Elska að sinna heldra fólkinu
Eru ríkari vegna samskipta við okkar besta fólk
„Um leið og við byrjuðum að vinna hér á Nesvöllum fundum við að þetta hentaði okkur og við erum samhliða í sjúkraliðanámi,“ segja stöllurnar Birgitta Sól Bjarnadóttir og Júlía Steinunn Jóhannsdóttir, starfsmenn á Hrafnistuheimilinu að Nesvöllum í Reykjanesbæ. Þær una hag sínum mjög vel innan um heldra fólkið sem ver síðustu æviárum sínum á staðnum og þær hvetja allt ungt fólk til að prófa að vinna þetta starf sem margir vilja meina að sé vanþakklátt og oft á tíðum frekar illa launað. Birgitta og Júlía eru eins og svampar má segja, þær drekka í sig reynslu gamla fólksins og myndu ekki vilja vinna neitt annað starf.
Vinkonurnar eru báðar frá Sandgerði. Birgitta, sem er tvítug, býr þar ennþá en Júlía, sem er tveimur árum eldri, býr í Njarðvík.
„Ég var búin að vinna ýmislegt áður en ég byrjaði að vinna hér á Nesvöllum en um leið og ég byrjaði fann ég að þetta myndi eiga vel við mig og áhuginn á starfinu hefur verið mjög mikill síðan þá,“ segir Birgitta og hélt áfram:
„Ég var byrjuð í FS, fór svo út á vinnumarkaðinn en eftir að ég byrjaði að vinna á Nesvöllum fann ég að ég vildi bæta sjúkraliðamenntuninni við mig og mun útskrifast bæði sem sjúkraliði og stúdent. Þetta fer mjög vel saman, ég er í 80% starfi og vinn frá átta á morgnana til fjögur á daginn, svo er skólinn seinni partinn fram á kvöld, mánudaga til miðvikudaga. Það eru mörg atvinnutækifæri sem koma í kjölfarið af sjúkraliðanámi, ég get unnið á sjúkrahúsi, verið í heimahjúkrun, unnið á barnaspítala og ýmsu öðru. Ef ég myndi vilja verða hjúkrunarfræðingur þá krefst það háskólanáms og eins og er, hef ég ekki áhuga á því en maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Kannski mun ég einhvern tíma fá áhuga á því og þá er gott að vera búin með sjúkraliðanámið og stúdentspróf er auðvitað skilyrði til að komast í háskóla. Sjúkraliðinn getur tekið alls kyns námskeið til að bæta við kunnáttu sína og þá getur maður tekið fleiri verkefni að sér en ég er mjög sátt í núverandi starfi, að vinna með gamla fólkinu og mun halda áfram að vinna hér,“ segir Birgitta.
Hugmyndin að viðtalinu fæddist þegar blaðamaður kíkti í heimsókn á móður sína þegar þorrablót Nesvalla var haldið. Blaðamaður dáðist að starfi vinkvennanna og annarra sem sinntu heldra fólkinu þetta tiltekna hádegi. Ástand íbúa er mjög misjafnt en allir þurfa á mikilli aðstoð starfsfólks að halda. Í dag er líklega á milli 80-90 % íbúa á hjúkrunarheimilum með einhvers konar heilabilun.
Þarna sá blaðamaður svo skýrt hvernig lífshringurinn er, við fæðumst öll og erum algerlega upp á aðstoð annarra komin, og margir enda sitt líf eins og það hófst, hjálpar þurfi.
Hjálpa okkar besta fólki
Júlía Steinunn er sammála Birgittu vinkonu sinni, hún myndi ekki vilja skipta þessari lífsreynslu fyrir neitt, það að vinna við að hjálpa okkar besta fólki. Hún hvetur alla til að prófa slíka vinnu.
„Mér finnst þetta virkilega gefandi starf en vissulega getur það líka verið mjög krefjandi. Fljótlega lítur maður á fólkið sem fjölskyldu manns og eðli málsins samkvæmt deyr gamalt fólk, fólk sem maður hefur kynnst og byggt yndislegt og sterkt samband við. Það reynir mjög mikið á en er hluti af starfinu sem gengur út á að aðstoða fólk við nánast allar þeirra athafnir. Flestir íbúanna þurfa mikla aðstoð við athafnir daglegs lífs svo sem að þvo sér, klæða sig og nærast. Við starfsfólkið undirbúum morgunverð og aðstoðum íbúana okkar á fætur svo þau geti fengið sér næringu og tekið þátt í sjúkra- og iðjuþjálfun, og þeirri virkni sem fram fer á heimilinu.
Við höfum verið spurðar að því hvort þetta sé ekki mun erfiðara en að hugsa um ungabörn og vissulega er þetta öðruvísi en þetta venst strax. Það sem íbúar okkar hafa umfram ungabörn er öll sú reynsla sem þau hafa gengið í gegnum á lífsleiðinni og hefur markað þau á ákveðinn hátt. Okkur finnst ekkert mál að vinna þessi verk og þau komast einfaldlega upp í vana. Ég lít miklu frekar á þetta sem forréttindi, að fá að umgangast þetta fólk sem er allt með mikla lífsreynslu á bakinu, hefur frá ótal hlutum að segja og mér líður stundum eins og ég sé svampur, ég reyni að drekka í mig alla þeirra visku. Þegar við erum í fríi þá komum við oft hingað í heimsókn til fólksins, þau eru orðin vinir manns og mér þykir afskaplega gaman og gefandi að setjast niður með þeim og hlusta á þau og tala við. Ég fer alltaf ríkari manneskja út af Nesvöllum en þegar ég kom.
Við erum oft spurðar út í launin, þetta hentar okkur vel með skóla en auðvitað finnst manni pínulítið sorglegt að svona umönnunarstörf þar sem verið er að hugsa sem best um fólkið sem tók þátt í að byggja upp landið okkar, sé ekki metið af meiri verðleikum en t.d. að vinna í banka og telja peninga. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir bankastarfsfólki en að mínu mati ætti að borga mun hærri laun til þeirra sem hugsa um ungabörnin okkar í leikskóla, kenna börnunum okkar í skóla og hugsa svo um eldra fólkið okkar. Við hljótum að geta gert betur en þetta. Okkur finnst báðum mikilvægt að það komi fram að okkur finnst mikilvægt að allir prófi að vinna svona vinnu, maður öðlast svo dýrmæta og góða reynslu auk þess að þroskast mjög mikið sem manneskja. Við erum mjög ánægðar hér á Nesvöllum og hlökkum ávallt til að mæta í vinnuna og sinna okkar besta fólki,“ sagði Júlía Steinunn að lokum.