SSS
SSS

Mannlíf

Hefur alla tíð fundist gaman að vinna
Föstudagur 18. apríl 2025 kl. 06:05

Hefur alla tíð fundist gaman að vinna

Suðurnesjakonan Edda Rut Björnsdóttir flutti í höfuðborgina eftir nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og í trompetleik í tónlistarskólanum. Lærði að vinna á unglingsárum í Nesfiski og en hefur eftir háskólanám verið í stjórnunarstöðum hjá stórum fyrirtækjum í Reykjavík. Unir hag sínum vel núna hjá Eimskipum.

Edda Rut Björnsdóttir er framkvæmdastjóri innanlandssviðs hjá Eimskip. Hún er upprunalega frá Garði en flutti til höfuðborgarinnar 19 ára gömul. Hún hefur starfað víða og unnið sig hátt upp í atvinnulífinu. Í dag býr hún með eiginmanni sínum og fjórum dætrum í Garðabæ og hefur alltaf nóg að gera.

Edda Rut ólst upp í Garði og segir að því fylgdi mikið frelsi að vera utan að landi. Hún lýsir því hvernig umhverfið er í Garði með fjörunni, bryggjunni og síkinu sem var ákveðið leiksvæði þar sem hún gat komið og farið hvenær sem henni sýndist. Foreldrar Eddu voru ung þegar þau áttu hana og hún því heppin að hafa ömmu og afa og langömmu og langafa öll á svæðinu þegar hún var að alast upp. Hún var í Gerðaskóla alla sína grunnskólagöngu og fór svo á náttúrufræðibraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hún lærði einnig á trompet og kallaði tónlistarskólann sitt annað heimili. Edda spilaði líka fótbolta með Víði í Garði og Reyni í Sandgerði og á nokkra meistaraflokksleiki með þeim. 

Edda segist alltaf hafi verið vinnusöm. „​​Ég hef alltaf verið mikil vinnukona og maður lærði að vinna í Garðinum. Ég vann í Nesfiski mörg sumur sem var hliðina á heimili mínu, þar lærði maður hvernig hlutirnir virka, að taka til hendinni og að það þýðir ekkert að vera drolla. Hér var verið að vinna í akkorði sem hentaði mér mjög vel á þeim tíma og mér hefur alla tíð fundist mjög gaman að vinna.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Edda með dóttur sinni, Karen Lilju Tryggvadóttur.
Frá trompetinu í tölvunarfræði

Eftir fjölbraut flutti Edda til höfuðborgarinnar þar sem hún byrjaði að vinna fyrir BT/Tæknival. Þar lærði hún á kassakerfin þeirra og segir að það hafi verið upphafið að næstu átta árum þar sem hún starfaði í upplýsingatæknigeiranum við verslunarlausnir m.a. í tölvudeild Baugs (nú Haga) og hjá Þekkingu. Svo byrjar hún í tölvunarfræði við Háskóla Reykjavíkur. „Á þessum tíma þurfti maður að vera orðinn 25 ára til að fá að byrja í háskóla með vinnu nema sérstakar aðstæður væru. Það fór því svo að Árni Sigfússon, forstjóri Tæknivals á þeim tíma skrifaði sérstakt meðmælabréf til að selja það að ég ætti að fá inngöngu inn í háskólann með vinnu því mér fannst svo gaman í vinnunni að ég tímdi ekki að hætta.“ 

Hún segir að það hafi verið mjög góð upplifun að vera í Háskólanum í Reykjavík og segir að hópvinnan og tengingin við atvinnulífið standi klárlega uppúr. En þegar hún er 24 ára skipti hún yfir í annað fag og kláraði gráðu í viðskiptafræði með tölvunarfræði sem val í Háskóla Reykjavíkur árið 2007. 

Með vænan fisk í Þveránni.
Ný áskorun

Fljótt eftir útskrift fór Edda að vinna hjá Íslandsbanka sem hún var hjá í tólf ár. Hún byrjaði að vinna við netbankann hjá þeim en fór síðan fljótlega yfir á fyrirtækjasvið, þar sem hún var í nokkrum hlutverkum og að lokum forstöðumaður á fyrirtækja- og fjárfestingasviði í sölu og viðskiptastýringu. Eftir tólf ár í bankanum fannst henni kominn tími á breytingu og árið 2019 tók Edda við starfi markaðs- og samskiptastjóra. Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, og Edda höfðu unnið mikið saman í Íslandsbanka og eftir nokkur samtöl þeirra á milli var niðurstaðan sú að hún fór yfir til Eimskips. Hún segir að það hafi verið stór ákvörðun. „Ég þekkti forstjórann en nánast engan annan og hafði ekki verið í sambærilegri stöðu áður og vissi lítið hvað snéri upp og niður í flutningum.“

Það gekk hins vegar vel og eftir aðeins eitt ár tók hún við stöðu framkvæmdastjóra mannauðs- og samskiptasviðs þegar tvö svið voru sameinuð. Þar bar hún ábyrgð á mannauðs-, markaðs- og sjálfbærnimálum félagsins ásamt fjárfestatengslum og fjölmiðlasamskiptum. En síðastliðinn nóvember tók hún við innanlandsviðinu þar sem hún ber ábyrgð á öllum akstri, svæðisskrifstofum, vöruhúsum og frystigeymslum Eimskips á Íslandi ásamt ferðaþjónustufyrirtækinu Sæferðum á Breiðafirði en á sviðinu starfa í heildina um 400 manns.

„Það er frábær andi í Eimskip og mjög fjölbreyttur rekstur. Það er gaman að bera saman þessa tvo aðila því í Eimskip er þjónustan svo meira áþreifanleg. Þú sérð bílana sem eru keyrandi út um allt og skipin siglandi og þetta er mikið raunhagkerfi þar sem við styðjum við lífsgæði og verðmætasköpun í landinu. Við erum mikið með puttann á púlsinum um hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Ef það er margt í gangi þá er mikið að gera hjá okkur en svo róast þjóðfélagið og þá við finnum það.“

Edda er mikið á ferðalagi um stöðvar fyrirtækisins á landinu um þessar mundir og er að kynnast starfsemi og „fá aðeins að kíkja undir húddið“ eins og hún segir. Edda segir mikilvægt að skilja reksturinn og kynnast fólkinu. „Þó ég hafi verið í framkvæmdastjórn félagsins lengi þá þekkti ég Eimskip á breiddina en núna er maður að fara meira á dýptina á innanlandssviðinu sem er mjög skemmtilegt.

Maður verður að vera hugrakkur og grípa tækifærin þegar þau gefast, það er erfitt að finna réttan tíma því tækifærin koma ekki alltaf á þeim tíma sem hentar þér. Eitt sem ég fann þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í viðskiptalífinu var að mitt tengslanet var ekki eins sterkt, komandi af landsbyggðinni. Það er minni púllía sem fylgir þér út í atvinnulífið af fólki sem þú bara þekkir, þannig að ég myndi því ráðleggja fólki líka að vera duglegt að tengja og kynnast fólki því þetta skiptir allt máli. Það skiptir máli að þekkja fólk og rækta það. Svo segi ég alltaf að ef þig langar að vaxa í starfi, þá er gott að vera þar sem breytingar eru. Þar eru tækifæri, ekki bíða og halda að allir sjái hversu vel þú ert að standa þig. Þú þarft líka að þora að segja, „hei ég væri í til í þetta“ og svo kemur bara já eða nei. Þannig að þetta er líka hugrekki sem þarf til.“

Edda með eiginmanni sínum, Tryggva Björnssyni.
Lífið í Garðabænum

Edda er gift Tryggva Björnssyni og eiga þau fjórar dætur á aldrinum 11-21, þær Sóleyju Birtu, Kötlu, Ásu Kristínu og Karen Lilju. „Við búum í Garðabænum og njótum þess að vera saman. Elsta er rekstrarstjóri á veitingastað í Reykjavík, næst elsta er flutt út í atvinnumennsku í fótbolta til Kristianstad en stelpurnar eru á kafi í allskonar íþróttum.“ Tryggvi Björnsson eiginmaður hennar hefur komið að stofnun ýmissa félaga s.s. Viking Pay, Stofnhúsum, JTV og fleirum ásamt því að sinna ýmsum fjárfestingum.

„Mér finnst rosalega gaman að hreyfa mig og reyni að vera alveg grjót hörð í því mæta í ræktina klukkan sjö þrjá daga vikunnar með góðum hópi. Svo finnst mér rosalega gaman að veiða og er mikil laxveiðikona. Mér finnst líka gaman á skíðum en fyrir mér virka bæði veiðin og skíðin þannig að ég næ alveg að hreinsa hugann. Ekkert símasamband. Núna er ég búin að skrá mig á golfnámskeið. Nú þegar stelpurnar eru orðnar eldri hlýtur maður að finna sér tíma í það, ég er algjör byrjandi í golfinu en er hins vegar búin að skrá mig í golfmót í júní. Sjáum hvernig það fer,“ segir hún hlæjandi.

Viðtal: Þórður Ari Sigurðsson, nemandi í blaðamennsku við Háskóla Íslands.

Edda með Gunnlaugi Sveinssyni, sem vinnur hjá Eimskip.