Breytingar í röðum rekstrarstjóra Samkaupa
Birkir Einar Björnsson, Bóas Bóasson og Kristín Gunnarsdóttir hafa tekið við nýjum stöðum sem rekstrarstjórar hjá Samkaupum. Þau hafa öll hafið störf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Bóas Bóasson hefur tekið við stöðu rekstrarstjóra Nettó. Bóas kemur til Samkaupa frá Pizzunni ehf. þar sem hann sinnti stöðu framkvæmdastjóra. Áður starfaði Bóas sem rekstrarstjóri McDonalds bæði í Lundúnum og Noregi um árabil. Hann hefur áralanga reynslu af stefnumótun fyrirtækja, stjórnendaþjálfun, markþjálfun og viðskiptaþróun.
Birkir Einar Björnsson hefur starfað hjá Samkaupum í hátt í tvo áratugi bæði sem aðstoðarverslunarstjóri og verslunarstjóri og síðast gæða- og þjónustustjóri Nettó. Birkir hefur lokið diplómanámi í viðskipta- og verslunarstjórnun frá Bifröst og leggur nú stund á BS-nám í viðskiptafræði við sama skóla. Hann hefur tekið við stöðu rekstrarstjóra Kjörbúðarinnar.
Kristín Gunnarsdóttir hefur starfað um árabil hjá Samkaupum, fyrst sem mannauðsstjóri Kjör- og Krambúða og síðar sem rekstrarstjóri verslananna og heldur nú áfram sem rekstrarstjóri Krambúðanna og Iceland verslana. Kristín er með BS-gráðu í sálfræði og meistaragráðu í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Áður starfaði hún meðal annars sem mannauðssérfræðingur hjá mannauðs- og starfsumhverfissviði Reykjavíkurborgar.
„Við hjá Samkaupum leggjum mikla áherslu á að fólkið okkar blómstri í starfi og það er alltaf gaman að líta yfir feril reynslubolta eins og Kristínar og Birkis sem hafa verið hjá okkur lengi, vaxið og dafnað í starfi. Nú svo er alltaf fagnaðarefni að fá flott fólk eins og Bóas til liðs við okkur. Fram undan eru spennandi tímar hjá Samkaupum. Við erum með þessar þrjár öflugu verslanakeðjur sem hafa allar sín sérsvið og veita viðskiptavinum okkar ólíka þjónustu. Þessar skipulagsbreytingar eru liður í að styrkja hvert vörumerki fyrir sig enn frekar til að veita viðskiptavinum okkar frábæra þjónustu og vöruúrval um allt land,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og þjónustu hjá Samkaupum.
Samkaup reka 65 verslanir víðs vegar um landið undir merkjum Nettó, Krambúðarinnar, Kjörbúðarinnar og Iceland. Hjá félaginu starfa um 1.250 starfsmenn í rúmlega 660 stöðugildum.