Reykjanesbær tekur 3,5 milljarða króna að láni
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti samhljóða á bæjarstjórnarfundi þann 15. apríl sl. að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að 2,5 milljörðum króna með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039. Bæjarstjórn hafði samþykkt á aukafundi 3. apríl að taka einn milljarð sem skammtímalán. Samtals er því lántaka upp á 3,5 milljarða kr.
Er 2,5 ma. lánið tekið til fjármagna skammtímafjármögnun 2025 sem nýtt var og verður í framkvæmdir á árinu s.s. nýbyggingar íþróttahúss og sundlaugar, tvenn húsnæði fyrir leikskóla og meiriháttar viðgerðir á tveimur skólabyggingum vegna rakaskemmda sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu.
Skammtímafjármögnunin var tekin fyrir á fundi bæjarráðs 3. apríl þar sem óskað var eftir að taka einn milljarð króna að láni hjá Íslandsbanka með lokagjalddaga 31. desember 2025. Það var samþykkt á aukafundi bæjarstjórnar daginn eftir, 4. apríl.
„Ábyrgðin liggur hjá meirihlutanum“
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, lagði fram harðorða bókun á fundi bæjarstjórnar fyrir páska þar sem hún gagnrýnir stöðu fjármála Reykjanesbæjar og vinnubrögð meirihlutans.
Í bókuninni rifjar Margrét upp fyrri gagnrýni Umbótar frá 18. febrúar síðastliðnum, þar sem varað var við skammtímalántöku vegna lausafjárvanda. Hún segir það hafa verið óásættanlegt að bæjarfulltrúar í minnihluta hafi ekki fengið upplýsingar um stöðuna fyrr en beiðnin kom til umræðu í bæjarráði. Þar hafi einnig komið fram að fjárhagsáætlanir bæjarins skorti bæði nákvæmni og áreiðanleika, og að reikningar frá fyrra ári hafi borist til greiðslu eftir áramót.
Margrét bendir á að framkvæmdakostnaður hafi farið fram úr fjárfestingaráætlun og að útgjöld vegna búnaðarkaupa, viðhalds og ljósleiðaravinnu séu umfram áætlanir. Þetta sé merki um skort á samhæfingu og yfirsýn í fjármálastjórn bæjarins.
„Þrátt fyrir þessa skýru gagnrýni Umbótar í febrúar, blasir við okkur í dag enn alvarlegri staða,“ segir Margrét. Hún vísar í fund bæjarráðs frá 3. apríl þar sem fjármálastjóri lagði fram beiðni um heimild til að taka langtímalán að upphæð allt að 2,5 milljarðar króna. Hún segir það staðfesta að áætlanagerð bæjarins standist ekki og að fjármálastjórn sé ekki í takt við ábyrg vinnubrögð.
„Við getum ekki samþykkt frekari lántökur í framtíðinni nema raunveruleg og trúverðug endurskoðun fari fram á fjárhagsáætlun bæjarins,“ segir Margrét og krefst þess að sett verði fram skýr og aðgengileg áætlun um sjóðstreymi og að framkvæmdir verði aðeins framkvæmdar ef raunverulegt fjármagn er til staðar.
Umbót kallar jafnframt eftir betri upplýsingagjöf til bæjarfulltrúa og því að fjármál sveitarfélagsins verði reglulega lögð fram og rædd í bæjarráði og bæjarstjórn.
Margrét leggur áherslu á að ábyrgð á stöðu fjármála Reykjanesbæjar hvíli alfarið á herðum meirihlutans. „Við skuldum bæjarbúum traust, gegnsætt og ábyrgt rekstrarumhverfi og við verðum að standa undir þeirri ábyrgð,“ segir í lok bókunarinnar.
„Ástandið tímabundið“
Lántaka nauðsynleg vegna mikils framkvæmdahraða og launahækkana
Guðný Birna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði fram bókun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á fundi 15. apríl, þar sem fjallað var um nýja lántöku bæjarins að upphæð 3,5 milljarðar króna. Um er að ræða 2,5 milljarða króna langtímalán og einn milljarð króna í skammtímafjármögnun.
Í bókuninni segir að meginástæða lántökunnar sé mikill framkvæmdahraði á fyrstu mánuðum ársins. Fjárfestingaráætlun ársins 2025 hafi gert ráð fyrir 1.750 milljónum í fjárfestingar á öllu árinu, en þegar á fyrsta ársfjórðungi hafi verið ráðist í framkvæmdir upp á 1.450 milljónir. Framkvæmdahraðinn muni hins vegar minnka á síðari hluta ársins.
Einnig kemur fram að sveitarfélagið eigi útistandandi kröfur á íslenska ríkið sem hlaupi á hundruðum milljóna, bæði vegna samninga um móttöku flóttafólks og uppbyggingu hjúkrunarheimilis.
Áhyggjur eru einnig af 580 milljóna króna gati í fjárhags-áætlun sem skapast hefur vegna hækkunar á kjarasamningum kennara. Sú hækkun hafi ekki verið fyrir séð í áætlunum, og nú þurfi að leita annarra leiða til að mæta þeim kostnaði.
Meirihlutinn bendir einnig á að 252 einstaklingar séu með aðsetur í Reykjanesbæ en greiði útsvar í öðrum sveitarfélögum, sem feli í sér árlegt tekjutap upp á tæpar 180 milljónir. „Sveitarfélög hafa aðeins þrjá helstu tekjustofna – fasteignaskatta, útsvar og tekjuframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga – og slíkt gat hefur áhrif,“ segir í bókuninni.
Þrátt fyrir þessa áskoranir segir meirihlutinn að rekstrarniðurstaða ársins 2024 hafi verið 964 milljónum betri en áætlun gerði ráð fyrir, og að skatttekjur hafi verið 1.088 milljónum umfram áætlun. Skuldahlutfall bæjarsjóðs sé 121,98% og undir lögbundnu hámarki sem er 150%.
„Þetta ástand hjá okkur er tímabundið,“ segir í bókuninni og bent er á að dregið sé úr framkvæmdahraða þar sem mörg stór verkefni séu nú þegar lokið eða langt komin. Unnið sé að úrlausn á útsvarsmálum og öðrum þáttum í samráði við ríkið.
„Reykjanesbær mun standa kröftuglega vakt í fjármálum sveitarfélagsins nú eins og undanfarin ellefu ár,“ segir að lokum í bókuninni, þar sem einnig er vísað til þess að sveitarfélagið hafi áður fjármagnað umfangsmiklar framkvæmdir með eigin fé, sem nú kalli á lántöku til að viðhalda stöðugleika.
Gagnrýna lántökustefnu meirihlutans í bæjarstjórn
„Í dag, 15. apríl, samþykkjum við enn einu sinni lántöku sveitarfélagsins,“ segir í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fyrir páska. Þar gagnrýna þau harðlega fjármálastjórn meirihlutans, sem samanstendur af Samfylkingunni, Framsókn og Beinni leið.
Í bókuninni rifja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins upp að á fundi bæjarráðs þann 3. apríl hafi verið samþykkt að veita heimild til langtímafjármögnunar að fjárhæð 2,5 milljarðar króna, ásamt skammtímaláni að upphæð einum milljarði til að brúa bilið. Þar hafi svo mikill flýti verið á að boða hafi þurft til aukafundar í bæjarstjórn með rúmlega klukkustundar fyrirvara daginn eftir, á föstudegi.
Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem sambærileg lántaka sé samþykkt. Þann 19. nóvember hafi bæjarstjórn áður samþykkt sambærilega tillögu um 2,5 milljarða króna lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga.
„Er von að maður spyrji sig, í hvaða farvegi stjórnun sveitarfélagsins sé undir forystu meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar,“ spyrja bæjarfulltrúar og benda á að reglulegur fundur bæjarstjórnar hafi verið haldinn þremur dögum áður og að næsti fundur hafi þegar verið boðaður tíu dögum síðar.
Í bókuninni kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ítrekað bent á nauðsyn þess að bæta áætlanagerð sveitarfélagsins, einkum í ljósi þess að kostnaðaráætlanir standist ekki og ákveðnum kostnaðarliðum sé jafnvel sleppt í áætlunum.
Þeir vísa einnig til bókunar meirihlutans frá 18. febrúar, þar sem fram kemur að tekjur séu áætlaðar varlega, til að forðast að ofmeta fjármagn og lenda í vandræðum síðar. Sjálfstæðisflokkurinn spyr hvort þessi aðferð við tekjuáætlun hafi farið að hafa neikvæð áhrif á aðra þætti í fjármálastjórn bæjarins.
„Hvert er planið?“, spyrja bæjarfulltrúarnir og benda á að eftir ellefu ára meirihlutasetu leggi Samfylking, Framsókn og Bein leið nú til að stofnuð verði sérstök fjárreiðunefnd. Sjálfstæðisflokkurinn segist ekki styðja þá tillögu og telur eðlilegra að fjármál sveitarfélagsins verði tekin föstum tökum í bæjarráði, þar sem allir oddvitar flokkanna og bæjarstjóri þegar sitja, og fjármálastjóri mæti eftir þörfum.