Gleðilegt sumar
Gleðilegt sumar

Mannlíf

Lögreglan á Suðurnesjum stofnar samfélagslögreglu
Sunnudagur 27. apríl 2025 kl. 06:00

Lögreglan á Suðurnesjum stofnar samfélagslögreglu

Vilja efla tengsl við ungt fólk og byggja upp traust í nærumhverfinu

Lögreglan á Suðurnesjum hefur stofnað sérstakan hóp samfélagslögreglumanna með það að markmiði að efla tengsl við samfélagið og sérstaklega við börn og ungmenni. Hópurinn mun vinna að fræðslu, forvörnum og nálægri löggæslu þar sem markmiðið er að skapa jákvæð samskipti, aukið öryggi og draga úr ofbeldi.

„Við erum alltaf að leita leiða til að bæta samskiptin við ykkur og nú ætlum við að feta nýjan veg,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni. Með þessu stíga þau skref í átt að markvissari samfélagsvinnu, þar sem hlustað er á raddir fólksins og samstarf er haft að leiðarljósi.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Nýr Instagram-reikningur og heimsóknir í bakarí og skóla

Samfélagslögreglan hyggst nýta samfélagsmiðla til að sýna líf og starf lögreglumanna á jákvæðan og opinn hátt. Í því skyni hefur verið stofnaður Instagram-reikningur þar sem fólk getur fylgst með daglegu starfi lögreglunnar á svæðinu.

„Við ætlum að fara á staði eins og skóla, leikskóla, vinnustaði, félagsmiðstöðvar, sjoppur og bakarí og já, við ætlum líka að komast að því hver gerir bestu kleinuhringina,“ segja þau með léttu ívafi.

Nýverið heimsóttu lögreglumenn Fjölbrautaskóla Suðurnesja í tilefni af starfshlaupi og litu einnig inn á árshátíð Stapaskóla. Slíkar heimsóknir eru liður í þeirri stefnu að fólk upplifi komu lögreglu sem jákvæða nærveru – ekki eingöngu þegar eitthvað bjátar á.

Fyrirbyggjandi löggæsla í samstarfi við samfélagið

Samfélagslöggæsla er alþjóðlega viðurkennd nálgun sem leggur áherslu á samvinnu og gagnkvæmt traust. Hún felst í því að lögregla sé sýnileg og virkur hluti samfélagsins – ekki aðeins í hefðbundnu eftirliti heldur líka í samtali og fræðslu.

„Við viljum vinna í sameiningu að lausnum. Þetta er ekki bara stefna – þetta er leið til að skapa samfélag þar sem allir njóta öryggis og virðingar.“

Lögreglan hvetur skóla, leikskóla og samtök á svæðinu til að hafa samband ef þau vilja fá heimsókn frá samfélagslögreglu – hvort sem er til að fræða börn, spjalla við unglinga eða taka þátt í viðburðum. „Við hlökkum til að hitta ykkur – og munum að sumarið er handan við hornið.“

Leitin að besta kleinuhringnum er hafin hjá Lögreglunni.