Guðjón sigldi fleyi sínu í örugga höfn tippleiks Víkurfrétta
Guðjón Guðmundsson kom sér örugglega í topp fjóra í tippleik Víkurfrétta, hann þurfti einungis sjö leiki rétta til að vera einn í fjórða sætinu en gerði gott betur, tók átta leiki og vann dómarann, beitusalann og eiganda Njóttu ferða, Sigurð Óla Þórleifsson, 8-6.
Sjaldan launar kálfurinn ofeldið á kannski vel við, einhver hefði haldið að Guðjón myndi sýna Sigurði Óla miskunn fyrst Siggi Óli skaffar miðana á úrslitaleikinn en Guðjón var ekki á því.
„Ég mætti í þennan leik eins og alla aðra, til að vinna og var ekkert að spá í hver andstæðingur minn væri eða hvernig honum myndi vegna. Ég þakka Sigga Óla fyrir drengilega keppni og mun hugsa til hans ef ég næ að sigra leikinn í vor og mæti á Wembley.“
Þar með er ljóst hverjir munu mætast í næstu fjórum umferðum, Joey Drummer var efstur með 42 leiki rétta, Garðbúinn Björn Vilhelmsson var með 35, Brynjar Hólm Sigurðsson endaði með 32 rétta og Guðjón endaði með 28.
Þessir fjórir munu mætast í næstu fjórum umferðum og byrja allir með hreint borð. Fyrsta umferðin hefst strax á laugardag, 19. apríl.