Landhelgisgæslan
Landhelgisgæslan

Íþróttir

Grindavík með frábæran sigur á Valsmönnum á Hlíðarenda
Daniel Mortensen (22) var frábær í kvöld.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 10. apríl 2025 kl. 21:22

Grindavík með frábæran sigur á Valsmönnum á Hlíðarenda

Grindvíkingar mættu fullir sjálfstrausts á Hlíðarenda í kvöld og mættu Valsmönnum í þriðja leik liðanna í rimmu sinni í 8-liða úrslitum Bónusdeildar karla. Grindavík jafnaði seríuna í síðasta leik og tóku sjálfstraustið með sér úr þeim leik. Grindavík var betra liðið meira og minna allan leikinn en Valur leiddi þó með einu stigi í hálfleik, 41-40. Grindavík tók svo völdin í sínar hendur í seinni hálfleik og vann að lokum öruggan sigur, 75-86.

Vörn Grindvíkinga var mjög sterk í fyrri hálfleik, þeir byrjuðu mun betur en þó var Valur með forystu eftir fyrsta leikhlutann, 16-15. Grindvíkingar komu miklu sterkari til leiks í öðrum, vörnin áfram mjög góð og Valsmenn voru í mestu erfiðleikum með að finna leiðina að körfunni. Ólafur Ólafs kom Grindavík í tíu stiga forystu þegar rúmar fimm mínútur lifðu fyrri hálfleiks, 28-18 og má sjá á litlu skori Valsmanna hversu sterk vörn Grindavíkur var. Valsmenn eru eldri en tvæ vetur í bransanum og komu til baka með næstu fimm stig. Valsmenn voru betri það sem eftir lifði fyrri hálfleiksins og Valsmenn gengu til pásu með eins stigs forskot, 41-40.

Liðin voru jöfn í byrjun seinni hálfleiks en Grindavík breytti stöðunni úr 50-46 í 52-56 fyrir lokafjórðunginn. Grindavík tók frumkvæðið fljótlega í fjórða leikhlutanum, voru að setja stóru skotin niður og sókn Valsmanna tilviljunarkennd hinum megin. Grindavík komst í tíu stiga forystu þegar rúmar sex mínútur voru eftir og Valsmenn tóku leikhlé. Valsmenn vöknuðu og náðu að minnka muninn í sex stig og þá tók Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur, leikhlé. 66-72 og tæpar fjórar mínútur eftir af leiknum. Deandre Kane kom með risastóran þrist út úr leikhléinu, níu stiga munur, þriggja stiga skot Kristins Pálssonar klikkaði og Daniel Mortensen setti körfu og munurinn kominn í ellefu stig og Valsmenn tóku aftur leikhlé. Allt kom fyrir ekki, frábær Grindavíkursigur staðreynd, 75-86.

VF Krossmói
VF Krossmói

Daniel Mortensen náði sér heldur betur vel á strik í kvöld, setti 4/7 þristum sínum niður, skoraði 18 stig og tók 15 fráköst, framlag upp á heila 34! Deandre Kane stendur alltaf fyrir sínu, setti stór skot þegar á þeim þurfti að halda og vörn kappans er alltaf fyrsta flokks. Það skemmdi ekki fyrir að fyrirliðinn, Ólafur Ólafsson, sýndi loks sitt rétta andlit, endaði með flotta tvennu, 14 stig 10 fráköst. Arnór Tristan kom sterkur af bekknum en yfir höfuð var þetta sigur liðsheildarinnar og Grindavík getur tryggt sig í undanúrslitin með sigri á „heimavelli“ sínum í Smáranum á mánudagskvöld.