DJÚKBOXIÐ býður í partý í Berginu í Hljómahöll
Óskalög, open mic og hægt að grípa í hljóðfæri.
„Þeir vildu fá gítarleikara af svæðinu til að spila með sér í Berginu,“ segir keflvíski gítarleikarinn Þorvarður Ólafsson en hann mun troða upp með hljómsveitinni DJÚKBOXINU í Berginu síðasta vetrardag, miðvikudagskvöldið 23. apríl. Ásamt Þorvarði mun hljómborðsleikarinn Helgi Georgsson sem býr í Innri-Njarðvík, bætast í hópinn og má gera ráð fyrir öðruvísi skemmtun en fólk er vant.
Þorvarður er ánægður að vera orðinn hluti af þessari hljómsveit.
„Ég var búinn að vera í sambandi við einn þeirra, Grindvíkinginn Sibba en ásamt honum eru Heiðar Kristinsson á trommur en hann er þekktastur fyrir að hafa lamið húðir hjá Buttercup í kringum aldamótin, og Þorgils Björgvinsson leikur á bassa. Þorgils hefur leikið með mörgum af þekktari hljómsveitum Íslands eins og Nýdönsk og er í Sniglabandinu í dag. Kannski það athyglisverða við Þorgils, hann var gítarleikari í Nýdönsk og er í þeirri stöðu í dag hjá Sniglabandinu. Ótrúlega fjölhæfur tónlistarmaður og getur auk þess sungið og raddað.
Pæling Sibba var að hóa okkur nokkrum héðan úr Reykjanesbæ saman og spila hér og þegar þetta tækifæri kom upp í Berginu í Hljómahöll, leitaði hann til mín. Ég vona að liðið í kringum mig mæti, ekki af því að þau eigi að gera mér greiða, ég veit að við erum að fara bjóða upp á öðruvísi skemmtun en þessi hljómsveit, DJÚKBOXIÐ, er að gera hlutina öðruvísi. Ég hef troðið upp með þeim áður, bæði í lokuðum vinnustaðagiggum og eins á opinberum stöðum og er magnað að sjá hvað það verður mikið flæði til þegar fólkið í salnum getur valið sín óskalög, stigið á stokk og sungið og þess vegna ef gítarleikari er í salnum, þá rétti ég honum gripinn glaður og fæ mér sæti á meðan. Á sumum giggum þurftum við í raun að biðja þá söngþyrstustu að taka sér smá pásu, það var alltaf einhver á sviðinu! Við höfum verið að æfa, verðum með 30-40 lög á tipp topp hreinu en svo mun fólk geta qr-skannað kóða og dettur þá inn á söngbók sem í verða á bilinu 100-150 lög, þegar fram líða stundir verður ekkert þak á fjölda laganna! Þetta gerir starf okkar tónlistarmannanna meira spennandi, að þurfa að takast á við lag sem maður hefur kannski ekki æft 100% en gerir sitt besta. Við erum með textann og hljómana fyrir framan okkur og ef maður þekkir lagið, getur maður reddað sér en undantekningarlaust hefur fólk verið ánægt með að við reynum að flytja viðkomandi lag. Það hefur komið fyrir að lagið er ekki á listanum okkar en er mjög líklega inni á Guitarparty sem við notum, og ef við þekkjum það látum við einfaldlega vaða og sjáum hvað gerist. Þetta er ofboðslega skemmtilegt og mér líst mjög vel á mig í þessu bandi, við syngjum allir og röddum, þeir hafa verið að semja og gefa út, ég hlakka til að taka þátt í því með þeim.
Það var gaman að fá austfirska Innri-Njarðvíkinginn Helga Georgs með á hljómborð, hann er fanta góður á því, bæði raddar og syngur eins og engill og er auk þess frábær félagi. Við lofum miklu stuði og hvetjum fólk til að kaupa sér miða sem fyrst inn á Tix.is, það eru bara 100 miðar í boði og við ákváðum að stilla miðaverði í hóf, 2900 kr,“ sagði Þorvarður að lokum.