Leikfélag Glanni
Leikfélag Glanni

Viðskipti

Fyrrum körfuboltaleikmaður nýr þjónustustjóri VÍS í Reykjanesbæ
Föstudagur 7. mars 2025 kl. 15:57

Fyrrum körfuboltaleikmaður nýr þjónustustjóri VÍS í Reykjanesbæ

Rakel Rós Ágústsdóttir tók við sem þjónustustjóri VÍS í Reykjanesbæ í janúar síðastliðinn. Rakel hefur mikla reynslu í þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki en hún hóf störf hjá VÍS árið 2018 sem þjónustu- og sölufulltrúi. Árið 2022 fór Rakel í fæðingarorlof og flutti um svipað leyti til Ulm í Þýskalandi þar sem maðurinn hennar var ráðinn sem körfuboltaþjálfari. Í fyrra sneri fjölskyldan aftur heim til Íslands og Rakel hóf aftur störf hjá VÍS.

Rakel er gift Baldri Þór Ragnarssyni og saman eiga þau einn son, Ragnar Þór sem er tveggja ára. Hún er uppalin á Sauðárkróki, útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og kláraði svo BS í Sjúkraþjálfunarfræðum í Háskóla Íslands. Frá unga aldri æfði Rakel körfubolta og spilaði með Þór Akureyri, Haukum, Stjörnunni og Tindastól en lagði svo skóna á hilluna árið 2020. ,,Það má segja að líf okkar snúist um körfubolta en Baldur er þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta og svo er hann aðstoðarþjálfari A landsliðs karla.“ Rakel hlakkar því til að eiga gott spjall um körfuboltann við fólkið í bænum sérstaklega í ljósi þess að karlalið Keflavíkur og kvennalið Njarðvíkur og Grindavíkur spili nú í undanúrslitum VÍS-bikarsins.

Fyrir utan körfuboltalífið nýtur fjölskyldan þess að ferðast. ,,Bæði ég og Baldur komum frá minni bæjum út á landi, Króknum og Þorlákshöfn, og líður okkur því best úti í íslenskri náttúru,“ segir Rakel en bætir þó við: ,,Það jafnast þó ekkert á við það að fara norður í heimsókn til pabba og skella sér í góðan útreiðartúr í kvöldsólinni.“

VF Krossmói
VF Krossmói

Mikilvægt að vera í nálægð við viðskiptavinina

Rakel er spennt fyrir starfinu og nýju vinnuumhverfi - Breytingin leggst afar vel í hana: ,,Ég hef góða tengingu í Reykjanesbæ og hef sömuleiðis margoft keppt hérna. Ég á marga góða kunningja og vini á svæðinu enda er þetta mikill körfuboltabær.“ 

Rakel stígur inn í gott teymi á svæðinu en þau eru þrjú sem sitja á skrifstofunni. ,,Vinnuaðstaðan er frábær og það er ótrúlega gaman að koma inn í svona gott teymi og sameina krafta okkar í að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu.“

Mikill fögnuður var þegar VÍS opnaði þjónustuskrifstofu sína í Reykjanesbæ í júní 2024 og var gestum og gangandi boðið upp á veitingar og happdrætti. „Það eru margar fjölskyldur og fyrirtæki í viðskiptum við okkur á svæðinu og við viljum vera til staðar fyrir þau. Við finnum og vitum að það er mikilvægt að vera í nálægð við viðskiptavinina til að veita bestu þjónustuna. Kíkið endilega við á Hafnargötu 57.“