HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Erum góðir þegar orkan er rétt
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 15. apríl 2025 kl. 09:40

Erum góðir þegar orkan er rétt

Grindavík fékk aðeins 27 stig á sig í seinni hálfleik á móti Val og vann öruggan sigur og seríuna þar með 3-1.

Grindvíkingar eru kátir í dag, daginn eftir að farseðillinn í undanúrslit Bónusdeildar karla var tryggður eftir sigur á Íslandsmeisturum Vals. Vörn Grindvíkinga var frábær í seinni hálfleik, Valsmenn skoruðu einungis 27 stig!

Það má segja að ákveðin grýla hafi verið kveðin í kútinn en Grindavík hafði ekki unnið á Hlíðarenda í nokkur ár, Valsmenn höfðu slegið Grindavík úr úr bikarnum á þessu og síðasta tímabili og síðast en ekki síst, unnið Grindavík í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor eftir oddaleik að Hlíðarenda.

Jóhann Þór Ólafsson var ánægður þegar blaðamaður tók hann tali en í leiðinni geirnegldur við jörðina.

VF Krossmói
VF Krossmói

„Það má segja það já, Valsmenn hafa haft tak á okkur undanfarin ár og því var gott að koma þessum apa af bakinu okkar. Heilt yfir vorum við mjög góðir í þessari seríu og ég minni á að við vorum ekki langt frá því að vinna fyrsta leikinn. Ég held að þetta hafi verið sanngjarn sigur hjá okkur, við vorum betri en Valsmenn í þessari seríu. 

Varðandi leikinn í gærkvöldi þá vorum við frekar flatir til að byrja með, fundum ekki þessa orku sem gerir okkur svo góða og þegar hún er ekki til staðar þá erum við lélegir á báðum endum vallarins. Okkur gekk ekkert að skora til að byrja með og oft fylgir þá að fá auðvelda körfu í bakið en sem betur fer náðum við jafna orku Valsmanna í öðrum leikhluta svo það munaði ekki nema tíu stigum í hálfleik. Ég þurfti enga hárþurrku-ræðu í hálfleiknum, ég þurfti bara að fá menn til að vakna og koma með fulla orku í seinni hálfleikinn og það gekk eftir. Þegar við spilum þannig erum við bara einfaldlega mjög góðir á báðum endum vallarins, vörnin er stolt okkar, við vorum fáranlega góðir varnarlega í seinni hálfleik í gær og þá virðist sóknin einhvern veginn sjálfkrafa fylgja með. Að halda frábæru Valsliði í 27 stigum í seinni hálfleik segir allt sem segja þarf um frábæra frammistöðu okkar varnarlega í gær. Ég er mjög ánægður með þetta og það er góð tilfinning að vera kominn með liðið í undanúrslit.

Við fáum fínan tíma núna til að jafna okkur en ég er ekkert farinn að spá í hverjum við mætum, við getum mætt öllum liðunum þess vegna því efsta liðið úr deildarkeppninni fær alltaf liðið sem endaði neðst af liðunum sem komust í úrslitakeppnina. Þess vegna væri fáranlegt að fara spá í næsta andstæðing. Við tökum einfaldlega því sem að höndum ber og verðum tilbúnir í allt.

Að lokum vil ég þakka Grindvíkingum fyrir frábæran stuðning í gær, stuðningsmenn okkar voru svo sannarlega eins og sjötti leikmaðurinn. Ég hvet alla til að mæta á oddaleikinn hjá kvennaliðinu okkar á morgun í Ólafssal, þær eiga svo sannarlega skilið að fá fulla stúku til að styðja við bakið á sér,“ sagði Jóhann að lokum.