Heillaðist af samfélaginu á Suðurnesjum
FKA konan
Nafn: Hólmfríður Jenný Árnadóttir og er fædd og uppalin á Grenivík við Eyjafjörð (sem er samt í Þingeyjarsýslu!).
Aldur: Er fædd 28. mars 1973 og verð því 52 ára eftir nokkra daga.
Menntun: Menntaður leik- og grunnskólakennari með viðbótardiplómu í námi og kennslu ungra barna og meistarapróf í menntunarfræðum.
Hólmfríður Árnadóttir er fædd á Grenivík en flutti til Suðurnesja 2016. Hún er leikskólastýra í Reykjanesbæ og segist hafa heillast af samfélaginu, fjölmenningunni og kraftinum í fólkinu á Suðurnesjum. Hún er dugleg í margvíslegum félagsmálum og situr í nokkrum stjórnum fyrirtækja og stofnana. Hólmfríður er kona mánaðarins hjá FKA Suðurnes.
Ég hef komið víða við í gegn um tíðina, gengt öllum stöðum leikskólans frá leiðbeinanda til skólastjóra og eins í grunnskólanum. Þá vann ég í Háskólanum á Akureyri bæði sem aðjúnkt og kenndi bæði á leikskóla- og grunnskólabraut og sem sérfræðingar á miðstöð skólaþróunar (MSHA) þar sem ég ferðaðist um allt land og sinnti ráðgjöf og stuðningi við hin ýmsu skólaþróunarverkefni og stofnanir. Þá var ég verkefnisstjóri fjarnáms og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands áður en ég hóf störf í leikskólanum Holti í Njarðvík fyrir tæpu ári síðan og þar starfa ég nú. Ef ég á að vera einlæg þá eru kynni mín af því góða fólki sem starfar í skólum landsins mér afskaplega dýrmæt. Það hafa verið forréttindi að starfa og vinna með allskonar skólafólki og fylgjast með því að reyna á allan hátt að koma til móts við börn og nemendur og vinna að jákvæðum skólabrag og þess að skólinn sé griðastaður fyrir hvert barn. Það heppnast vissulega ekki alltaf en það er stöðugt markmiðið.
Mannauðsmál skemmtileg
Helstu verkefni leikskólastjóra er að sinna rekstrar- og mannauðsmálum ásamt því að vera faglegur leiðtogi skólans. Ég er svo heppin að þykja mannauðsmál sérlega skemmtileg og er eins með mikla þekkingu á hugmyndafræði leikskólans sem kennd er við Reggio Emilia og hef langan kennsluferil að baki þannig að fagleg forysta er mér mikilvæg. Þá sit ég líka í nokkrum stjórnum og hef til dæmis setið í stjórn Isavia í þrjú ár, sit í stjórn leigufélagsins Bríetar og sat í stjórn Eignasjóðs Reykjanesbæjar. Þetta eru einnig afar skemmtileg og áhugaverð störf enda Isavia mikilvægur vinnustaður fyrir Suðurnesin og leigufélagið Bríet á fjölda íbúða hér á svæðinu. Eins sit ég í stjórn Rauða krossins á Suðurnesjum og í stjórn FKA hér á Suðurnesjum. Starfsemi Rauða krossins er fjölbreytt og mikilvæg fyrir svæðið og nauðsynlegt að hlúa vel að því og vera í öflugu samstarfi við sveitarfélögin t.d. hvað varðar Frú Ragnheiði, fatasöfnun og endursölu og svo viðbragðshópa þegar eitthvað bjátar á. Það er dýrmætt að hafa kynnst öllu því góða fólki sem er í og tengist Rauða krossinum. Starfsemin er til fyrirmyndar og afar dýrmætt að vera þátttakandi í því. Mér þykir líka undurvænt um FKA á Suðurnesjum, mætti á stofnfundinn og er núna mitt annað ár í stjórn. FKA er að sama skapi þýðingarmikið félag fyrir Suðurnesin, þar er markverður kvennakraftur og við allar staðráðnar í að styðja og styrkja hver aðra og hlúa að aukinni velsæld, verkefnum, nýsköpun og fyrirtækjum í umsjá og eigu kvenna. Við erum nefnilega enn að vinna að jafnrétti og því að konur eigi og stýri fyrirtækjum og stofnunum, já og sitji í stjórnum og ráðum til jafns á við karla.
Mikill umhverfissinni
Ég hef líka tekið þátt í öðrum verkefnum sem mér þykir vænt um og til dæmis var ég í undirbúningshópnum er sá um Kvennafrídaginn hér á Suðurnesjum í október 2023. Þá var ákveðið að við skyldum hafa viðburð fyrir konur hér suðurfrá sem heppnaðist svo vel að ég fæ alltaf kökk í hálsinn við tilhugsunina. Öflugur hópur kvenna tók þátt í dagskránni og við sprengdum Krossmóa utan af okkur! Það er svo mikill kraftur í konum og þegar þær koma saman þá gerist alltaf eitthvað stórkostlegt. Þá hef ég verið verktaki í mörg ár og tekið að mér fræðslu fyrir fyrirtæki og stofnanir og það þykir mér alltaf jafn gaman. Fólk er nefnilega upp til hópa frábært og gott og mér þykir alltaf gaman að kynnast nýju fólki og finna að ég læri alltaf eitthvað nýtt við hvert verkefni. Þá er ég mikill umhverfissinni og er stöðugt að reyna í gegn um samfélagsmiðla að fá fleiri með mér á þriftvagninn og benda á mikilvægi endurnýtingar og að draga úr neyslu og sóun. Ég er líka áhugahlaupari og finnst hvergi betra en að hlaupa á jafnsléttunni hér á Reykjanesinu og þá sérstaklega við sjávarsíðuna.
Enginn dreginn í dilka
Ég flutti hingað á Suðurnesin frá Akureyri árið 2016 og heillaðist strax af samfélaginu, fjölmenningunni og kraftinum í fólkinu hér, hve mikil list og sköpun einkennir samfélagið. Það er tvímælalaust kosturinn við að búa hér og ég hlakka til þegar hægt verður að fá alla þjónustu hér heima og við meira sjálfbær á svæðinu hvað allt varðar, verslun, þjónustu og fjölbreytni í atvinnulífinu. Ég er mjög ánægð með félagsskapinn í FKA enda samanstendur hann af kraftmiklum konum sem einsetja sér að lyfta upp verkum annarra kvenna og það finnst mér allra góðra hluta vert enda hikaði ég ekki við að skrá mig og mæta á stofnfundinn um árið. FKA á Suðurnesjum er dásamlegur hópur allskonar kvenna og það er svo dýrmætt, það eru einfaldlega allar konur úr atvinnulífinu velkomnar og hér er engin dregin í dilka. Mitt heilræði til kvenna á Suðurnesjum er að halda í frumkraftinn, vera óhræddar við að taka þátt í félagsstarfi, sjálfboðastörfum og prófa eitthvað nýtt. Síðast en ekki síst verið velkomnar í FKA!
Víkurfréttir í samstarfi við FKA Suðurnes, félag kvenna á Suðurnesjum í atvinnulífinu, kynna Suðurnesjakonur í félaginu. Markmið með kynningunum er að vekja athygli á FKA konum í atvinnulífinu á Suðurnesjum, fyrirtækjunum þeirra eða verkefnunum sem þær sinna. FKA Suðurnes er hluti af FKA á Íslandi, Félagi kvenna í
atvinnulífinu.