SSS
SSS

Íþróttir

Vængbrotnir Grindvíkingar töpuðu í hörkuleik, oddaleikur framundan
Daisha Bradford var besti leikmaður Grindavíkur.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 12. apríl 2025 kl. 18:55

Vængbrotnir Grindvíkingar töpuðu í hörkuleik, oddaleikur framundan

Grindavík mætti liði Hauka í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Bónusdeildar kvenna í Smáranum í dag. Grindavík vann fyrstu tvo leikina en Haukakonur minnkuðu muninn í síðasta leik. Lið Grindavíkur var vængbrotið, eins og allir vissu sleit fyrirliðinn Hulda Björk Ólafsdóttir krossbönd í fyrsta leiknum og eins og það væri ekki nóg, þá lenti miðherjinn Ísabella Ósk Sigurðardóttir í bílslysi í vikunni og gat ekki leikið.

Haukar voru með frumkvæðið í fyrsta leikhluta en þó aldrei þannig að mikill munur myndaðist, aldrei varð munurinn meiri en fimm stig. Haukar leiddu eftir fyrsta leikhluta, 22-26.

Sami barningur var í öðrum leikhluta. Grindavík spilaði svæðisvörn sem gaf ágætis raun og hinum megin brutu Haukar meira sem leiddi til þess að Grindavík var komið í bónus þegar rúmar mínútur voru eftir af leikhlutanum, Grindavík á sama tíma bara með eina villu í leikhlutanum. Haukar komust fimm stigum yfir, 30-35 en þá komu átta grindvísk stig í röð. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði hálfleiksins og staðan að honum loknum, 44-42 fyrir Grindavík.

VF Krossmói
VF Krossmói

Daisha Bradford var mjög áberandi í stigaskorun Grindavíkurvikur, var komin með 24 stig en var samt ekki að hitta vel fyrir utan þriggja stiga línuna, einungis búin að nýta 1/7 slíkum skotum.

Grindavík leiddi lengstum í þriðja leikhluta en aldrei með miklum mun, fjórum stigum mest. Sofie Tryggedson fékk sína fjórðu villlu þegar leikhlutinn var hálfnaður og þá var liðið frekar lágvaxið. Haukakonur nýttu sér það og komust yfir með þristi þegar mínúta lifði leikhlutans en Sóllilja Bjarnadóttir jafnaði með þristi hinum megin. Haukar settu næstu fjögur stig en Marian Duran setti tvö víti og Haukar leiddu með tveimur stigum fyrir lokaleikhlutann, 62-64.

Mikil barátta var í fjórða leikhlutanum, Daisha Bradford fékk smá hvíld í byrjun en svo komu hún og Sofie inn á og Grindavík tók frumkvæðið, í stöðunni 73-69 tóku Haukar leikhlé og rúmar fimm mínútur eftir í þessum æsispennandi leik. Næstu fimm stig voru Hauka en Ena Viso kom Grindavík yfir þegar 2:20 voru eftir. Haukar leiddu með tveimur stigum þegar 1:20 voru eftir og settu þrist, komu muninum þar með upp í fimm stig og Grindavík tók leikhlé. Mariana Duran skoraði strax tveggja stiga körfu en Haukar settu annan þrist og munurinn upp í sex stig. Ólöf Rún Óladóttir svaraði með þristi, 39 sekúndur eftir og Haukar tóku leikhlé. Haukar skoruðu ekki, Ólöf Rún átti annan þrist sem snerist upp úr körfunni en Grindavík átti boltann, 11 sekúndur eftir og Lalli tók leikhlé, þvílíkur leikur! Þriggja stiga skot Daisha Bradford rétt geigaði og Haukasigur staðreynd, 81-86.

Daisha var stigahæst með 31 stig og tók 13 fráköst, Mariana Duran skoraði 16 og tók 9 fráköst og Sofie Tryggedson skoraði 10 stig og tók 9 fráköst.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu vængbrotinna Grindvíkinga, dugði það ekki til og oddaleikur framundan á miðvikudagskvöld í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði.