Upp í móti með vindinn í fangið
Knattspyrnudeild Grindavíkur sækir um styrk til hamfarasjóðs UEFA. Karlalið félagsins leikur heimaleikina í Grindavík.
„Við erum vongóðir að fá góðan stuðning frá UEFA, hamfarasjóðurinn þeirra styrkir svona verkefni. Það er fínt að fá svona meðbyr, það verður að segjast eins og er að frá 10. nóvember 2023 höfum við verið að draga vagninn upp brekku og ekki nóg með það, höfum að mestu verið með vindinn á móti okkur. Við erum bjartsýnir og hlökkum mikið til sumarsins,“ segir Haukur Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG í Grindavík.
Þegar ársþing KSÍ var haldið í febrúar kom Svíinn Håkan Sjöstrand f.h. UEFA en hann hefur verið í stjórn Hamfarasjóðs UEFA undanfarin ár. Hugmyndin að því að reyna sækja styrk í sjóðinn hafði þó fæðst mun fyrr. Haukur bauð Håkan í bíltúr til Grindavíkur.
Bíltúr til Grindavíkur
„Þessi hugmynd með að sækja um styrk í hamfarasjóðinn, fæddist fljótlega á síðasta ári. Ég man ekki alveg hvar hugmyndin fæddist enda skiptir það ekki öllu máli en ég var fljótlega kominn á fund þáverandi formanns, Vöndu Sigurgeirsdóttur og framkvæmdastjóra KSÍ, Klöru Bjartmarz.
Þegar Håkan kom á ársþing KSÍ var skotið að mér að bjóða honum í bíltúr til Grindavíkur. Það má segja að ég hafi farið í hlutverk leiðsögumanns þennan fallega dag og einhvern veginn var eins og væri skrifað í skýin þegar við stóðum á miðju keppnisvallarins okkar, þó drógu skýin aðeins frá og sólin skein beint á okkur. Þetta var í raun magnað augnablik og var grafarþögn hjá okkur í nokkrar mínútur. Hann lagði hönd sína á öxlina á mér og spurði mig hvort ég væri í lagi, hann sagðist hafa fundið á þessu augnabliki hversu erfitt þetta hefði verið fyrir okkur Grindvíkinga. Hann sagði mér að hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að UEFA hamfarasjóðurinn myndi styðja við bakið á okkur. Rúmum mánuði seinna kom svo annar aðili frá UEFA, Thierry Favre, en hann er að taka við stjórn hamfarasjóðsins. Nýr formaður KSÍ, Þorvaldur Örlygsson ásamt fleirum frá KSÍ voru með í för en tilgangurinn var að skoða aðstæður í Hópinu og á gamla aðalvelllinum okkar. Ég gat ekki verið með þá því ég var erlendis með liðið okkar í æfingaferð svo varaformaðurinn, Sigurður Óli Þórleifsson, var leiðsögumaður. Við eigum von á svörum frá UEFA á næstunni og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn. Í mínum draumum mun þessi hamfarasjóður koma að byggingu gervigrasvallar á gamla aðalvellinum, búið var að setja það á dagskrá hjá Grindavíkurbæ en eðlilega hefur ekkert gerst í því að undanförnu. Draumur okkar er síðan að setja svokallað „hybrid“-gras á núverandi aðalvöll en það er seinna tíma mál. Það yrði frábært að fá öflugan stuðning frá UEFA, það myndi virka sem vindur í seglin en það verður að segjast eins og er að frá 10. nóvember 2023 höfum við verið að draga vagninn upp brekkuna og með vindinn í fangið. Það var erfitt að ná upp stemmingu á bak við liðin okkar í fyrra, þrátt fyrir góðan vilja Víkinganna og KSÍ, leið okkur aldrei eins og á heimavelli í Safamýrinni og í vetur kom nokkrum sinnum upp umræða um hvort við þyrftum hreinlega að leggja liðin niður. Við fengum engin svör frá ríkisstjórninni enda urðu breytingar þar en sem betur fer höfum við góða tilfinningu fyrir framhaldinu og undanfarið höfum við fundið fyrir miklum meðbyr. Það var frábært að geta sameinað kvennaliðið okkar liði Njarðvíkur og er öflugt kvennaráð búið að vera starfandi, Klara Bjarnadóttir, formaður UMFG, er okkar fulltrúi í kvennaráðinu. Þetta samstarf hefur gengið vonum framar og er ég bjartsýnn á gengi liðsins í sumar.“
Heimavöllurinn verður Stakkavíkurvöllurinn í Grindavík
Það vakti athygli í vetur þegar knattspyrnudeild UMFG tilkynnti að heimaleikirnir yrðu leiknir í Grindavík, á Stakkavíkurvellinum. Haukur er spenntur fyrir sumrinu.
„Karlaliðið okkar er talsvert mikið breytt frá síðasta tímabili, við verðum einungis með tvo útlendinga en annars er liðið að mestu byggt upp af efnilegum Grindvíkingum auk efnilegra íslenskra leikmanna frá öðrum liðum. Við verðum líka með 2. flokk og eru um 25 efnilegir Grindvíkingar sem manna hann, þeir munu spila sína leiki á Álftanesi og er mikill hugur í þeim fyrir sumarið.
Ég get ekki verið annað en bjartsýnn fyrir sumrinu, við höfum tekið upp samstarf við Golfklúbb Grindavíkur sem mun sjá um að halda vellinum okkar við og eru Helgi Dan og hans menn nú þegar byrjaðir að koma öllu í stand. Helgi lofar mér því að Stakkavíkurvöllurinn verði einn sá fallegasti þegar fyrsti heimaleikurinn fer fram. Þar fyrir utan eru fyrrum vallarstjórar sem eru mikið í Grindavík, Beggi og Gulli Hreins, boðnir og búnir að aðstoða, ásamt fleirum. Talandi um Stakkavíkurvöllinn, þvert á fréttir í síðustu viku er þetta fyrirtæki, Stakkavík, í fullu fjöri og þó svo að vinnsluhúsið þeirra hafi skemmst í hamförunum, er fyrirtækið í fullum rekstri. Hermann Ólafsson, forstjóri Stakkavíkur hefur komið gífurlega sterkur að rekstri knattspyrnudeildarinnar og ég veit varla hvernig staðan væri ef hans hefði ekki notið við. Ég heyri í Hermanni nánast daglega og fæ mikinn styrk frá honum. Við erum sammála um að það sé mjög mikilvægt að halda liðinu á lífi en ef við hefðum lagt það niður þá hefði þurft að byrja í 5. og neðstu deild, þegar boltinn yrði settur aftur á loft. Við Grindvíkingar þekkjum ekki að gefast upp og ætlum okkur að berjast alla leið. Þó svo að ég minnist sérstaklega á Hermann hér, vil ég alls ekki gera lítið úr þætti annarra styrktaraðila, án þeirra væri þetta ekki hægt en of langt mál er að nafngreina þá alla hér.
Við erum spenntir fyrir sumrinu, mætum ekki með neinar væntingar svo allt verður í raun plús. Um tíma í vetur leit út fyrir að við gætum ekki einu sinni verið með lið en með samstilltu átaki tókst að manna liðið. Við vorum með u.þ.b. tíu útlendinga í fyrra, lítil sem engin stemning myndaðist og við ákváðum því að byggja þetta upp frá grunni. Miðað við hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið er ástæða til bjartsýni en þó ekki þannig að við ætlum okkur upp. Við unnum granna okkar frá Sandgerði á föstudaginn í fyrstu umferð bikarsins og hlökkum til að mæta Valsmönnum í næstu umferð. Við viljum festa okkur í sessi, gefa okkar ungu leikmönnum tækifæri á að spila og tökum því sem að höndum ber.
Ég get ekki beðið eftir að taka á móti Grindvíkingum og öðrum á fyrsta heimaleiknum á Stakkavíkurvelli á móti Fjölni, föstudagskvöldið 9. maí en við hefjum leik í Lengjudeildinni viku fyrr, á útivelli á móti Selfossi,“ sagði Haukur.
Fimm milljónir í umhirðu
Bæjarráð Grindavíkur hefur lagt til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka að upphæð fimm milljónir króna til að greiða fyrir umsjón með knattspyrnuvöllum í Grindavík sumarið 2025.
Viðaukinn verði fjármagnaður með lækkun á öðrum tilgreindum rekstareiningum á frístunda- og menningarsviði.