SSS
SSS

Mannlíf

Unglingar í Heiðarskóla styrktu Minningarsjóð Bryndísar Klöru með styrktarsýningu
Laugardagur 12. apríl 2025 kl. 06:15

Unglingar í Heiðarskóla styrktu Minningarsjóð Bryndísar Klöru með styrktarsýningu

Leiklistarval Heiðarskóla safnaði 103.000 krónum til styrktar Minningarsjóði Bryndísar Klöru með sérstakri styrktarsýningu sem haldin var í sal skólans í síðustu viku. Sýningin var hluti af hefð sem hefur skapast í skólanum, þar sem unglingarnir velja sjálfir það málefni sem þeir vilja styrkja með list sinni og samstöðu.

„Það hefur skapast hefð hjá okkur að setja upp styrktarsýningu á hverju ári og styðja gott málefni. Krakkarnir koma sjálfir með tillögur og velja það sem þeim liggur á hjarta. Í ár féll valið á Minningarsjóð Bryndísar Klöru og við erum afar stolt af því að geta lagt þessu fallega framtaki lið,“ segja leikstjórar sýningarinnar, þær Guðný Kristjánsdóttir, Brynja Ýr Júlíusdóttir og Esther Inga Níelsdóttir.

Sýningin sló í gegn og aukasýningar gengu vel – enda var um hjartnæma og skemmtilega sýningu að ræða sem höfðar jafnt til barna og fullorðinna. „Við fengum líka ótrúlega falleg viðbrögð frá þeim sem halda utan um sjóðinn og það hlýjar hjartanu að finna að maður geti gefið af sér á þennan hátt,“ segir leikstjórnarteymið.

VF Krossmói
VF Krossmói

Frá Minningarsjóði Bryndísar Klöru bárust einlægar kveðjur í kjölfar sýningarinnar:

„Við erum hreinlega orðlaus – svo fallega gert af þeim og ykkur. Við erum líka viss um að þetta hafi verið frábær sýning. Við hjá sjóðnum sendum ástarkveðjur og þakkir til ykkar allra.“ Foreldrar Bryndísar bættu við: „Við erum mjög hrærð yfir þessu framtaki. Þetta er svo sannarlega óvænt góðverk sem veitir yl í hjörtu okkar.“

Það er ljóst að leikarar og allt það góða fólk sem kom að sýningunni finna fyrir stolti og gleði yfir því að geta stutt við svo kærkomið málefni. Framtakið minnir okkur á mátt samstöðu, hlýju og sköpunar – og sýnir hversu mikið ungt fólk getur haft áhrif þegar það kemur saman af heilum hug.