Gleðilegt sumar
Gleðilegt sumar

Íþróttir

Ingibjörg  er fæddur  fyrirliði
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 27. apríl 2025 kl. 06:10

Ingibjörg er fæddur fyrirliði

Bröndby stefnir á Evrópusæti og íslenska landsliðið ætlar sér stóra hluti á EM

Ingibjörg Sigurðardóttir, knattspyrnukona frá Grindavík, er að verða búin að fylla áratug í atvinnumennsku en hún hefur verið lykilleikmaður íslenska landsliðsins undanfarin ár. Í síðustu leikjum í Þjóðardeildinni tókst hún á hendur nýtt hlutverk, var fyrirliði liðsins í tveimur leikjum gegn Noregi og Sviss. Að vera fyrirliði er samt ekkert nýtt fyrir Ingibjörgu, hún hefur alltaf verið leiðtogi í sér, sama í hvaða liði hún hefur leikið.

Í dag leikur hún með Bröndby í Danmörku og telur sig eiga nokkur ár eftir í atvinnumennskunni. Hún mun koma í stutt frí til Íslands eftir tímabilið, mætir þá í brúðkaup systur sinnar áður en hún heldur með íslenska landsliðinu á lokakeppni EM, sem verður haldið í Sviss í sumar.

VF Krossmói
VF Krossmói

Ingibjörg var komin út til Danmerkur eftir landsleikina tvo þegar blaðamaður tók hana tali.

„Ég er á mínu fyrsta tímabili með Bröndby í Köben, var þá búin að vera í Þýskalandi að spila með Duisburg en atvinnumennskan hófst í Svíþjóð og svo hef ég líka leikið í Noregi. Ég kann mjög vel við mig hér í Danmörku, Daninn er líkari okkur Íslendingum en Þjóðverjinn. Ég bý í Bröndby sem er í útjaðri Kaupmannahafnar, það tekur mig um 25 mínútur að komast niður í miðbæ. Ég get nánast labbað á æfingar en tek venjulega strætó. Ég er á mínu níunda ári sem atvinnumaður og hefur þetta verið ofboðslega skemmtilegt og gefandi en ég var ekki gömul þegar ég ætlaði mér þetta, það er alltaf gaman þegar maður nær sínum markmiðum. Ég æfði bæði körfubolta og fótbolta í Grindavík en snemma áttaði ég mig á að ég ætti meiri möguleika á atvinnumennsku í fótbolta, ég hef líklega verið um tíu ára gömul og valdi því þá grein og sé ekki eftir því í dag. Ég hef átt flottan feril en ég er ekkert að spá í því núna því maður vill alltaf meira, ég vil komast eins langt og ég get og eftir ferilinn getur maður horft til baka. Ég verð 28 ára á þessu ári svo ég er hugsanlega á besta aldrinum núna og ætla mér að eiga nokkur góð ár í viðbót í atvinnumennskunni. Íþróttaferill kvenna er venjulega styttri en karlanna og eflaust spilar margt þar inn, barneignir t.d. en við konurnar þurfum líka að undirbúa hvað tekur við að loknum atvinnumannsferlinum, það eru því miður ekki sömu laun í boði í kvennaknattspyrnu. Svo er líkamsbygging kvenna öðruvísi en karla, mér finnst mjög gaman að sjá að félög eru farin að spá miklu meira í styrktarþjálfun í dag en það þekktist nánast ekki þegar ég var að byrja. Vísindin á bak við þessa hluti eru miklu betri í dag, þegar ég var að byrja voru bara allir settir á eins prógramm. Þetta gæti orðið til þess að ferill íþróttakvenna geti lengst og það er auðvitað mjög jákvætt.“

Bröndby

Barna- og unglingastarf félaga á Íslandi er með svipuðu sniði, börn byrja að æfa, jafnvel í 8. flokki og færast svo upp um flokk eftir því sem barnið eldist. Svipað fyrirkomulag er hjá Bröndby en mikil áhersla líka lögð á akademíu.

„Það er auðvitað mikill munur á barna- og unglingastarfi hjá Bröndby eða því sem ég ólst upp við í Grindavík vegna fjöldans. Það búa rúmlega milljón manns í Kaupmannahöfn og Bröndby er mjög vinsælt lið með marga stuðningsmenn og iðkendur. Það eru yngri flokkar hér eins og heima en liðin leggja mikið upp úr akademíu þar sem efnilegustu leikmennirnir eru teknir inn í þær og þjálfaðir betur. Við æfum venjulega á laugardagsmorgnum og áður en við byrjum þá eru börn allt niður í fimm ára sem eru að æfa, það er gaman að sjá þessi ungu börn öll hópast saman í kringum boltann eins og maurar. Eins og heima færast börnin síðan upp um flokk og á einhverjum tímapunkti eru þau efnilegustu tekin inn í akademíuna. Bröndby er líklega sigursælasta lið Danmerkur, alla vega kvennaliðið og er mjög vel staðið að öllu uppbyggingarstarfi samhliða því að meistaraflokksliðin hafa verið sigursæl. Okkur hefur gengið vel á þessu tímabili, það eru þrjú lið að keppast um titilinn en tímabilið hjá okkur er tvískipt, fyrst er leikið frá ágúst fram í nóvember og eftir það er deildinni skipt upp og sex efstu leika um titilinn. Við byrjuðum aftur í mars og síðasti leikurinn er 16. júní svo tímabilið er langt en það kemur gott frí á milli. Ég kem heim, mæti í brúðkaup hjá systur minni og stoppa bara stutt því svo fer landsliðið á EM í Sviss,“ segir Ingibjörg.

Fyrirliði

Ingibjörg hefur alltaf verið fyrirliðatýpa í sér, hefur oft gegnt því hlutverki hjá sínum félagsliðum og í landsleikjunum um daginn bar hún fyrirliðabandið í fjarveru Glódísar Perlu Viggósdóttur.

„Þessir landsleikir í Þjóðardeildinni á móti Noregi og Sviss gengu bara nokkuð vel, við sýndum fínar frammistöður og hefðum getað unnið báða leikina en það er mikilvægt fyrir okkur að halda okkur í A-deildinni í Þjóðardeildinni. Það vantaði nokkra lykilmenn svo við gátum nokkuð vel við unað með jafnteflin. Ég var auðvitað stolt að bera fyrirliðabandið en fann svo sem ekki fyrir neinum mun þegar út í leikina var komið, ég hef alltaf látið vel í mér heyra og hef líklega alltaf verið þessi fyrirliðatýpa í mér. Ég er búin að vera varafyrirliði Glódísar undanfarin ár og þetta var í raun ekkert nýtt fyrir mér og ég fann ekki fyrir neinni aukapressu í leikjunum. Mér finnst ég alltaf spila best þegar ég er með aukna ábyrgð á mér svo það hentar mér vel að bera fyrirliðabandið. Ég er svo nýlega komin í Bröndby-liðið svo ég er ekki með fyrirliðabandið þar en ég haga mér í raun alltaf eins. Við erum sex útlenskar í liðinu, góður andi og ætlum okkur að ná Evrópusæti, þurfum að enda  á meðal þriggja efstu liðanna.

Það verður spennandi að mæta á EM, við ætlum okkur að gera betur en síðast en hversu langt við getum náð er ómögulegt að segja til um núna. Við eigum góða möguleika að fara upp úr riðlinum en þá þurfum við að spila vel og vera skipulagðar. Við erum alla vega ekki mættar bara til að taka þátt, við ætlum okkur að ná árangri og vera landi og þjóð til sóma,“ sagði Ingibjörg að lokum.