Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Mannlíf

„Fyrir mér var gervigreindin ný heimssýn“
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 1. mars 2025 kl. 06:34

„Fyrir mér var gervigreindin ný heimssýn“

Sandgerðingurinn Björgvin Guðjónsson er að gera áhugaverða hluti með Snilld í Danmörku

Sandgerðingurinn Björgvin Guðjónsson hefur getið sér gott orð á sviði gervigreindar, sérstaklega þegar kemur að því að vinna með hljóð og mynd, hvort sem það eru kyrrmyndir eða hreyfimyndir. Björgvin hefur, svipað og leigubílstjórinn í Spaugstofunni um árið, starfað í auglýsingabransanum í tuttugu og fimm ár. Hann þekkir því vel til markaðsmála og vinnu við auglýsingagerð. Fyrir nokkrum árum vann hann að verkefni með forriturum og komst þá í alvöru kynni við möguleika gervigreindar. Nú er hann kominn á kaf í þá vinnu með dönskum félögum sínum og í sameiningu hafa þeir stofnað fyrirtækið Snilld. Nú skal haldið í víking með Snilld til Íslands og því var Íslendingurinn í hópnum gerður út til Íslandsfarar.

Björgvin flutti til Danmerkur góðærisárið mikla, 2007. Fylgdi eiginkonunni sem var að fara í nám og fjölskyldan hefur skotið rótum í Danaveldi þar sem Björgvin býr ásamt eiginkonu og þremur drengjum sem „plumma“ sig vel á Íslendingaslóðum í Óðinsvéum á Fjóni.

Orðinn hálfgerður sérfræðingur í dag

„Ég var áhugamaður um gervigreindina en ætli ég geti ekki sagt að ég sé orðinn hálfgerður sérfræðingur í dag á ákveðnu sviði þegar kemur að hönnunarhlutanum og vinnu með myndir og hljóð. Þetta var ekkert þekkt þegar ég hóf að vinna að verkefnum með þessum forriturum og mér þótti þetta bæði athyglisvert og skemmtilegt,“ segir Björgvin. Víkurfréttir tóku viðtal við hann fyrir Suðurnesjamagasín og er viðtalið í þætti vikunnar sem má nálgast á vef Víkurfrétta.

Björgvin hefur verið að vinna með gervigreindina alveg frá því hún verður fyrst þekkt með ChatGPT. Hann vill þó ekki setja sig á stall með þeim sem hafa verið að vinna að þróuninni í mörg ár þar á undan. Hann segir þróunina mjög hraða og gervigreindin sé að læða sér inn í tæki fólks án þess að það veiti því mikla athygli. Hún sé komin í mörg þekkt forrit sem fólk notar dags daglega og þá er hún komin í síma fólks.

Starfið yrði aldrei aftur eins

„Fólk er ekki að opna augun eins mikið fyrir þessu og ég gerði á sínum tíma. Fyrir mér var gervigreindin ný heimssýn. Ég gerði mér grein fyrir því að mitt starf yrði aldrei eins aftur,“ segir Björgvin.

Fyrir mörgum er ChatGPT gervigreindin, en hún er miklu meira en það?

„Já. Þetta er tungumálamódel, svo eru til ljósmyndamódel og ­videomódel líka. Svo vinnur þetta allt saman sem fjölmódel. Þú getur spjallað við þennan hugbúnað, tekið upp símann og sýnt gervigreindinni umhverfið þitt og hún greinir hvað hún sér.“

Björgvin tók sem dæmi að þegar viðtalið var tekið þá væri möguleiki á að sýna gervigreindinni myndverið þar sem upptakan fór fram og hún myndi þekkja myndavélarnar og hljóðnemana sem voru notaðir.

„Þá getur gervigreindin leyst ýmis vandamál. Ef þú ert að gera við bílinn þinn. Þú getu kveikt á myndavélinni og byrjað að spjalla við gervigreindina um hvað er að hrjá bílinn. Það eru ýmsir notkunarmöguleikar sem fólk er ekki búið að uppgötva ennþá.“

Algjör Snilld

Björgvin og danskir félagar hans stofnuðu Snilld fyrir sjö eða átta mánuðum síðan. Einn Daninn átti hugmyndina að nafninu en á dönsku merkir það gott handverk eða það sem vel er gert. „Ég greip þetta strax, þetta var bara Snilld,“ segir Björgvin og segist nota orðið mikið og segir að gervigreindin sé snilld. „Við fórum í upprunann og okkar sameiginlega gamla tungumál, gammel norsk og íslenskuna þar sem snilld er þekkt. Þá var það kostur að öll lén sem við þurftum voru laus með .dk og .ai og ekki skemmdi að fólk er mjög hrifið af þessu nafni í Danmörku.“

Hvað eruð þið að gera hjá Snilld?

„Við hjálpum fyrirtækjum að nota gervigreind og leysa leiðinda verkefni sem oft eru í fyrirtækjum. Það eru endurtekin verk sem er hægt að sjálfvirknivæða. Við höfum verið að vinna með fyrirtækjum sem eru allt frá því að vinna með bor fyrir CNC-vélar og hreinsa upp í gagnagrunninum hjá þeim, þannig að það sé ekki bara einn einstaklingur sem geti fundið tækniteikningar og svarað spurningum frá viðskiptavinum. Nú eru allir í fyrirtækinu klárir í að sinna verkefnum með okkar lausn, sem er blanda af forritun og gervigreind, því gervigreindin er ekki lausn á öllum vandamálum en hún getur hraðað málum mjög mikið.

Við erum líka að vinna að markaðssetningu og það liggur vel við hjá mér þar sem ég hef verið að vinna að markaðsmálum í öll þessi ár og þekki það inn og út hvar hægt er að sjálfvirknivæða mjög mikið, hvort sem það eru námskeið eða annað hjá fyrirtækjum.

Svo erum við að forrita sjálfir okkar eigin lausnir, halda fyrirlestra og námskeið,“ segir Björgvin sem var nýbúinn að halda fyrirlestur á Íslandi þegar við ræddum við hann. Hann hafði í nógu að snúast í Íslandsheimsókninni í fyrirlestrum og námskeiðum fyrir auglýsingastofur.

AI_SCREAM þróaður með gerivgreind

Björgvin og Snilld komu að skemmtilegu verkefni í Danmörku þar sem unnið var að vöruþróun með gervigreindinni. Þar var vara þróuð, umbúðir hannaðar og varan markaðssett, allt með aðstoð gervigreindar. Snilld var í samstarfi við Premier Is og þróaði nýjan ís sem fékk nafnið AI_SCREAM. Í viðtalinu við Björgvin í Suðurnesjamagasíni eru einmitt sýndar myndir frá því verkefni.

Gervigreindin sér um fréttahlutann á vef Snilldar. Þar skrifar hún fréttir um gervigreind og sækir heimildir í a.m.k. þrjár áttir, gerir myndefni með fréttunum, heldur úti eigin rýnihópi, vinnur eftir ströngum reglum um danska stafsetningu og sér svo um að dreifa fréttinni áfram á samfélagsmiðla, allt sjálfvirkt, en þó undir vökulu auga starfsmanna Snilldar. Lausnin sem Snilld er að þróa þarna getur mögulega komið að notum víðar í sjálfvirknivæðingu í textagerð fyrir vefsíður.

Þeir félagar hjá Snilld vinna í gegnum internetið og hafa í raun engan fastan samastað. Þeir kjósa að kalla sig Digital Nomads sem þýða mætti sem „stafrænir hirðingjar“. Björgvin segir þá duglega að heimsækja viðskiptavini sína eða vinna á netinu „online“ eins og það kallast upp á engilsaxnesku. „Það stoppa okkur engin landamæri“.

Gróska í gervigreind á Íslandi

Björgvin segir mikla grósku á Íslandi í gervigreindinni og á sama tíma og hann komi til Íslands til að miðla því sem hann kann, þá vonist hann líka eftir því að læra eitthvað hér og taka með sér „heim“ til Danmerkur. Þróuin er gríðarlega hröð og það sem Björvin lærði í gær er orðið úrelt í næstu viku. Hann segir líka að Íslendingar séu mjög móttækilegir fyrir nýrri tækni. Hún geti verið ógnvekjandi og það getur tekið tíma að vera móttækilegur fyrir þeim möguleikum sem gervigreindin býður uppá. Það á svo margt eftir að koma og við erum bara rétt að sjá upphafið.

Ekki á leiðinni heim

Aðspurður segist Björgvin ekki vera á leiðinni aftur heim til Íslands. Hann hafi komið sér vel fyrir í Danmörku og þar unir fjölskyldan hag sínum vel. Ísland sé þó alltaf „heima“ í hans huga og hann sé ennþá íslenskur ríkisborgari. Hann hugsi ennþá á íslensku, skrifi mest á ensku en hefur oft staðið sig af því að blóta á dönsku og það sé mjög fyndið, segir hann.

Hann segir að það sé afslappaðra að starfa í Danmörku miðað við á Íslandi. Hraðinn sé mikill á Íslandi og hann hafi upplifað það í Danmörku að þar sé bankað í öxlina á honum ef hann sé að vinna frameftir. Það sé ekki vel séð og ekki talið fjölskylduvænt. „Farðu heim, vinnudagurinn er búinn,“ var iðulega sagt á fyrstu árunum hans úti.

Nánar má sjá og heyra af verkum Björgvins í Suðurnesjamagasíni á vef Víkurfrétta, vf.is.