Íþróttir

Grindavík tapaði fyrsta leiknum í rimmunni við Stjörnuna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 21. apríl 2025 kl. 21:39

Grindavík tapaði fyrsta leiknum í rimmunni við Stjörnuna

Vorboðinn ljúfi var mættur í S-inu sínu í dag með tilheyrandi sólskini en þá hófust undanúrslit Bónusdeildar karla. Grindvíkingar mættu í Ásgarð í Garðabæ og mættu Stjörnumönnum. Eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem Stjarnan leiddi með þremur stigum, 47-43, tóku þeir völdin í sínar hendur þegar langt var liðið á þriðja leikhluta og héldu Grindvíkingum nógu langt frá sér þar til lokaflautið gall, lokatölur 108-100.

Grindavík fékk fljúgandi byrjun og komst í 0-8 eftir tæpar tvær mínútur. Daniel Mortensen sem hefur komið sterkur upp í þessari úrslitakeppni, var búinn að setja bæði þriggja stiga skot sín niður og Ólafur fyrirliði setti körfu eftir hraðaupphlaup. Loks komust Stjörnumenn á blað með tveimur vítum en Daninn svaraði með þriðja þristi sínum í jafnmörgum tilraunum! Baldur, þjálfari Stjörnunnar, sagði þá „hingað og ekki lengra“ og Stjörnumenn réðu ráðum sínum. Ræðan skilaði sínu, skömmu síðar voru leikar jafnir, 13-13 og ljóst að hörkuleikur væri framundan. Grindavík átti næsta áhlaup, staðan 15-20 sást en Stjörnumenn áttu lokaorðið í fjórðungnum og staðan eftir fyrsta leikhluta jöfn, 26-25.

Annar leikhluti var áfram jafn jafn (alltaf gaman þegar sama orðið kemur löglega fyrir á eftir hvort öðru). Grindavík tók leikhlé í stöðunni 28-30 og út úr því setti Ólafur sinn fyrsta þrist. Shaquille Rombley svaraði með sinni annrri viðstöðulausu troðslu, það vantaði sko heldur betur ekki tilþrifin í þennan leik! Munurinn fór aldrei upp í meira en fimm stig og alltaf Grindavíkurmegin, þ.e. Stjarnan náði aldrei að ná meira en eins stigs forskoti, nema með lokaskoti hálfleiksins. Þetta segir allt um hve jafn fyrri hálfleikur var og ljóst að með sama framhaldi þyrftu hjartaveikir að taka lyfin sín. Staðan eftir fyrir hálfleik, 47-44.

VF Krossmói
VF Krossmói

Seinni hálfleikur byrjaði nákvæmlega eins og sá fyrri, með skotsýningu Danans Mortensen, fjórði þristurinn í jafnmörgum tilraunum auk tveggja stiga körfu. Stjarnan vaknaði þá til lífsins og sérstaklega Hilmar Henningsson sem átti flotta troðslu og svo þriggja stiga körfu og munurinn fór upp í sjö stig, 60-53. Körfubolti er leikur áhlaupa og loksins vaknaði Jeremy Pargo hjá Grindavík en hann hafði ekki komist á blað í stigaskorun í fyrri hálfleik. Stjarnan átti næsta áhlaup, munurinn kominn upp í níu stig. Grindavík setti körfu og svo kom tvísýnn dómur, Bragi Guðmundsson virtist blokka þriggja stiga tilraun Hilmars Henningssonar en villa dæmd. Á þessum tímapunkti leystist leikurinn upp má segja, þráðurinn á Deandre Kane virtist styttast með hverju skotinu sem geigaði og á endanum var dæmd sóknarvilla á hann og merkilegt nokk, var hann ekki sammála þeim dómi… Tvær tæknivillur voru dæmdar á Grindvíkinga það sem eftir lifði þriðja leikhluta og staðan að honum loknum, 75-67. Grindavík fékk 28 stig á sig í þriðja leikhluta, það er of mikið.

Stjörnumenn voru orðnir heitir fyrir utan þriggja stiga línuna, fyrstu tvö slíku skotin fóru niður hjá þeim en á móti hitnaði Ólafur fyrirliði Ólafsson og setti fjóra þrista og hélt sínum mönnum inni í leiknum! Hans menn voru hins vegar ískaldir og sérstaklega var besta leikmanni Grindavíkur, Deandre Kane, mislagðar hendur. Hann klikkaði á ótal mörgum skotum nálægt körfunni en þar fyrir utan var vítanýting Grindvíkinga líka léleg. Munurinn fór fljótlega upp í tólf stig en Mortensen skoraði, brotið á honum og hann nýtti vítið og Stjarnan tók leikhlé þegar 3:21 voru eftir og ljóst að Grindavík þyrfti að eiga gott lokaáhlaup. Það var aldrei í spilunum, Stjarnan átti alltaf svar og vann að lokum öruggan sigur, 108-100.

Ólafur Ólafsson og Daniel Mortensen voru yfirburðabestir leikmanna Grindavíkur í kvöld, Óli endaði með 26 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar, Daninn með 27 stig og 5 fráköst. Kanarnir í Grindavík, Jeremy Pargo og Deandre Kane voru báðir langt frá sínu besta og Grindvíkingar geta kannski hugsað sér gott til glóðarinnar fyrir framhaldið, ef þeir fá framlag frá þeim.

Næsti leikur er í Smáranum á fimmtudagskvöld.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur: Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur: