Tillaga að tjaldstæði við kirkjuna í Höfnum
Sveinn Enok Jóhannsson hefur óskað eftir því að umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar taki afstöðu til hugsanlegs tjaldsvæðis á landi Reykjanesbæjar fyrir neðan bílastæði Kirkjuvogskirkju.
Í gögnum umhverfis- og skipulagsráðs bæjarins segir að 3000 m2 af landinu er skilgreint í aðalskipulagi undir verslun og þjónustu en tjaldsvæði fellur þar undir.
Mikill meirihluti ferðamanna byrja og enda ferðalag sitt á Reykjanesi og þar af er stór hópur sem leigir sér litla „camper-bíla“.
„Hér væri upplagt að útbúa svæði sem gæti tekið við 25-35 litlum bílum í bílastæði auk annarra ferðavagna. Sett verði niður 60 m2 aðstöðuhús með baðherbergjum og eldunaraðstöðu. Endanleg ásýnd og skipulag væri unnið með bæjaryfirvöldum,“ segir Sveinn Enok í erindi sínu til bæjaryfirvalda.
Fjallað var um erindið á 360. fundi umhverfis- og skipulagsráðs og nú hafa nánari gögn borist. Erindi var frestað á fundi ráðsins þann 4. apríl og felur umhverfis- og skipulagsráð Gunnari Kr. Ottóssyni skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram út frá umræðum sem fram fóru á fundinum.