Kírópraktorstofa Íslands í Sporthúsinu á Ásbrú
Kírópraktorstofa Íslands er að hefja starfsemi í Sporthúsinu á Ásbrú en hún hefur verið starfrækt síðan 2010 í Sporthúsinu í Kópavogi. Helga Björg Þórólfsdóttir, einn eigenda stofunnar segir það ánægjulegt að fá aðstöðu í Reykjanesbæ en margir Suðurnesjamenn hafa sótt þjónustuna til þeirra í Kópavogi. Ari Elíasson í Sporthúsinu á Ásbrú segir það ánægjulegt að geta aukið þjónustuna en töluvert hafi verið spurt um hana.
Til að byrja með verður kíró-praktor í Sporthúsinu á Ásbrú tvo daga í viku, mánudaga og miðvikudaga en svo er stefnt að því að hafa opið alla virka daga.
Helga er afar ánægð með aðstöðuna í Sporthúsinu á Ásbrú en í meðferðum er nauðsynlegt fyrir fólk að geta stundað æfingar með og þá er allt til alls í Sporthúsinu.
En hvað gera kírópraktorar?
„Við erum sérfræðingar í greiningum og meðferð á stoðkerfisvandamálum. Við kennum fólki líka að gera æfingar sem hjálpa til við að laga vandann en það er líka mikilvægt að æfingarnar séu gerðar rétt. Þess vegna er gott að hafa aðgang að tækjasalnum í Sporthúsinu,“ segir Helga.
Helstu ástæður þess að fólk leiti til kírópraktora séu verkir í líkamanum á borð við bakverki og höfuðverki og oft eru önnur vandamál sem fólk tengir ekki endilega við þessa verki eins og stirðleiki og svefnvandamál sem leysast einnig þegar farið er að vinna í vandanum. „Í fyrsta tímanum förum við vel yfir alla sjúkrasögu viðkomandi og skoðum líkamann sem heild til að finna hvar raunvandinn liggur. Við notumst við greiningar með röntgenmyndatöku þegar það á við og erum með röntgenmyndavél á stofunni í Kópavogi.“
Kírópraktorar eru með 4-5 ára háskólanám að baki og hafa kíró-praktorar Kírópraktorstofu Íslands útskrifast frá skólum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Starfsmaður stofunnar á Ásbrú verður fyrst um sinn Bjarki Rúnar Sigurðsson en hann hefur auk kírópraktornáms lokið ÍAK styrktarþjálfunarnámi.
Hægt er að bóka tíma í gegnum noona bókunarappið eða með því að hafa samband við stofuna í síma 5272277 eða [email protected].