HemmGym opnar í Grindavík
Hermann Hermannsson er athafnamaður frá Grindavík. Hann lærði til einkaþjálfara, ætlaði að opna líkamsrækt á Akureyri, þaðan sem kærasta hans er en í COVID reyndist það nokkuð erfitt og þau fluttu til Grindavíkur. Hann var lengi búinn að hafa augun opin fyrir húsnæði í Grindavík og eftir að losnaði pláss í húsnæði sem Stakkavík á, eftir hamfarirnar í Grindavík, ákvað hann að láta slag standa og hefur opnað HemmGym í Grindavík.
Hermann á ekki langt að sækja athafnasemina, hann er sonur Hermanns Ólafssonar sem oft er kenndur við Stakkavík í Grindavík.
„Ég tók einkaþjálfaranámið árið 2016, var kominn með aðstöðu hér í Grindavík en flutti svo með Grétu kærustunni minni á Akureyri. Því var skotið að mér að ég væri ekki góður einkaþjálfari ef ég gæti ekki aflað mér viðskiptavina sem þekktu mig ekki. Eitthvað var ég greinilega að gera rétt, ég var kominn með marga viðskiptavini á Akureyri en covid setti strik í reikninginn svo við ákváðum að flytja suður. Ég var búinn að fjárfesta talsvert í líkamsræktartækjum og beið eftir rétta tækifærinu að koma mér upp aðstöðu í Grindavík. Það gekk illa að finna húsnæði en í dag er staðan önnur, annað hvert atvinnuhúsnæði nánast sem stendur autt og ég ákvað að fara í bilið þar sem Mustad var með aðstöðu en þeir færðu sína starfsemi til Hafnarfjarðar eftir hamfarirnar. Stakkavík á þetta bil svo heimantökin voru hæg og ég fór á fullt í að standsetja þetta. Ég hef fengið aðstoð frá Gussa æskuvini mínum [Guðjón Emil Garðarsson] og við höfum nánast gert þetta allt einir. Ég lít bara þannig á þetta að þeir Grindvíkingar sem búa í Grindavík, geti notað þessa aðstöðu mína. Þegar þetta stækkar þá set ég upp sturtuaðstöðu en þangað til verður þetta bara heimilislegt. Fólk getur komið hvenær sem er sólarhringsins, það sækir app sem virkar sem lykill inn og fólk æfir þegar því hentar.
Ég veit að tækin sem ég er með eru mjög góð og það var kominn tími á að koma þeim í notkun. Ég var mjög ánægður með hversu margir kíktu við í dag og þar fyrir utan veit ég um rúmlega tíu manns sem segjast ætla nýta aðstöðuna hjá mér. Einhvers staðar þarf að byrja og ég lít á þetta sem hluta af endurreisn Grindavíkur, það virkar jákvætt ef einhver reynir að gera hluti í bænum og ég er viss um að fullt af fólki muni koma og æfa hjá mér. Þegar fólki fjölgar síðan í bænum þá bara eykst umferðin hjá mér, ég lít framtíðina björtum augum,“ sagði Hermann.