Landhelgisgæslan
Landhelgisgæslan

Fréttir

Leita að öflugum fyrirtækjum og hugmyndum sem skapa störf á Suðurnesjum
Mánudagur 14. apríl 2025 kl. 06:05

Leita að öflugum fyrirtækjum og hugmyndum sem skapa störf á Suðurnesjum

Hviða fjárfestingafélag Suðurnesja (áður Eignarhaldsfélag Suðurnesja) styður verkefni og nýsköpun. Opið fyrir umsóknir til 15. maí á hvida.is

Hviða fjárfestingafélag, áður Eignarhaldsfélag Suðurnesja, hefur gengið í gegnum nafnabreytingu til að endurspegla betur hlutverk sitt og framtíðarsýn. Nafnið Hviða táknar kraft og hreyfingu  sem minnir á Suðurnesin og möguleikana þar.

Samhliða nýju nafni  hefur félagið opnað nýjan vef hvida.is að sögn Snjólaugar Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra Hviðu fjárfestingarfélags.

VF Krossmói
VF Krossmói

„Hviða var stofnað í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum og kemur að stofnun bæði stórra og smárra félaga. Félagið styður metnaðarfull verkefni og nýsköpun með hlutafjárfjárfestingum ásamt lánum. Það leitast einnig við að efla fjölbreytni og vöxt í atvinnulífinu. Með nýju nafni og skýrri stefnu viljum við ná betur til þeirra sem eru að leita að fjármögnun og samstarfi við traustan fjárfesti. Við leitum að öflugum fyrirtækjum og hugmyndum sem skapa störf á Suðurnesjum og geta skapað verðmæti til framtíðar,“ segir Snjólaug.

Mikilvægur stuðningur við fyrirtæki á Suðurnesjum

Hviða fjárfestingafélag er að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs, Byggðastofnunar, sveitarfélaganna á Suðurnesjum og Festu lífeyrissjóðs. Félagið hefur tekið þátt í uppbyggingu á mörgum verkefnum og fyrirtækjum á Suðurnesjum sem náð hafa góðum árangri. Dæmi um fyrirtæki sem félagið er aðili að í dag eru m.a. GeoSilica, Orf Líftækni, Bio effect hf., DMM lausnir og nýjasta fyrirtækið er Kaffi Gola á Hvalsnesi.

„Þessi félög komu öll til okkar á snemmstigum rekstrarins. Algengt er að fyrirtæki fái styrki til nýsköpunar og uppbyggingar og svo þegar kemur að því að komast á næsta stig þá er takmarkað aðgengi að fjárfestingarsjóðum og lánalínum. Á þessu stigi er sjóðsstreymi ennþá frekar lítið og áhættan mikil en fyrirtækið þarf fjármagn til að geta komist á næsta stig sem felur þá í sér ýmist kaup á búnaði til að auka afkastagetu, þróun og/eða breikkun á vörulínum, markaðssetningu, ráðningu á fleira starfsfólki og þess háttar. Þarna kemur Hviða fjárfestignafélag mjög sterkt inn. Við erum bæði að lána og kaupa hlutafé.  Fyrirtækjum er síðan boðið að kaupa okkur út aftur á hagkvæmum kjörum. Fyrirtækin fá þá fé inn í fyrirtækið þegar það vantar en eignast svo aftur sinn hluta og geta selt hann öðrum með ágóða þegar fyrirtækið er komið í rekstur,“ segir Snjólaug.

Opið fyrir umsóknir

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á vef Hviðu fjárfestingafélags hvida.is. Opið er fyrir umsóknir til 15. maí. Mikill kraftur, dugnaður og sköpunargleði ríkir á Suðurnesjum og er Hviða mikilvægur bakhjarl við atvinnuppbyggingu. Hvetur félagið fyrirtæki hérna á svæðinu að sækja um á vefnum hvida.is

Kaffi Gola er dæmi um fyrirtæki sem hefur notið stuðnings  Hviðu.