Stóru Vogaskóli
Stóru Vogaskóli

Fréttir

Miðlun, tengslamyndun og mikilvægi menntunar í náttúruvísindum
Laugardagur 12. apríl 2025 kl. 06:10

Miðlun, tengslamyndun og mikilvægi menntunar í náttúruvísindum

Ráðstefna um menntun í náttúruvísindum var haldin í Sandgerðisskóla í Suðurnesjabæ síðastliðna helgi að frumkvæði Reykjanes jarðvangs. Í undirbúningsnefndinni var fólk frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, félagi raungreinakennara, félagi grunnskólakennara, Science on Stage, Þekkingarsetri Suðurnesja og Reykjanes jarðvangi. Sambærilegar ráðstefnur eru haldnar annað hvert ár víða um land og því ánægjulegt að fá þennan viðburð á Reykjanesið þetta árið. Ráðstefnugestir voru rúmlega 50, kennarar af öllu landinu í leik-, grunn- og framhaldsskólum, ásamt fólki úr háskólasamfélaginu og öðrum sem tengjast menntun í náttúruvísindum.

Ráðstefnan hófst uppúr hádegi föstudaginn 28. mars og lauk með vettvangsferð um Reykjanesið eftir hádegi daginn eftir. Lagt var upp með að virkja þekkingu á svæðinu og nýta aðföng frá heimafólki.

VF Krossmói
VF Krossmói

Dagskráin var mjög spennandi, meðal annars tveir öflugir erlendir fyrirlesarar; Per Arild Konradsen – stofnandi First Scandinavia og Douglas Larkin, prófessor í náttúruvísindamenntun við Montclair State University. Þar fyrir utan byggðist dagskráin að mestu leyti upp af málstofum frá starfandi kennurum sem sögðu frá verkefnum og aðferðum sem þau hafa þróað í sinni kennslu, ásamt fjölbreyttum erindum frá Menntavísindasviði HÍ, umræðum um ný hæfniviðmið, ýmis innlegg um STEM (skammstöfun á ensku yfir Science, Technology, Engineering, Mathematics), aðferðir til að þróa og miðla námsefni – svo fátt eitt sé nefnt.

Þekkingarsetur Suðurnesja bauð heim seinnipart föstudags þar sem Hanna María Kristjánsdóttir forstöðumaður Þekkingarsetursins kynnti þeirra fjölbreyttu og spennandi starfsemi. Ráðstefnugestir nutu veitinga frá veitingaþjónustunni Hjá Höllu sem hefur aðsetur í Sandgerði um þessar mundir og Litla brugghúsið í Garðinum var með kynningu á sinni framleiðslu.

Á laugardagsmorgninum fengu ráðstefnugestir óvæntan bónus en deildarmyrkvi sólar var mjög sýnilegur af svölunum í Sandgerðisskóla, ekki ský á himni og því fullkomnar aðstæður til að upplifa þennan sjaldgæfa atburð.

Eftir hádegi á laugardag var farið í 4 fjögurra tíma vettvangsferð um Reykjanes undir leiðsögn Ólafs Jóns Arnbjörnssonar frá GeoCamp Iceland. Reykjanesið skartaði sínu fegursta, með sól og hressandi golu. Systurnar Nanný og Þórey Garðarsdætur komu hópnum á óvart við Gunnuhver, með heitu hverabökuðu rúgbrauði og fróðleik um svæðið. Í lok ferðar fengu gestir að sjá með eigin augum áhrif eldgosa og jarðskjálfta í Grindavík og við Svartsengi. Það lætur engan ósnortinn að sjá þær hamfarir sem þar hafa gengið yfir á undanförnum mánuðum, en þetta var jafnframt góð áminning um mikilvægi náttúruvísinda, átthagaþekkingu, STEM og verkvits í skólakerfinu.

Svona ráðstefna er mikilvægur liður í faglegu starfi kennara sem koma að náttúrufræðikennslu, enda er þetta tengslamyndunarviðburður þvert á skólastig og fög –mikilvæg kennsla í náttúrufræðum á sér stað alveg niður í yngstu börn leikskóla og oft er slíkri fræðslu sinnt af öðrum en þeim sem formlega titla sig sem náttúruvísindakennarar. Því er dýrmætt að skapa vettvang til samtals milli kennara frá mismunandi skólum á ólíkum stigum af öllu landinu.

„Ég tek alltaf eitthvað nýtt með mér af ráðstefnum og þessir dagar voru engin undantekning. Að hitta aðra kennara og deila reynslu var ómetanlegt. Eftir þessa ráðstefnu er ég með margar nýjar hugmyndir um hvernig ég get samþætt STEM í mína kennslu. Ráðstefnan var ekki bara fróðleg, heldur einnig hvetjandi - ég er full af innblæstri,“ sagði Hildur Sigfúsdóttir, náttúruvísindakennari í Heiðarskóla.