Gleðilegt sumar
Gleðilegt sumar

Mannlíf

Ási Friðriks vill  í bæjarpólitíkina
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 26. apríl 2025 kl. 06:05

Ási Friðriks vill í bæjarpólitíkina

Atorkusamur og líður eins og 35 ára

Ásmundur Friðriksson hefur verið áberandi í mannlífinu á Suðurnesjum frá því að hann flutti þangað frá Vestmannaeyjum árið 2003. Hann hefur víða komið við, var bæjarstjóri í Garði í fjögur ár og frá árinu 2013 til nóvember á síðasta ári, alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Honum var hafnað í uppstillingu fyrir síðustu alþingiskosningar en er alls ekki af baki dottinn og hyggst bjóða starfskrafta sína í bæjarstjórnarmálin á næsta kjörtímabili.
Ási ungur að árum í Eyjum.

Ási býr í Reykjanesbæ og er tilbúinn til forystu í bæjarstjórn, en hann hefur líka fengið áskoranir úr öðrum bæjarfélögum eins og Grindavík sem tengist gamla heimabæ Ása, Vestmannaeyjum. Þau tengsl hafa orðið nánari við við hamfarirnar í Grindavík og Ási á þar sterkar tengingar.

Ási gaf út sína fimmtu bók um síðustu jól og er með þá sjöttu í smíðum og ekki nóg með það, hann lærði handritagerð fyrir sjónvarp og bíó. Hann er með handrit í vinnslu fyrir sex þátta sjónvarpsseríu sem byggir á bók hans; Strand í gini gígsins.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Ási skrifaði bókina Strand í gini gígsins um Surtseyjargosið.
Listmálari, teiknari, rithöfundur og handritshöfundur

Ási er fæddur og uppalinn Eyjamaður. Hann keppti, bæði í handbolta og fótbolta, vann hin ýmsu störf til sjós og lands en árið 2003 ákvað fjölskyldan að venda kvæði sínu í kross og flutti til Reykjanesbæjar. Hann réði sig í starf framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Keflavíkur árið 2004 og sinnti því starfi í tvö ár, var svo í vinnu fyrir Reykjanesbæ og átti m.a. þátt í að rífa Ljósanæturhátíðina á þann stall sem hún er komin á í dag. Ási vill sjá íþróttafélögin koma meira að skipulagningu og framkvæmd Ljósanætur og sér tækifæri í því fyrir alla aðila en hann er hokinn af reynslu í slíkum hátíðum eftir að hafa komið að ótal þjóðhátíðum Vestmannaeyinga.

Árið 2009 var honum boðin staða bæjarstjóra í Garði. Meirihlutinn sprakk árið 2012 og Ása var sagt upp störfum en hann dó ekki ráðalaus, gaf kost á sér á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og var kosinn á þing vorið 2013. Hann sinnti þingmennsku fram að síðustu kosningum og samhliða því annasama starfi gaf hann út fjórar bækur en hafði árið 2013 gefið út sína fyrstu bók. Sú sjötta er komin á teikniborðið og út frá ritstörfunum fæddist svo nýr titill; handritshöfundur.

Sögur af vellinum

„Nýjasta bókin er með vinnuheitið Sögur af vellinum, hún er saga Íslendinga sem unnu á þessum goðsagnarkennda vinnustað. Ég held að fólk geri sér ekki almennilega grein fyrir þeim menningarlegu áhrifum sem hlutust af veru varnarliðsmanna á svæðinu en Bretarnir hernámu landið í maí 1940 og svo kemur Kaninn og vera varnarliðs í Keflavík á sögu til ársins 1941. Skrifin ganga vel en ég er enn að leita að viðmælendum með þekkingu og reynslu af störfum á Vellinum. Þetta er mjög áhugavert efni, t.d. saga fjölskyldu sem varð til vegna veru varnarliðsins í upphafi og alveg til þess tíma að öllu var pakkað saman og varnarliðið yfirgefur skerið árið 2006. Ég ætla að gefa þessa bók út á Ljósanótt 2026 en þá verða tuttugu ár liðin síðan varnarliðið fór og tuttugu ár síðan ég tók við starfi framkvæmdastjóra Ljósanætur.

Fyrstu bókina gaf ég út árið 2013, sjálfsævisaga mín, með sögum úr mannlífinu í Vestmannaeyjum, svo kom saga Hrekkjalómafélagsins árið 2015 og undanfarin þrjú ár hef ég gefið út bók á ári, Strand í gini gígsins árið 2022, ævisaga Didda Frissa árið 2023 og ævisaga Edvards Júlíussonar í tveimur bindum kom út fyrir síðustu jól. Þegar þingmennskunni lauk síðasta haust ákvað ég að læra handritagerð, hjá Jóni Atla Jónssyni, einum okkar fremsta manni á því sviði. Hann frétti að ég hefði skrifað fimm bækur og bað um að fá að lesa þær og út frá lestri bókarinnar „Strand í gini gígsins,“ hvatti hann mig til að skrifa handrit fyrir sex þátta sjónvarpsseríu. Ég er búinn að skrifa fyrsta þáttinn og grunn af næstu fimm og hef lagt inn umsókn um handritsstyrk frá Kvikmyndasjóði Íslands. Þetta er hefðbundið ferli og forsenda að næstu skrefum ef framleiða á efnið fyrir sjónvarp og ég vona það besta. Þetta er mjög skemmtilegt og á vel við mig, handritið byggir á bókinni en þarna bæti ég inn sögum og færi líf í frásögnina með því að semja samtöl, t.d. milli mín og ömmu minnar. Ég hlakka til að klára þetta handrit en hvenær og hvort þetta ratar í sjónvarpið er ómögulegt að segja til um. Kostnaður við sjónvarpsgerðina er metinn á um milljarð króna en ég er sannfærður um að þetta muni verða að veruleika.

Það má kannski segja að ég hafi nóg fyrir stafni en fyrir utan ritstörfin hef ég fengist við að mála og teikna, hef haldið fimmtán einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum. Ritstörfin hafa samt tekið yfir sviðið að undanförnu en aldrei að vita nema ný málverk eigi eftir að fæðast á léreftinu.“

Ási heldur Skötumessu á hverju sumri úti í Garði.
Líkar illa að vera aðgerðarlaus

Ása líkar illa að vera aðgerðarlaus og leitar að verkefnum eða fastri vinnu en hann hefur alltaf verið vinnusamur og er vanur löngum vinnudegi. Hann er með nokkur verkefni á kantinum en vill ólmur komast í bæjarstjórnarmálin. Hvað myndi hann leggja áherslu á ef hann kæmist til valda í Reykjanesbæ?

„Ég er fullur starfsorku og vil halda áfram að vinna og þar sem ég þekki bæjarpólitíkina mjög vel og finn fyrir hvatningu, þá finnst mér kjörið á þessum tímapunkti að gefa kost á mér í bæjarmálin. Ég er tilbúinn til forystu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og láta gott af mér leiða, margir hafa leitað til mín og hvatt mig til dáða að skella mér í bæjarmálin. Það eru bæði hinn almenni sjálfstæðismaður og ekki síður fólk úr þverpólitísku umhverfi, hinn almenni bæjarbúi, sem hefur stutt mig frá því að ég fór á Alþingi. Minn styrkur liggur í stuðningi hins almenna kjósenda, sem yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum en Sjálfstæðisflokkurinn tapaði þá þriðja sætinu og fyrsta þingmanni Suðurkjördæmis. Það gerðist eftir að forystan hér í bæ kom mér út af listanum og við töpuðum öruggu þingsæti. Þeir kjósendur sem þá réru á önnur mið, standa enn við bakið á mér og það fólk fylgir mér hvað sem ég geri.

Ég stend á tímamótum, bý yfir mikilli starfsorku og vill nýta hana og reynslu mína til að gera góðan bæ betri. Ég tala bæinn minn upp á hverjum degi og vil vinna með góðu fólki og halda áfram því eilífðarverkefni að gera betur, það mun aldrei hverfa frá okkur að svara ákalli nýrra tíma og undirbúa framtíðina sem best.

Afrakstur Skötumessunnar hefur styrkt ótal góðgerðarmálefni á Suðurnesjum.
Brýnasta verkefnið í Reykjanesbæ að styrkja fjárhag bæjarins og efla atvinnulífið

Ef ég kemst til forystu þá er brýnasta verkefnið hér í Reykjanesbæ að styrkja fjárhag bæjarins og efla atvinnulífið. Hlúa að umhverfi þeirra fyrirtækja sem hér eru fyrir og skapa umhverfi svo fleiri fyrirtæki sæki hingað og fjölgi betur launuðum og fjölbreyttum störfum. Það hefur verið gríðarleg fólksfjölgun í Reykjanesbæ að undanförnu og ljóst að atvinnustigið þarf að vera hátt og meðallaun að hækka. Ég vil laða að fyrirtæki og aðstoða frumkvöðla til að stofna fyrirtæki hér. Þetta svæði hefur gífurleg tækifæri til uppbyggingar með alþjóðaflugvöll og Helguvík sem lykiláfangastaði í Atlantshafi. Það er verkefni að hlúa svo að atvinnulífinu að það sjái þau tækifæri sem þarna búa og nýti þau. Ég sem íbúi í þessum bæ og sjálfstæðismaður sé hvað margt gott hefur verið unnið hér og gert á undanförnum árum. Það má líka ekki gleyma því að sveitarstjórnarmálin snúast um annað en það sem er að gerast á Alþingi. Í bæjarstjórn erum við að vinna að hag okkar bæjarfélags, íbúanna og styrkja umgjörð nærsamfélagsins.

Vitum að ungt fjölskyldufólk lítur til árangurs í íþróttum

Ásmundur segir fólk auðvitað með mismunandi lífsskoðanir og öll vilja gera sitt besta fyrir bæjarfélagið.

„Þegar ég hóf vinnu fyrir Reykjanesbæ árið 2006 var verið að ljúka fyrsta áfanga í byggingu Nesvalla, þá var Hlévangur í raun eina hjúkrunarheimilið fyrir eldra fólkið okkar og mjög takmörkuð aðstaða fyrir fatlaða. Þetta hefur gjörbreyst. Aðstaðan á Nesvöllum er á við það besta sem þekkist hér á landi, það hefur mjög mikið verið gert í þessum málaflokkum en við þurfum að halda því góða starfi áfram. Ég vil leggja mikla áherslu á uppbyggingu íþróttamannvirkja og styrkja grunnstoðir íþróttafélaganna til jafns við það sem gerist í sambærilegum sveitarfélögum. Við vitum að ungt fjölskyldufólk lítur til árangurs í íþróttum þegar það ákveður hvar það vilji setjast að. Það hefur margt gott verið gert en það er líka margt sem betur má fara og er bara verkefni að leysa. Þeir sem þekkja mig vita að komist ég til áhrifa þá mun ég mæta með mína vinnusemi að vopni og ekki síst, hlýtt hjarta. Ég hef aðstoðað fjölda fólks sem hefur átt erfitt uppdráttar í lífinu, ég mun halda áfram að aðstoða það góða fólk og bæjarstjórn er góður vettvangur til þess,“ segir Ási.

Ási hefur reynslu af því að takast á við eldgos.
Grindvíkingar verða að ráða sínum málum

Framtíð Grindavíkur er óljós og enginn getur sagt til um hvernig mál þar muni þróast. Ef leitað yrði til Ása myndi hann vilja taka við stjórnartaumunum þar.

„Það má kannski líkja mér við ósamningsbundinn leikmann í íþróttum, ég er engum

bundinn og get talað við þau lið sem hafa áhuga á mér. Ég hef átt samtöl við fólk í Suðurnesjabæ, Vogum og Grindavík og þau vita af mér. Ég get alls staðar verið, er mjög hreyfanlegur en einhverjum kann að finnast skrítið að maður á mínum aldri sé í svona pælingum. Mér er mikill heiður af því að Grindvíkingar orði þetta við mig en það hefur áður komið til tals. Grindvíkingar verða að ráða sínum málum, þau sem þar stjórna hafa ekki verið öfundsverð af því að vera í bæjarstjórn eða í stól bæjarstjóra. Ég ber mikla virðingu fyrir því fólki, þeirra erfiðu störfum sem hafa tekið á svo ekki sé meira sagt og það fólk þarf svigrúm til að taka sínar ákvarðanir varðandi framtíðina.

Ég hef heldur betur reynslu af svona málum úr þinginu, sem þingmaður Grindvíkinga og svo vann ég hjá Viðlagasjóði í Vestmannaeyjum við hreinsun og endurreisn eftir gosið svo ég þekki þetta andrúmsloft og þann kraft og kjark sem þarf og er Grindvíkingum í blóð borinn. Grindavík og Vestmannaeyjar hafa alltaf tengst nánum böndum, sú tenging byrjaði kannski í Tyrkjaráninu árið 1627, síðar urðu staðirnir öflugir sjávarútvegsbæir og svo auðvitað tengja eldgosin okkur nánari böndum og eftirmálar þeirra. Mér myndi renna blóðið til skyldunnar að vinna með Grindvíkingum ef til mín yrði leitað. Ég man hvernig Eyjamenn töluðu eftir eldgosið, margir ætluðu sér aldrei að snúa til baka en um leið og friður komst á voru flestir fluttir heim. Ég er sannfærður um að það sami muni gilda með Grindvíkinga, fólkið saknar samfélagsins síns og um leið og kraftur verður settur í uppbyggingu og ríkisvaldið fær trú á framtíð Grindavíkur kemur fólkið og fyrirtækin með líf í þetta öfluga pláss.

Það er gaman að finna hve mörg tækifæri eru á kantinum og bæjarmálin eru góður næsti áfangastaður fyrir kröftugan málsvara sveitarstjórnarstigsins. Ég á nóg eftir af vinnusemi, góðum anda og láta gott af mér leiða sem eru þau gildi sem líf mitt byggir á.

Ég hef nýlega tekið mér titilinn rithöfundur en þær bækur sem ég hef skrifað hafa allar verið skrifaðar samhliða annarri vinnu, fjórar af fimm á meðan ég var þingmaður. Ég er venjulega vaknaður klukkan fimm og er þá ferskastur til að skrifa og svo nýti ég auðvitað frítímann vel svo það hefur verið breyting að líta á ritstörfin sem fulla vinnu en ég er klár í slaginn. Ég segi stundum að starfsferillinn sé rétt að byrja, mér eru allir vegir færir þrátt fyrir að vera nærri sjötugu og mér líður eins og ég sé 35 ára,“ sagði Ási að lokum.

Ási á góðri stundu í Eyjum.

Ási hefur komið að skipulagninur ófárra þjóðhátíða Vestmannaeyinga í gegnum tíðina.