Leiran heldur breytingunum síðan fyrir Íslandsmót
Byggt ofan á frábært síðasta sumar
„Síðasta ár var mjög gott hjá klúbbnum þar sem hæst bar Íslandsmótið í höggleik, sem heppnaðist mjög vel og mæltust breytingarnar á vellinum mjög vel fyrir og ákveðið að þær haldi sér,“ segir Sverrir Auðunsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Suðurnesja. Sverrir sem hafði gegnt formennsku í Golfklúbbi Grindavíkur áður en hann tók við framkvæmdastjórastöðunni hjá GS, hvetur kylfinga af höfuðborgarsvæðinu til að gefa öllum Suðurnesjunum meiri gaum, hann vill sjá Leiruna þéttbókaða í sumar.

Sverrir er að hefja sitt þriðja tímabil sem framkvæmdastjóri GS og kann vel við sig í starfinu.
„Það er búið að vera skemmtilegt að taka þátt í uppgangi klúbbsins en talsverð fjölgun hefur verið síðustu ár. Við höfum betrumbætt völlinn mjög mikið með betri göngustígum m.a. og svo var auðvitað tekin ákvörðun á síðasta Íslandsmóti að breyta vellinum og mæltust þær breytingar mjög vel fyrir. Eðlilega var svo aðalfundurinn látinn ákveða hvort þær breytingar væru komnar til að vera og var meirihlutinn sem vildi halda þessu. Ég skil þá kylfinga sem vildu halda gamla fyrirkomulaginu sem menn voru vanir en ég held að þetta sé betra svona. Ég man þegar ég var að koma og spila í Leirunni hvað mér fannst byrjunin erfið en í dag kemur maður sjóðandi heitur á tíundu brautina sem var sú fyrsta. Ég held að þetta sé betra en þarna sést lýðræðið í sinni fegurstu mynd, meirihlutinn einfaldlega ákveður svona veigamikil atriði og allir þurfa beygja sig undir lýðræðið.
Golfvöllurinn okkar kemur eins og aðrir vellir mjög vel undan vetrinum og auðvitað þarf ekki neinn sérfræðing til að átta sig á ástæðunni, veturinn var mildur og þ.a.l. tekur grasið fyrr við sér. Við erum búnir að vera opnir inn á sumarflatir síðan í síðustu viku og hefur verið nokkuð góð aðsókn.“
Þétt setnir vellir á höfuðborgarsvæðinu
Mikil aukning hefur verið í golfíþróttinni á Íslandi undanfarin ár og eru vellirnir á höfuðborgarsvæðinu fyrir löngu sprungnir. Sverrir hvetur kylfinga til að gefa Leirunni og öllum Suðurnesjunum gaum í sumar.
„Það hefur orðið gríðarleg aukning í golfinu undanfarin ár sem er mjög jákvætt. Ég öfunda hins vegar kylfinga á höfuðborgarsvæðinu ekkert sérstaklega, bæði eru langir biðlistar eftir því að komast í klúbbana þar og vellirnir umsetnir frá morgni til kvölds. Það tekur ekki nema rúman hálftíma að rúlla til okkar hér á Hólmsvöll í Leiru og svo eru auðvitað fleiri frábærir vellir á Suðurnesjunum. Ég hvet höfuðborgarbúa til að hafa okkur í huga, virka daga er nánast hægt að komast í golf þegar manni lystir. Við erum með mjög öflugt starf hér og viljum fá fleiri í klúbbinn.
Ég er viss um að það mun verða frekari aukning í golfi á þessu sumri, nýafstaðið Masters-mót skemmir heldur betur ekki fyrir. Ég veit að margir horfðu með aðdáun sem hafa ekki haft mikinn áhuga á þessari íþrótt og eru forvitnir að prófa. Ég hvet alla til að hafa samband við sinn klúbb og spyrja hvernig best sé að haga byrjun golfferilsins. Í dag er nýliðakennslan mjög góð og hvet ég alla til að fá leiðsögn þegar fyrstu sveiflurnar eru teknar, í stað þess að vaða bara af stað og gera eitthvað. Kennarinn getur ráðlagt viðkomandi varðandi búnað og svo er bara að hella sér af stað. Ég hef sett mér það markmið að ná 100 nýliðum í GS á þessu tímabili, maður verður að setja markið hátt,“ sagði Sverrir að lokum.
