Grindavík með bakið upp við vegg eftir tap í leik tvö á móti Stjörnunni
Grindavík mætti Stjörnunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Bónusdeildar karla í Smáranum í kvöld en Stjarnan vann fyrsta leikinn á sínum heimavelli á annan í páskum. Í seríu þar sem vinna þarf þrjá leiki, þarf engan sérfræðing til að sjá hversu mikilvægt það er fyrir liðið sem lenti undir, að jafna strax. Grindavík leiddi u.þ.b. 97% leiktímans en það telur víst lítið, Stjarnan komst yfir í annað skipti sitt í leiknum með síðustu körfu leiksins, lokatölur 99-100 og Stjarnan því komin í 2-0 og þarf bara einn sigur í viðbót til að komast í lokaúrslitin.
Grindvíkingar komu mjög grimmir til leiks og unnu fyrsta fjórðunginn með tíu stigum, 31-21. Stjörnumenn komu til baka og unnu annan leikhlutann með átta stigum og því munaði einungis tveimur stigum í hálfleik, 52-50. Það munaði miklu fyrir Grindavík að besti leikmaður liðsins í vetur, Deandre Kane, fann sig í kvöld og var kappinn kominn með tæp tuttugu stig eftir fyrri hálfleik.
Grindavík var alltaf hænufetinu á undan Stjörnumönnum í þriðja leikhluta og leiddu að honum loknum, 73-67.
Eftir tvær mínútur í fjórða leikhluta virtust Grindvíkingar ætla taka völdin í sínar hendur, staðan orðin 82-72 en þessi íþrótt hefur margoft sýnt að hlutirnir gerast á örskotstundu, tveir þristar frá Hilmar Henningssyni og einn frá Jase Febres, og leikurinn nánast orðinn jafn á u.þ.b. mínútu! Aftur náði Grindavík muninum upp í tæp tíu stig en alltaf kom Stjarnan til baka. Þegar 2:45 voru eftir varð umdeild atvik, Ólafur Ólafsson braust upp að körfu og virtist vera blokkaður löglegur. Grindavík braut, úr varð reikistefna út úr henni kom að dómarnir skoðuðu atvikið aftur og dæmdu að boltinn hefði verið búinn að snerta spjaldið þegar blokkið átti sér stað, munurinn fór því upp í sjö stig, 97-90. Eftir þetta skoraði Grindavík bara tvö stig og áður en varði var leikurinn orðinn hnífjafn og spennan rafmögnuð. Enn og aftur fóru dómararnir í skjáinn og skoðuðu hverjir ættu innkast en þeir höfðu dæmt Grindavík það, eftir skoðun var dómnum breytt og Ægir Már labbaði auðveldlega í gegnum vörn Grindavíkur og lagði boltann ofan í, 99-100! Grindavík tókst ekki að koma boltanum í leik, köstuðu honum út af eftir innkast! Stjarnan tók leikhlé, fimm sekúndur eftir en Grindavík stal boltanum en Jeremy Pargo sem ætlaði að gefa á Breka, kastaði boltanum of langt og hann fór út af, Stjörnusigur staðreynd, 99-100.