Undirbúningur hafinn vegna almyrkva 2026
Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa hafið undirbúning vegna almyrkva sem verður 12. ágúst 2026, en um er að ræða einstakan náttúruviðburð sem talið er að geti haft veruleg jákvæð áhrif á samfélagið og ferðaþjónustu á svæðinu.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum leiðir verkefnið og hefur falið Markaðsstofu Reykjaness að annast framgang þess í nánu samstarfi við öll sveitarfélögin á svæðinu. Í því skyni verður settur á fót sameiginlegur stýrihópur, þar sem hvert sveitarfélag tilnefnir einn aðal- og einn varafulltrúa.
Verkefnið miðar að því að tryggja heildstæða og samhæfða nálgun á undirbúningi viðburðarins, með áherslu á fræðslu, aðstöðu, öryggi og samfélagslega þátttöku. Hlutverk stýrihópsins verður meðal annars að kortleggja verkefni, samræma forgangsröðun, vera tengiliður við stofnanir og styðja við undirbúning innan sveitarfélaganna.
Í bréfi sem barst Reykjanesbæ þann 1. apríl kemur fram að stýrihópurinn verði kallaður saman í fyrsta sinn í maí 2025. Verkefnastjóri almyrkvaáætlunarinnar er Þuríður Aradóttir Braun, sem jafnframt verður tengiliður stýrihópsins við Markaðsstofu Reykjaness og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Almyrkvi á Íslandi er sjaldgæfur viðburður, en við almyrkva fer tunglið alveg fyrir sólina og verður myrkur í nokkrar mínútur um hábjartan dag. Slíkir viðburðir vekja jafnan mikla athygli, ekki síst meðal ferðamanna, vísindamanna og áhugafólks um stjörnufræði.