Njarðvík komið í 2-0 gegn Keflavík í úrslitakeppni Bónusdeildar kvenna
Keflavík og Njarðvík mættust öðru sinni í rimmu sinni í undanúrslitum Bónusdeildar kvenna í kvöld og fór leikurinn fram á heimavelli Keflavíkur en Njarðvík vann fyrsta leikinn á heimavelli nokkuð örugglega, 95-80.
Njarðvík var betri aðilinn allan tímann, leiddi frá upphafi og í hálfleik, 44-45. Keflavík reyndi það sem þær gátu en það dugði ekki til og Njarðvík vann baráttusigur, 73-76.
Njarðvík tók frumkvæðið í byrjun leiksins og komust m.a. í 2-10. Keflavík vaknaði til lífsins en þessi munur hélst út fyrsta fjórðunginn og Njarðvík leiddi eftir hann, 21-27.
Njarðvík var áfram með frumkvæðið í byrjun annars leikhluta, Keflavík var í vandræðum með að skora gegn hávöxnu Njarðvíkurliði og lentu að sama skapi í vandræðum með verjast á sínum enda. Þegar þannig ber undir, er ekki amalegt að vera með leikmann í sínu liði sem getur búið til hluti upp á eigin spýtur, Jasmine Dickey, leikmaður Keflavíkur er með gífurlega sóknarhæfileika og hélt sínu liði inni í leiknum, staðan 31-36 og leikhlé tekið þegar tæpar fimm mínútur lifðu fyrri hálfleik. Vörnin hertist hjá Keflavík og þá vilja oft auðveldar körfur fylgja í kjölfarið hinum megin, augnablikið var með Keflavík til loka fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum, 44-45.
Njarðvík var áfram í bílstjórasætinu í þriðja leikhluta og það þrátt fyrir að besti leikmaður liðsins, hin bandaríska Brittany Dinkins, gengi ekki heil til skógar en hún meiddist í seríunni gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum. Njarðvík lét það ekki á sig fá, nýtti yfirburði sína inni í teig í staðinn og vann þriðja leikhlutann, 10-14 og leiddi því fyrir lokaleikhlutann, 54-59. Ekki mikið skorað í þriðja leikhluta, sem var til marks um varnir liðanna.
Sami barningur var í lokaleikhlutanum, Keflavík reyndi allt sem þær gátu til að ná yfirhöndinni en Njarðvík átti alltaf svar, Siggi og Jonni, þjálfarar Keflavíkur, tóku leikhlé þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks og þeirra konur undir, 63-70. Ljóst að félaganir þyrftu að draga eitthvað róttækt upp úr þjálfarabókinni ef þessi leikur ætti ekki að renna þeim úr greipum og ansi myndarleg hola þar með grafin. Keflavík kom strax með þrist upp úr leikhléinu og kveikti smá von. Munurinn minnkaði, fór niður í eitt stig og Keflavík fékk nokkur tækifæri til að komast yfir en ofan í körfuna vildi boltinn ekki, Njarðvík skoraði hinum megin og Keflavík tók leikhlé í stöðunni 73-76. Ekki tókst heldur að skora en þær fengu lokasóknina en þriggja stiga skot Jasmine Dickey rétt missti marks, Njarðvíkursigur staðreynd, 73-76.
Turnarnir í liði Njarðvíkur, Emilie Hesseldal og Paulina Hersler, voru stærsta ástæða sigurs Njarðvíkur í kvöld. Emilie endaði með 30 framlagspunkta (12 stig, 16 fráköst og 6 stolnir boltar) og Paulina með 21 stig og 7 fráköst. Athyglisverður sigur Njarðvíkur með sinn besta leikmann á annarri löppinni eins og áður kom fram. Brittany var með vafasama tvennu, 16 stig og 10 tapaða bolta en hún tók líka 9 fráköst.
Hjá Keflavík var Jasmine Dickey yfirburðabest og sú eina sem skilaði sér í 10+ í framlagi, hún endaði með 31 punkt (26 stig og 15 fráköst). Ljóst að Keflavík þarf að fá framlag úr fleiri áttum ef þeirra tímabili á ekki að ljúka á sunnudagskvöld þegar þriðji leikur liðanna fer fram í Icemar-höll Njarðvíkinga.