Guðjón kominn með annan fótinn í fjögurra manna úrslitin í getraunaleiknum
Guðjón Guðmundsson er kominn með annan fótinn í fjögurra manna úrslitin í tippleik Víkurfrétta, hann þarf bara sjö leiki í viðbót til að koma sér upp í fjórða sætið og m.v. að hafa tekið tólf og svo átta leiki, hljóta líkurnar að vera honum í vil. Hann vann Þorstein Kristinsson um helgina, 8-7 og þar sem enginn nýr áskorandi á möguleika á að komast í hóp efstu fjögurra, var ákveðið að gera styrktaraðila leiksins, Sigurði Óla Þórleifssyni, hjá Njóttum ferðum, sem hæst undir höfði og mun hann glíma við Guðjón á næsta seðli.
Siggi Óli er í skýjunum með viðtökurnar sem Njóttu ferðir hafa fengið en nýlega bætti hann við vöruúrvalið sem fyrirtækið býður upp, æfingaferðir til Spánar en nokkur knattspyrnulið af Suðurnesjunum nýttu sér þennan valkost á dögunum.
„Ég get ekki annað en verið himinlifandi með viðtökurnar sem Njóttu ferðir hafa fengið. Ég er búinn að missa töluna á knattspyrnuþyrstum Íslendingum sem hafa farið til Englands á leiki en við bjóðum upp á ferðir hvert sem er. Nýlega bætti ég við æfingaferðum til Spánar fyrir knattspyrnulið og gaman frá því að segja að lið Grindvíkinga, Víðis og Njarðvíkur prófuðu og voru í skýjunum með aðstæðurnar og aðbúnaðinn sem var í boði. Ég held að mörg íslensk lið eigi eftir að nýta sér þennan valkost í framtíðinni.
Það var kominn tími á að stofna fyrirtæki utan um þetta og er ég mjög ánægður hvernig Njóttu ferðir hefur verið tekið. Ég hlakka mikið til að aðstoða fólk við að láta draum sinn um að horfa á uppáhaldsliðið sitt í útlöndum, rætast. Enska deildin er sú vinsælasta og eðlilega fara flestir þangað en það kemur fyrir að við fáum beiðni um framandi slóðir. Ég hef ekki enn þurft að segja viðkomandi að ég geti ekki útvegað miða.
Fyrir utan Njóttu ferðir er ég auðvitað á fullu með Mustad autoline, við þjónustum allt sem viðkemur línuveiðum. Svo má ekki gleyma knattspyrnunni í Grindavík, ég er varaformaður og er með formanninn, Hauk Einarsson, í vinnu hjá mér. Við vinnum hlutina skemmtilega saman og erum mjög spenntir fyrir komandi knattspyrnusumri,“ sagði Sigurður Óli.
Vantar bara sjö leiki
Guðjón er eldri en tvæ vetur og veit að hættulegt getur verið að fagna sigri of snemma.
„Ég mun halda jarðtengingunni, það þýðir ekki að taka tappann úr kampavínsflöskunni of snemma. Það getur líka verið hættulegt að mæta andstæðingi sem hefur hvorki að neinu að keppa né einhverju að tapa. Ég sé fyrir mér að dómarinn knái mæti sultuslakur til leiks og oft gerast þá góðir hlutir. Ég þarf bara að einbeita mér að mínum leik og ef ég næ ekki tilskildum leikjafjölda þá átti ég bara ekki skilið að komast í fjögurra manna úrslitin,“ sagði Guðjón að lokum.