Eðvarð Þór gerður að heiðursfélaga SSÍ
Davíð Hildiberg fékk silfurmerki og Guðrún Pálsdóttir sjálfboðaliði ársins
Á sundþingi SSÍ um þar síðustu helgi voru nokkrir félagar úr ÍRB heiðraðir af Sundsambandi Íslands fyrir mikið og gott framlag til sundíþróttarinnar á Íslandi. Þar bar hæst að hinn ástsæli og ötuli þjálfari og fyrrum sundmaður Eðvarð Þór Eðvarðsson var gerður að heiðursfélaga SSÍ.
Í ágripi um Eðvarð voru þessar línur fluttar:
„Eðvarð Þór Eðvarðsson hefur sett mark sitt á sundíþróttina um árabil. Fyrst sem sundmaður en hann byrjaði að æfa sund hjá Njarðvík 8 ára gamall, seinna sem afreksmaður í sundi og síðast en ekki síst sem farsæll þjálfari. Hann hefur verið merkisberi sundíþróttarinnar í Njarðvík og á Íslandi í tæplega 50 ár. Eðvarð Þór státar af einum besta sundferli sem íslenskur sundmaður hefur átt og náð frábærum árangri hér heima og á alþjóðlegum vettvangi. Árið 1986 var hann kjörinn íþróttamaður ársins. Það ár var hann fyrstur íslenskra sundmanna til að komast í úrslit á heimsmeistaramóti í sundi. Hann setti jafnframt Norðurlandamet á mótinu. Árið 1988 komst hann í 16. manna úrslit á Ólympíuleikum. Þá hefur Eðvarð Þór sett fjölda Íslandsmeta á ferlinum. Þegar keppnisferlinum lauk átti UMFNog sundíþróttin í heild sinni því láni að fagna fá Eðvarð til starfa sem þjálfara og stendur sundhreyfingin í heild í mikilli þakkarskuld við hann fyrir það. Hann hefur verið góð fyrirmynd og afar farsæll þjálfari. Með sínu góða starfi hefur hann glætt sjálfstraust og keppnisanda óteljandi ungmenna og hjálpað þeim til að verða ekki eingöngu betri sundmenn, heldur betri einstaklingar sem sýna samferðafólki sínu virðingu og sinna þeim verkefnum sem þau takast á við í lífinu með dugnaði, elju og samviskusemi.“

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson silfurmerki SSÍ
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson var einnig heiðraður af Sundsambandi Íslands en hann hlaut silfurmerki SSÍ. Davíð var í landsliði Íslands í sundi og varð sundmaður ársins 2017. Það ár varð hann einnig Norðurlandameistari í baksundi. Hann kom að gerð mannvirkjaskýrslu SSÍ, þar sem hann lagði til úrbætur á sundlaugum og aðstöðu fyrir iðkendur.

Guðrún Pálsdóttir sjálfboðaliði ársins
Guðrún Pálsdóttir ÍRB var síðan valin sjálfboðaliði ársins ásamt Pámeyju Magnúsdóttir úr SH.
Eins og lýsing SSÍ sagði um þær: „Þær eru orkubombur sem veigra sér ekki við að halda uppi heilu sundmótunum og skemmtununum með öllu sem því tilheyrir og fara svo heim í pásunni og skella í nokkra Marengsbotna.“