Áhyggjulaust líf í Kenía og Keflavík eftir 30 ár í friðargæslustörfum
Þeir sem segja að lífið sé ferðalag mættu taka sér Keflvíkinginn Birgi Guðbergsson til fyrirmyndar. Frá því hann gekk um bryggjurnar hér heima á Íslandi sem ungur sjómaður og þar til hann settist að í Kenía á eftirlaunum, hefur líf hans verið ævintýri og oft á tíðum líf á mörkum hættunnar.
Þeir sem segja að lífið sé ferðalag mættu taka sér Keflvíkinginn Birgi Guðbergsson til fyrirmyndar. Frá því hann gekk um bryggjurnar hér heima á Íslandi sem ungur sjómaður og þar til hann settist að í Kenía á eftirlaunum, hefur líf hans verið ævintýri og oft á tíðum líf á mörkum hættunnar.
Birgir lauk nýverið þrjátíu ára starfsferli hjá Sameinuðu þjóðunum og nýtur nú eftirlaunaáranna. Hann tekur undir það að hann sé flökkukind en á þessum árum hefur hann starfað við misjafnar aðstæður á stríðshrjáðum svæðum á Balkanskaganum og í Afríku. Birgir settist niður með ritstjóra Víkurfrétta í gott spjall en viðtalið er í heild sinni aðgengilegt á vef Víkurfrétta, í Sjónvarpi Víkurfrétta á Youtube og hlaðvarpsveitunni Spotify, bæði í myndspjalli og einnig einungis í hljóði.
Birgir segir að flökkueðlið hafi komið nokkuð fljótt í ljós eða kannski heimsforvitni því hann var rétt orðinn þrítugur þegar hann sá auglýsingu í Dagblaðinu, DV um starf fyrir Sameinuðu þjóðirnar í fyrrum Júgóslavíu. Eitt af skilyrðunum var að vera með meirapróf á stærri tæki og kunna eitthvað í ensku en auðvitað talsvert meira.

Birgir að störfum í Bosníu.
Evrópa miklu minni en hann hafði ímyndað sér
„Mér fannst þetta eins og skrifað til mín og þetta heillaði mig eitthvað. Svo ég sótti um en ég þurfti að fylla út fullt af pappírum um heilsu mína sem Hreggviður Hermannsson, þáverandi læknir í Keflavík, hjálpaði mér með. Þá þurfti ég að vera með hreina sakaskrá. Allt var svo sent í „faxi“ en internetið var ekki komið á þessum tíma. Það var starfsmannaleiga í Írlandi sem auglýsti störfin en alls vorum við fjórtán Íslendingar sem hittumst svo í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli á brottfarardegi,“ segir Birgir þegar hann rifjar þetta upp. Ekki tókst að lenda í Zagreb í Króatíu og því var lent í Austurríki og þaðan var ekið á áfangastað. Það var þá sem Birgir áttaði sig á því að Evrópa væri miklu minni en hann hafði gert sér í hugarlund.

Flökkulífið byrjaði allt á sjónum
Í yfirgripsmiklu viðtali við Birgi í Hlaðvarpi Víkurfrétta á vf.is er farið yfir starfsferilinn hjá Sameinuðu þjóðunum en einnig æskuárin heima á Íslandi. Birgir byrjaði snemma að vinna og sjórinn heillaði strákinn. Hann var rekinn úr skóla í Keflavík, af því að kennarinn hafði ekki verið að standa sig og verið frá kennslu. Lokst þegar kennarinn mætti og ætlaði að fara að kenna bekknum eftir hefðbundinn skólatíma, sagði Birgir að það kæmi ekki til greina. Hann hafði ráðið sig í vinnu hjá Baldri. Hann lauk þó náminu, m.a. með því að fara á héraðsskólann að Skógum. Birgir fór einnig í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en vantaði aðeins upp á að ljúka stúdentsprófinu. Sjórinn togaði og hann gerðist háseti á Baldri KE en einnig á Fiskanesbátnum Jóhannesi Gunnari GK á reknetum fyrir austan og á loðnu á Helgu Guðmundsdóttur BA með Guðmundi Garðarssyni, Bóba. Þá reyndi hann fyrir sér í útgerð ásamt öðrum en það gekk ekki. Enginn tapaði þó á ævintýrinu.

Götumynd frá Monróvíu í Líberíu.
En örlögin áttu eftir að beina Birgi á óvæntar brautir. Það var árið 1994 sem hann sótti um starf sem bílstjóri hjá Sameinuðu þjóðunum í fyrrum Júgóslavíu. Með ævintýraþrá í farteskinu fór hann út ásamt fjórtán öðrum Íslendingum til starfa á Balkanskaganum. Þar hófst líf sem varði í þrjá áratugi og leiddi hann frá Bosníu til Kosovo, Líberíu, Malí, Gíneu Bissá og Sómalíu, svo fátt eitt sé nefnt.
Frá frostköldum Balkanskaga til brennandi eyðimarka
Birgir dvaldi lengi í átakalöndum á Balkanskaga. Þar þjónustaði hann friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna en hann hafði verið ráðinn sem bílstjóri til að flytja birgðir og mannskap. Það hófst þó ekki allt vel. Hópurinn þurfti að taka bílpróf á flutningabíl sem var óvanalegur heima á Íslandi. Þrettán karlar og ein kona þreyttu prófið. Strákarnir féllu allir í fyrstu umferð en konan í hópnum náði. Hún hafði verið að vinna hjá Reykjavíkurborg á traktor með vagn sem virkaði svipað. Hópurinn sem féll fékk viku til að endurtaka prófið en ekkert tæki til að æfa sig. Nú voru góð ráð dýr en Birgir fann lausn. Hann fór í leikfangaverslun og keypti bíl með svipuðum vagni og æfði sig í að bakka með kerruna í heila viku inni á hótelherbergi. Fyrst var flissað yfir þessu en svo komu félagarnir einn á eftir öðrum og vildu fara í bílaleik með Birgi. Allir náðu þeir prófinu í næstu umferð.

Birgir gaf sig á tal við vegfaranda í Líberíu.
Helgarferðir úr eyðimörkinni til Kanarí
Eftir að friður komst á í Bosníu tók við Sahara eyðimörkin í Vestur-Sahara. Þar stýrði hann flutningum til varðstöðva Sameinuðu þjóðanna. „Sandstormar, sprengjusvæði og hitinn voru áskoranir en mér fannst þetta bara frábært,“ segir Birgir. Sól og sandur er það sem flestir hugsa þegar Sahara er nefnd og í Vestur-Sahara eru Kanaríeyjar skammt undan. Þar sem unnið var til hádegis á föstudögum var leigð flugvél og helgunum varið á Kanarí þar sem kíkt var á Klörubar og keyptar vistir sem ekki var hægt að fá í eyðimörkinni. Birgir segir að hann hafi aðlagast hitanum vel. Hann hafi þó notað tækifærið þegar honum bauðst að fara aftur í svalann á Balkanskaganum til verkefna þar. Þar aðstoðaði Birgir m.a. hóp sérfræðinga sem vann að því að grafa upp lík fólks úr húsagörðum, einstaklinga sem höfðu fallið í stríðinu og verið grafnir í görðunum.

Smíðaði bíl fyrir páfann
En Afríka togaði í okkar mann og þar áttu eftir að bíða hans verkefni í nokkrum löndum. Birgir var m.a. í Mið-Afríkulýðveldinu árið 2015 þegar Frans páfi, sem lést nú um páskana, kom þangað í heimsókn. Það var verkefni Birgis og félaga hans að smíða bíl fyrir páfann.
„Bíllinn mátti ekki vera skotheldur þó hann ætti eftir að fara um stórhættulegar slóðir. Með teikningar frá páfagarði var útbúinn bíll, hann teppalagður með rauðu teppi og útbúinn sæti úr olíubíl þar sem páfinn gat setið og veifað til íbúa,“ segir Birgir. Verkefnið lukkaðist vel og páfinn var ánægður með bílinn.

Birgir í Guinea Bissau þar sem haldið er mikið karnival á hverju ári.

Eiríkur, sonur Birgis, lést aðeins níu ára gamall.
Baráttan gegn eiturlyfjum – og barátta við sorgina
Í Gíneu Bissá tók Birgir þátt í verkefni til að hefta flutning kókaíns frá Suður-Ameríku. Hann lýsir því sem mikilli áskorun að sjá hvernig eitt fátækt land gat orðið „stökkpallur“ fyrir milljarða í eiturlyfjum.
Síðasti starfsvettvangur Birgis fyrir Sameinuðu þjóðirnar var í Sómalíu. Þar þurfti hann að sofa og starfa í skotheldum birgjum ásamt því að fara allra sinna ferða í skotheldum bíl. Það var nauðsynlegt og það reyndi á það, segir Birgir. Þarna var álagið mikið og okkar maður notaði því tækifærið þegar hann varð sextugur að fara á eftirlaun.
En allt eru þetta aðeins brot úr sögu manns sem einnig hefur þurft að glíma við sína eigin lífsáskorun. Árið 2012 missti hann son sinn, Eirík, úr blóðeitrun aðeins níu ára gamlan. Lífsglaður ungur drengur sem ólst upp í alþjóðlegu umhverfi með vinahóp úr öllum heimshornum.

Kenía og Keflavík
Í dag býr Birgir í Kenía, þar sem veðurfarið er stanslaust gott og enska töluð. Þar hefur hann komið sér upp heimili, með golfvelli í göngufæri. Tengslin við Ísland og Keflavík halda áfram að kalla hann heim með reglulegu millibili og hann segist ætla að eiga heimili á báðum stöðum. Eftir þrjátíu ár hjá Sameinuðu þjóðunum sé hann ekki tilbúinn að koma heim til að setjast að alveg strax. Áhyggjulaust lífið í Kenía togi í hann. Engar áhyggjur af því hvernig á að klæða sig, bara hoppa í stuttbuxurnar og út í sólina og golfið.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í yfirgripsmiklu spjalli okkar við Birgi. Það má sjá og heyra í heild sinni á vef Víkurfrétta.

