Stóru Vogaskóli
Stóru Vogaskóli

Mannlíf

Týnda Bakaríið  í Innri-Njarðvík er auðfundið
Jón Árni Haraldsson og Elvar Hauksson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 12. apríl 2025 kl. 06:00

Týnda Bakaríið í Innri-Njarðvík er auðfundið

Félagarnir Elvar Hauksson og Jón Árni Haraldsson kynntust þegar þeir lærðu til bakara í Menntaskólanum í Kópavogi árið 2016. Þeir hafa unnið hér og þar við iðnina síðan þá, Elvar var fluttur í Innri-Njarðvík en Jón hafði búið í Grindavík í þrjú ár fyrir rýmingu í nóvember 2023. Félagarnir voru búnir að vera spá í að opna bakarí í Innri-Njarðvík og í kjölfar hamfaranna í Grindavík ákvað Jón og hans fjölskylda að flytja í Innri-Njarðvík og leitin að húsnæði fyrir bakaríið hófst. Leitin skilaði árangri í desember, þeir stukku á tækifærið, rifu allt innan úr húsinu og standsettu fyrir bakarí sem þeir opnuðu fimmtudaginn 3. apríl.

Langir vinnudagar

Viðtökurnar hafa farið langt fram úr væntingum félaganna að sögn Elvars en hvað fékk hann til að skella sér í bakarann á sínum tíma og hvernig kann hann við vinnutímann?

VF Krossmói
VF Krossmói

„Ég prófaði þetta á sínum tíma og fann strax að þetta ætti vel við mig. Það er ekki fyrir alla að vinna á nóttunni enda leitar líkaminn alltaf í að vilja vera í hvíld á nóttunni, maður finnur það alveg. Þetta venst hins vegar. Ég fann eftir grunnskóla að mig langaði að fara vinna, prófaði þetta og áhuginn hefur bara aukist eftir því sem ég bætti á mig menntuninni. Það hefur lengi verið draumur hjá okkur að reka okkar eigið bakarí og er ég hæst ánægður með afraksturinn hjá okkur Jóni að hafa komið þessu fyrirtæki á legg.

Elvar Hauksson

Þetta er ört vaxandi samfélag hér og ég get ekki sagt annað en viðtökurnar hafi verið mjög góðar. Við höfum selt allt alla dagana og búið að vera fullt frá morgni til lokunar. Við vorum nokkuð vissir um að grundvöllur væri fyrir að opna bakarí hér því það búa það margir í Innri-Njarðvík, okkur skilst að þetta sé orðinn fjölmennasti hluti Reykjanesbæjar. Ég og konan mín erum frá Reykjavík og við bjuggum þar en ákváðum að setjast að í Innri-Njarðvík árið 2019 og höfum kunnað mjög vel við okkur. Við Jón höfum þekkst síðan við lærðum saman og höfðum lengi talað um að gaman yrði að opna saman bakarí og vorum búnir að vera skima eftir húsnæði en meiri alvara kom síðan í það eftir að hann og fjölskylda hans neyddust til að flytja frá Grindavík og fluttu hingað. Þetta húsnæði datt svo upp í hendurnar á okkur og við ákváðum að láta slag standa, fórum að leita að tækjum og það gekk vel, einn ofninn kemur t.d. frá Mosfellsbakaríi í Mosfellsbæ, annar frá Reyðarfirði. Það var ekki erfitt að komast á snoðir um tæki og tól, bakarasamfélagið á Íslandi er ekki stórt en er samt sem áður mjög öflugt.

Þetta hafa verið langir vinnudagar, bæði að koma öllu í stand og breyta húsnæðinu í bakarí, svo hefur verið brjálað að gera síðan við opnuðum en við kvörtum ekki, þetta er svokallað lúxusvandamál við að eiga“, segir Elvar.

Jón Árni Haraldsson
Hjólið ekki fundið upp en ýmislegt hægt að gera við það

Líf bakarans er að vakna fyrir allar aldir og það á svo sannarlega við um félagana, annar er byrjaður að hnoða í fyrsta deigið kl. eitt að nóttu, hinn mætir kl. fimm, svona skipta þeir vikunum á milli sín. Sem betur fer eiga þeir góða fjölskyldu sem hefur hlaupið undir bagga með þeim og þegar blaðamann bar að garði, var Margeir, bróðir Jóns, við afgreiðslukassann og var stöðugur straumur fólks þann tíma sem blaðamaður staldraði við. Eiginkonur þeirra beggja hafa að auki staðið vaktina við afgreiðslu frá opnun og hlaupið í hin og þessi störf tengd bakaraíinu undanfarna mánuði með strákunum.

Jón segir að Skinkuslaufan sé búin að vera vinsæl og svo hafa kleinuhringirnir og kleinurnar vakið verðskuldaða athygli, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Á meðan blaðamaður var inni kom kona sem sagði að barnabarnið sitt hefði smakkað hjá þeim kleinurnar og hafði orð á því að þetta væru bestu kleinur sem hann hefði nokkurn tíma smakkað!

„Ætli það sé ekki grófmöluðu kardimommurnar sem gera útslagið í kleinunum okkar, þær eru mjög bragðgóðar og auðvitað viljum við reyna búa okkur til okkar sérstöðu en það er kannski ekki auðvelt að finna upp hjólið í bakstri, hins vegar er hægt að gera ýmislegt við hjólið. Skinkuslaufurnar okkar hafa verið mjög vinsælar en við munum alltaf gera allt frá grunni. Súrdeigsbrauðin eru og munu líklega alltaf vera vinsæl og svo erum við að prófa okkur áfram með ýmislegt, þar hafa beyglurnar komið sterkar inn og fengið góðar viðtökur. Mér finnst ekki ólíklegt að við munum gera okkar eigin salöt þegar fram líða stundir, það finnst flestum gott að setja gott salat ofan á nýbakað brauð, við munum skoða það en þessir fyrstu dagar fara svolítið í að sjá hvernig landið liggur. Móttökurnar hafa verið ofboðslega góðar og við hlökkum til að þjónusta fólkið hér í kring. Við stefnum á að bjóða upp á tertur og kökur við hin ýmsu tilefni eins og fermingar, brúðkaup o.fl. Nú þegar eru nokkur fyrirtæki komin í reikning hjá okkur, það er gott að hafa fastan kjarna á hverjum morgni, það og fólkið af götunni er gott í bland. Við erum með barnahorn, það var mikið notað í aðdraganda opnunarinnar því við vorum hér með konunum okkar að gera allt klárt og börnin léku sér á meðan.“

Frá vinstri, Kristín Snæfríður Sigurðardóttir, eiginkona Elvars, Elvar, Jón Árni og Rakel Birna Björnsdóttir, eiginkona Jóns Árna.

Aðrir njóta góðs af traffíkinni

Búið var að byggja sólpall og sjá félagarnir fyrir sér að hann nýtist vel í sumar.

„Við munum pottþétt nýta sólpallinn í sumar, það er fátt betra en sitja í sólinni og gæða sér á nýbökuðu bakkelsi og kaffi, vonum bara að það verði nóg af sólinni í sumar. Við erum líka ánægðir með að heyra frá þeim sem eru með Kram-búðina hér við hliðina á okkur, það er búin að vera miklu meiri traffík hjá þeim síðan við opnuðum svo þetta tvennt helst vel í hendur, fólk kaupir í matinn og kaupir nýbakað hjá okkur” sagði Elvar.

Við Elvar vorum farnir að spá í þessu áður en ég þurfti að rýma Grindavík, það hefði ekki verið mikið mál að keyra á milli en okkur fjölskyldunni hefur liðið mjög vel hér í Innri-Njarðvík og fyrst við erum komin með eigin rekstur hér, geri ég ekki ráð fyrir að við munum flytja aftur til Grindavíkur en þó veit maður aldrei. Við vorum búin að búa þar í þrjú ár og dýrkuðum samfélagið en núna er nýr kafli tekinn við og við hlökkum til að baka gómsætt ofan í gesti og gangandi hér í Innri-Njarðvík. Við Elvar munum kappkosta að bjóða upp á fyrsta flokks gæði og tökum öllum opnum örmum,“ sagði Jón að lokum.