Skjólið og Fjölskylduhús rædd í bæjarstjórn
Umbót bendir á óásættanlegar aðstæður barna
Húsnæðismál úrræðisins Skjólið og framtíðaráform um þjónustumiðstöð fyrir börn og vistheimili að Faxabraut 13 voru til umfjöllunar á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þann 15. apríl, eftir að málin voru tekin fyrir á fundi velferðarráðs viku fyrr.
Skjólið þarf nýja aðstöðu
Á fundi velferðarráðs 10. apríl komu fram óskir frá velferðarsviði um að starfsemi Skjólsins, sem sinnir börnum og ungmennum með sértækar stuðningsþarfir, flytjist í fyrrum leikskólahúsnæði Drekadals við Grænásbraut 910 þegar leikskólinn flytur í nýtt húsnæði. Núverandi aðstaða Skjólsins í 88-húsinu er sögð óhentug og hafi rými úrræðisins minnkað vegna annarrar starfsemi í húsinu.
Velferðarráð lagði til að beiðni velferðarsviðs yrði samþykkt sem tímabundin lausn, og að Skjólið fengi aðstöðu sem hentar starfseminni. Á fundi bæjarstjórnar var málið samþykkt samhljóða með vísun til frekari þarfagreiningar hjá sviðsstjóra velferðarsviðs.
Núverandi aðstæður ógna velferð barnanna
Í kjölfar umræðunnar lagði Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, fram ítarlega bókun þar sem hún vakti sérstaka athygli á alvarlegum húsnæðisvanda Skjólsins.
„Núverandi aðstæður eru óásættanlegar og ógna bæði faglegu starfi og velferð barnanna,“ sagði Margrét og benti á að um sé að ræða lögbundna þjónustu sem sveitarfélaginu beri lagaleg og siðferðileg skylda til að tryggja. Hún lýsti ánægju með tillögu velferðarráðs en lagði jafnframt ríka áherslu á að finna framtíðarlausn samhliða mögulegri tilfærslu í húsnæði Drekadals, sem í dag er rekinn í fyrrum skólahúsnæði Keilis á Ásbrú, þar sem jafnframt eru bæjarskrifstofur Reykjanesbæjar til bráðabirgða næsta eina og hálfa árið.
Margrét benti á að laust húsnæði sveitarfélagsins að Breiðbraut 645, 293 m² með hjólastólaaðgengi, gæti hentað sem varanlegur kostur fyrir Skjólið og hvatti meirihlutann til að skoða þann möguleika af alvöru. Hún skoraði á meirihlutann að sýna ábyrgð og leggja áherslu á stöðugleika og faglegan stuðning fyrir þau börn sem nýta sér þjónustu Skjólsins.
Fjölskylduhús að Faxabraut 13
Einnig var fjallað um tillögu velferðarsviðs um að nýta húsnæðið að Faxabraut 13, þar sem hjúkrunarheimilið Hlévangur hefur verið til húsa, sem þjónustumiðstöð fyrir börn með fötlun og vistheimili barna. Verkefnið hefur fengið vinnuheitið Fjölskylduhús.
Velferðarráð studdi tillöguna og taldi húsnæðið henta vel fyrir starfsemina. Bæjarstjórn samþykkti að vísa málinu einnig til sviðsstjóra velferðarsviðs til frekari þarfagreiningar.
Óvissa um framtíðar-hlutverk Faxabrautar 13
Stjórn Eignasjóðs Reykjanesbæjar fjallaði á fundi sínum 10. apríl um nýlega ástandsskýrslu Verkís um húsnæðið að Faxabraut 13, þar sem hjúkrunarheimilið Hlévangur er nú til húsa. Skýrslan var gerð eftir beiðni velferðarsviðs, í ljósi þess að núverandi starfsemi er á förum í nýtt húsnæði.
Í fundargerð kemur fram að ekki liggi fyrir hver framtíðarnotkun húsnæðisins verður og að slíkt þurfi að skýrast áður en hægt sé að fara í kostnaðargreiningu vegna nauðsynlegs viðhalds. Samkvæmt skýrslunni er byggingin í þokkalegu ástandi miðað við aldur, en þarfnast töluverðra úrbóta, m.a. vegna raka og slits á gólfefnum, gluggum og hurðum.
Stjórn Eignasjóðs samþykkti að fela Hreini Ágústi Kristinssyni, deildarstjóra eignaumsýslu, að vinna áfram í málinu.