáldasuð er haldin í annað sinn í ár en það er ný ljóða – og listahátíð sem var fyrst haldin í fyrra suður með sjó. Hátíðin verður í Bíósal í Duushúsum í Listasafni Reykjanesbæjar dagana 6.–23. mars næstkomandi. Þessi litla ljóðahátíð er hugarfóstur myndlistarmannsins Gunnhildar Þórðardóttur sem er einnig ljóðskáld og kennari. Hátíðin hefst fimmtudag 6. mars kl. 17 með opnun á sýningunni Orð eru til alls fyrst með myndverkum eftir Jónu Hlíf Halldórsdóttur, Hönnu frá Jaðri, Samfélag fyrir öll (sjálfstætt verkefni Vena Naskrecka), Anton Helga Jónsson, Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, Sossu og Gunnhildi Þórðardóttur. Verkin á sýningunni tengjast öll texta á einn eða annan hátt og eru bæði tví – og þrívíð verk. Bæjarstjórinn Kjartan Már Kjartansson mun opna sýninguna og setja hátíðina.

Sama kvöld hefst fyrri ljóðaupplestur Skáldasuðs eftir opnun en þar munu koma fram skáldin Kristrún Guðmundsdóttir, Anton Helgi Jónsson, Margrét Lóa Jónsdóttir, Draumey Aradóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir.

Á seinna upplestrarkvöldinu 13. mars næstkomandi kl. 17 munu ljóðaskáldin Elías Knörr, Gunnhildur Þórðardóttir, Ægir Þór Jahnke, Validmar Tómasson og Sigurbjörg Þrastardóttir stíga á stokk, sem fyrr mun upplesturinn fara fram í Bíósal Duushúsa.

Laugardag 15. mars kl. 12–14 verður svo haldin ljóðasmiðja fyrir börn og ungmenni með Gunnhildi Þórðardóttur en hátíðin er hugsuð fyrir börn jafnt sem fullorðna. Ljóðin úr smiðjunni verða til sýnis á Barnamenningarhátíð í Reykjanesbæ í apríl - maí.

Á meðan á hátíðinni stendur verða til sýnis ljóð í leiðinni í Sundlaug Keflavíkur, Vatnaveröld, Ljósaljóð í strætóskýlum bæjarins og ljóðalabb þ.e. ljóð á ýmsum gönguleiðum um bæinn. Þar munu koma fram ljóðskáldin Garðar Baldvinsson aka Garibaldi, Guðmundur Magnússon, Ragnheiður Lárusdóttir, Guðmundur Brynjólfsson, Eygló Jónsdóttir og Eyrún Ósk Jónsdóttir. Þá mun verkefnastjóri vera með örljóðaupplestur í heitum pottum daga 7. og 21. mars.

Gunnhildur Þórðardóttir er með MA í liststjórnun (2006), tvíhliða BA nám sagnfræði (listasögu) og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge UK (2003) og viðbótar-diplómanám í listkennslu bæði fyrir grunn- og framhaldsskóla frá Listaháskóla Íslands (2019). Hún hefur starfað við kennslu síðan 2014 og starfað í rúm tíu ár fyrir listasöfn, bæði á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Hún hefur verið virkur myndlistarmaður í tuttugu ár og unnið trúnaðarstörf fyrir Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og félagið Íslensk grafík.

Hægt er að hafa samband á [email protected] eða í síma 898-3419

Hátíðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og Reykjanesbæ.