Már Gunnarsson fékk aðstoð móður sinnar við gerð nýs myndbands
Lagið Lucky star er hið þriðja í röðinni af væntanlegri plötu Más, Orchestral me en platan er öll væntanleg nú í maí
Tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson hefur verið iðinn við kolann að undanförnu en nýverið frumsýndi hann myndband við lag sem hann frumflutti á tónleikum sínum á Íslandi í nóvember, Lucky star. Hann hélt tvenna tónleika á Íslandi með Royal Northern College of music session Orchestra frá Manchester, í Salnum í Kópavogi og í Hljómahöllinni. Í laginu syngur systir Más, Ísold Wilberg og mamma þeirra, Lína Rut Wilberg, kom að gerð myndbandsins.
Mikið ævintýri
„Það var mikið ævintýri að vinna með öllu þessu frábæra tónlistarfólki og fá tækifæri til að hljóðrita tónlistina mína ásamt 80 manna sinfóníuhljómsveit er eiginlega bara smá sturlað,” segir Már um upptökur lagsins.
Nýtur sín í Manchester
„Námið hér úti er að gefa mér svo mikið og innblásturinn kemur úr öllum áttum, bara svipað vindáttunum heima í Keflavík. Um daginn sat ég fyrirlestur hjá fyrrum listrænum stjórnanda Earth, Wind & Fire, hitti upptökustjóra Prince og nýlega spilaði ég á tvennum uppseldum stórtónleikum RNCM session Orchestra ásamt Tim Burgess, söngvara the Charlatans, og Helen O’hara úr Dexy’s Midnight Runners. Samhliða þessu er ég einnig að synda með Manchester City og undirbúa mig fyrir heimsmeistaramót í Singapore í haust,” bætir Már við um hvernig lífið sé í Manchester.
Leitum inn á við
„Lagið Lucky star fjallar um þá tilhneigingu að vera leitandi, og að átta sig á að það sem við leitumst svo mikið við að finna býr oft fyrst og fremst innra með okkur sjálfum. Við systkinin skemmtum okkur síðan konunglega við gerð tónlistarmyndbandsins sem var myndað á stórbrotnum Reykjanesskaganum.
Kvikmyndagerðarmaðurinn Basmo frá Noregi og móðir okkar, Lína Rut, unnu myndbandið með okkur,” segir Már um boðskap lagsins og framkvæmdina.

Frumraun listakonunnar Línu Rutar við myndbandagerð.
Móðir Más, Lín Rut Wilberg, kom að gerð myndbandsins og var ánægð að vinna með börnunum sínum.
„Myndbandið var tekið upp á verstu kuldadögunum síðastliðinn janúar, Ísold og Már voru dúðuð og vafin í teppi þar til rétt fyrir tökur og þeim tókst að láta eins og það væri fínasta sumarveður. Ísold var mesti naglinn, hún sat í sjávarmálinu í Sandvík og hljóp um í sandinum á táslunum. Myndbandið er allt tekið upp hér á Reykjanesinu, alveg magnað að geta skroppið bara rétt út fyrir bæjarmörkin í magnaða og fjölbreytta náttúru. Már kom sérstaklega til landsins til að taka upp myndbandið, hér liggja ræturnar hans svo hann hefur gaman af því að sýna landið sitt og honum þykir sérstaklega vænt um Reykjanesið.
Þetta var einstaklega skemmtilegt verkefni og svo gaman að gera þetta með börnunum mínum, yngsti drengurinn minn, Nói, var svo aðstoðarmaður þannig að það má með sanni segja að þetta hafi verið fjölskylduverkefni. Ég hef ekki tekið svona að mér áður en vann oft sem sminka í gamla daga við auglýsingar og tónlistarmyndbönd en það er allt annar handleggur, segir Lína Rut um verkefnið.
„Þegar ég þvælist um heiminn og sé eitthvað sem heillar, föt eða hluti sem ég get ekki hætt að hugsa um, þá bara verð ég að kaupa, þrátt fyrir að hafa ekki hugmynd um fyrir hvað eða hvort ég geti einhverntíman notað. T.d. rauða skykkjan sem Ísold klæðist í myndbandinu, hvenær í ósköpunum ætti ég að nota hana, en samt var hún nú keypt og ég hef virkilega notið þess að horfa á hana í hvert skipti sem ég opna fataskápinn minn. Fyrir þetta video þurfti ég því ekki að leita langt yfir skammt því mig langaði að hafa þetta draumkennt, ævintýralegt og eins tímalaust og hægt er.


Líf listamannsins

