Þrjú ráðin í nýtt markaðsteymi Samkaupa
Samkaup styrkir markaðsteymið með þrem ráðningum í nýja markaðsdeild fyrirtækisins. Ráðningarnar eru liður í stefnumótun sem felur í sér aukna áherslu á markaðsmál með stofnun nýrrar markaðsdeildar sem starfar þvert á verslanir og vörumerki fyrirtækisins.
Halldóra Fanney Jónsdóttir, Auður Erla Guðmundsdóttir og Sunna Ösp Þórsdóttir hafa verið ráðnar sem sérfræðingar inn á nýstofnaða markaðsdeild Samkaupa. Þar starfa fyrir Vigdís Guðjohnsen, markaðsstjóri Nettó sem mun leiða nýja deild og Hugi Halldórsson, viðskiptastjóri Vildarkerfis Samkaupa og staðgengill markaðsstjóra Kjör- og Krambúðanna. Halldóra Fanney og Auður Erla mæta nýjar til leiks til Samkaupa en Sunna Ösp starfaði áður í upplýsingatæknideild fyrirtækisins og færist því yfir í nýja deild. Þær hafa allar hafið störf.
Halldóra Fanney Jónsdóttir hefur tekið við stöðu verkefnastjóra markaðsmála hjá Samkaupum og mun stýra verkefnum þvert á verslanamerki Samkaupa. Hún kemur til fyrirtækisins frá flugfélaginu PLAY þar sem hún starfaði í markaðsdeild flugfélagsins og stýrði ólíkum verkefnum, allt frá viðburðum, auglýsingum og kvikmyndatökum. Halldóra hefur bakgrunn í verkefnastjórn, þróun þjónustulausna, markaðssetningu og mannauðsmálum. Halldóra er með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.
Auður Erla Guðmundsdóttir hefur hafið störf sem grafískur hönnuður í nýrri markaðsdeild Samkaupa. Hún kemur frá auglýsingastofunni Key of Marketing þar sem hún starfaði sem grafískur hönnuður. Áður hefur hún starfað sjálfstætt sem grafískur hönnuður og sem sjálfstætt starfandi túlkur fyrir Axtent túlkaþjónustu. Hún hefur breiðan bakgrunn í grafískri hönnun og reynslu í samskiptum og markaðsmálum. Auður er með BA gráðu í grafískri hönnun frá Marbella Design Academy og lokið námskeiði í samfélagstúlkun frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.
Sem liður í skipulagsbreytingum og stefnumótun innan Samkaupa hafa vefmál fyrirtækisins verið færð nær markaðsmálum og heyrir vefstjóri Samkaupa nú undir nýstofnaða markaðsdeild.
Sunna Ösp Þórsdóttir er því nýr vefstjóri í markaðsdeild. Hóf hún störf hjá Samkaupum í maí árið 2024, þá í upplýsingatæknideild. Sunna er vefhönnuður úr Vefskólanum, en hún nam einnig grafíska hönnun í Tækniskólanum. Áður starfaði hún við stafræna hönnun hjá Krýsuvík og einnig sjálfstætt að ýmsum hönnunarverkefnum, þar á meðal vefsíðu- og viðmótshönnun. Sunna bætir við breiddina á markaðssviði og getur nú betur tryggt samhæfingu í þróun vefmála og markaðsmála.
Vigdís Guðjóhnssen, markaðstjóri Nettó:
„Ég er gífurlega ánægð að fá Halldóru, Sunnu Ösp og Auði inn í nýstofnaða markaðsdeild fyrirtækisins en ráðningarnar eru liður í því að setja aukinn kraft í markaðsmál fyrirtækisins. Saman hafa þær gífurlega umfangsmikla reynslu af ólíkum sviðum og teymið því orðið gífurlega öflug og vel í stakk búið til þess að takast á við verkefnin sem eru framundan. Samkaup hefur verið á spenanndi vegferð síðasta árið og mikil vinna verið lögð í að byggja upp ólík svið fyrirtækisins, við höfum því frá mörgu að segja frá og ég hlakka til að vinna áfram með teyminu,“ segir Vigdís Guðjohnsen, markaðsstjóri Nettó.