Gleðilegt sumar
Gleðilegt sumar

Fréttir

Járngerður hefur átt góð samtöl við Þórkötlu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 27. apríl 2025 kl. 06:00

Járngerður hefur átt góð samtöl við Þórkötlu

Munu Grindvíkingar fylla öll hús í Grindavík á Sjóaranum síkáta?

Um 300 manns eru nú skráðir í hollvinasamtökin Járngerði og þeim fjölgar jafnt og þétt. Félagið, sem var stofnað í lok febrúar til að styðja við samfélagið í Grindavík, hefur haft í mörgu að snúast. Þriðjudaginn 15. apríl var haldinn fundur þar sem stjórn félagsins kynnti hvað hefur verið gert frá stofnun og veitti meðlimum innsýn í framvindu mála. Guðbjörg Eyjólfsdóttir, formaður Járngerðar, segir mikla hreyfingu hafa orðið á málum frá því félagið var stofnað.

„Frk. Járngerður er kannski bara fínt viðurnefni á mig,“ segir hún og brosir. Félagið hafi vakið mikla athygli og fengið tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Guðbjörg bendir á að hún hafi meðal annars komið fram í Kastljósi og að viðbrögðin sýni að fólk taki eftir þeim.

VF Krossmói
VF Krossmói

Að sögn Guðbjargar hafa fulltrúar félagsins átt fjölda funda með áhrifafólki í samfélaginu, þar á meðal Úlfari lögreglustjóra, Erni Viðari hjá Þórkötlu, þingmönnum Suðurkjördæmis og bæjarstjórn Grindavíkur. Einnig hafi þau átt fundi með Grindavíkurnefndinni og fram undan sé fundur með fulltrúum Almannavarna og Veðurstofunnar. „Ég bind miklar vonir við þá fundi,“ segir hún.

Guðbjörg tekur fram að margir vísindamenn séu bjartsýnir á að það versta sé nú yfirstaðið í Grindavík. Landris hafi hægt á sér og nýlegir jarðskjálftar verið fjarri bænum. Hún segist einnig hafa orðið vör við að forsvarsfólk Þórkötlu virðist bundið af hættumati Veðurstofunnar, en vonar þó að samningar um viðverurétt í gömlu húsunum verði kynntir fljótlega.

„Ég er mjög vongóð um að þessir nýju samningar verði okkur hliðhollir og Grindvíkingum gefinn kostur á að gista. Ég vil sjá þetta verða komið í framkvæmd í allra síðasta lagi um Sjómannahelgina,“ segir hún og bætir við að hún sjái fyrir sér hátíðina Sjóarinn síkáti haldna með pompi og prakt.

Guðbjörg telur að um leið og yfirvöld breyti sínum tóni og gefi íbúum kost á að máta sig við nýjan veruleika – hvort sem það sé yfir helgi, í sumarfríinu eða til lengri dvalar – muni „grindvíska stemningin“ lifna við á ný. Hún bendir á að þegar séu á bilinu 600–700 manns að vinna í bænum daglega og hundruð manna gisti þar á hverri nóttu.

„Það er ekki eftir neinu að bíða,“ segir hún og leggur áherslu á að uppbygging verði að hefjast með skynsemi að leiðarljósi. Götur sem enn séu girtar af þurfi að lagfæra og stóru sprungurnar einnig. Hún er sannfærð um að þannig muni lífið smám saman snúa aftur í bæinn.

Þrátt fyrir þá trú að hættan sé að mestu liðin hjá, undirstrikar hún mikilvægi þess að íbúar hlýði öllum rýmingarskipunum. „Við Grindvíkingar erum skynsöm,“ segir hún og nefnir að það hafi ekki verið neitt mál að rýma bæinn í hálfan sólarhring, líkt og oft hefur þurft að gera.

Guðbjörg hvetur íbúa til að vinna með yfirvöldum, en vonast jafnframt til þess að þau fari að vinna meira í samráði við íbúana sjálfa. „Þetta hefur verið allt of mikið ákveðið við eitthvert skrifborð í Reykjavík,“ segir hún og gagnrýnir að ákvarðanataka hafi stundum farið fram án nægilegs skilnings á aðstæðum á staðnum.

Að lokum greinir Guðbjörg frá því að hún og eiginmaður hennar hafi misst leiguhúsnæði sitt í Mosfellsbæ 1. mars og ákveðið að flytja aftur heim til Grindavíkur. „Okkur hefur liðið afskaplega vel að vera komin heim,“ segir hún og vonast til að fleiri Grindvíkingar fái tækifæri til þess sama.