Njarðvík með stórsigur á Álftanesi og bjuggu sér til líflínu
Stemningin í Icemar-höll Njarðvíkinga var rafmögnuð þegar heimamenn mættu Álftnesinum þriðja sinni í kvöld en Njarðvíkingar voru með bakið upp við vegginn, höfðu tapað fyrstu tveimur leikjunum í seríunni og urðu að vinna til að halda sér á lífi. Eftir að hafa verið komnir átta stigum undir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, upphófst ótrúlegur 28-1 kafli Njarðvíkinga sem skilaði sér í öruggum stórsigri, 105-74.
Leikurinn var jafn meira og minna allan fyrri hálfleikinn, Álftanes byrjaði aðeins betur en Njarðvík var samt aldrei langt undan og þeir komumst yfir í fyrsta skipti þegar tvær mínútur voru búnar að öðrum leikhluta. Álftanes átti næsta leik og Njarðvíkingar voru hálf værukærir, tvisvar sinnum misstu þeir varnarfrákast og upp úr einu sóknarfrákastinu fékk Mario Matasovic dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Svona sofandaháttur getur verið dýrkeyptur og allt stefndi í að Álftanes labbaði inn í hálfleikinn með þægilegt forskot en Njarðvík náði með baráttu að koma til baka og óíþróttamannsleg villa var dæmd á Álftanes út frá baráttu inn í teig Álftnesinga. Allt í einu var augnablikið búið að snúast með Njarðvíkingum og þeir náðu að ganga til hálfleiks með eins stigs forystu, 49-48.
Ótrúlegur kafli kom í seinni hálfleik, það var eins og Njarðvíkingar hefðu sett plastfilmu yfir sína körfu, Álftnesingum var algerlega fyrirmunað að skora, þökk sé frábærri svæðisvörn Njarðvíkinga. Loksins fór ⅓ vítum Álftnesinga niður þegar tæpar fjórar mínútur lifðu þriðja leikhluta! Álftanes tók leikhlé en þá var staðan 19-1 í leikhlutanum en þar fyrir utan hafði Njarðvík skorað síðustu níu stig fyrri hálfleiks, 28-1! Leikhlutinn endaði 25-7, Álftnesingar náðu aðeins að rétta hlut sinn í lokin!
Það mátti eitthvað mikið gerast svo útkoman úr þessum leik ætti að verða eitthvað annað en heimasigur. Njarðvík kom hins vegar í veg fyrir nokkurt kraftaverk og sigldi sigrinum örugglega í hús, lokatölur .
Það munaði miklu fyrir Njarðvík að Dwayne Lautier-Ogunleye fann loksins fjöl sína, hann var aðeins tveimur fráköstum frá þrefaldri tvennu, endaði með 26 stig, 8 fráköst og 11 stoðsendingar. Dominykas Milka var líka frábær, endaði með 24 stig og 13 fráköst. Mario Matasovic líka flottur, endaði með tvennuna, 16 stig og 13 fráköst.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi sería mun þróast eftir þessar síðustu mínútur í fyrri hálfleik og þriðja leikhlutann. Álftnesingar fundu engin svör við svæðisvörn Njarðvíkinga, langt síðan annar eins viðsnúningur hefur sést á körfuboltavellinum. Njarðvíkingar búnir að finna sjálfstraustið og verður næsti leikur fróðlegur að sjá.