Grindavík tapaði fyrir Haukum og er komið í sumarfrí
Grindavík og Haukar mættust í hreinum úrslitaleik í kvöld um hvort liðið kæmist áfram í undanúrslit Bónusdeildar kvenna en eftir sigra Grindavíkur í fyrstu tveimur leikjunum, komu Haukakonur til baka og jöfnuðu seríuna. Það munaði miklu fyrir Grindavík í leik fjögur að Ísabella Ósk Sigurðardóttir gat ekki leikið með þar sem hún lenti í bílslysi og munaði um minna fyrir Grindavík. Þar áður hafði fyrirliðinn Hulda Björk Ólafsdóttir, slitið krossbönd og lið Grindvíkinga því vængbrotið. Ísabella var í búningi í kvöld en byrjaði þó ekki inn á.
Haukar unnu öruggan sigur, 79-64 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 36-31.
Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt en fljótlega tóku Haukarnir frumkvæðið og áður en varði var munurinn kominn í tíu stig, 16-6. Grindavík átti í vandræðum með að finna leiðina að körfunni en loksins brast stíflan og næstu fimm stig voru bláklæddra Grindavíkukvenna, þær fengu tækifæri til að minnka muninn enn frekar en skotin vildu ekki detta og Haukar áttu lokaorðin í fjórðungnum, staðan 20-11.
Eftir jafna byrjun í öðrum leikhluta setti Grindavík allt í gang og breytti muninum úr 23-13 í 23-20 með sjö stigum í röð, Emil Barja, þjálfari Hauka, tók þá leikhlé en á þessum tímapunkti gekk sókn Grindavíkur mun betur og skotin fóru að detta. Ólöf Rún Óladóttir jafnaði í næstu sókn Grindavíkur með öðrum þristi og fjölmargir Grindvíkingar létu vel í sér heyra. Grindavík virtist þarna vera búið að ná yfirhöndinni, voru komnar fimm stigum yfir, 26-31 en Haukar spýttu þá í lófana og skoruðu síðustu tíu stig hálfleiksins, staðan að honum loknum 36-31.
Haukar byrjuðu betur í seinni hálfleik og áður en varði var munurinn kominn upp í tólf stig, 43-31. Þá vöknuðu Grindvíkingar og allt í einu var munurinn kominn í sex stig, 49-43 en þá komu tveir Haukaþristar í röð og munurinn aftur kominn upp í tólf stig, 55-43, miklar sveiflur í leiknum! Lalli, þjálfari Grindavíkur tók leikhlé en allt kom fyrir ekki og munurinn fór upp í sautján stig, 60-43 og allt útlit fyrir að Haukar væru að taka leikinn í sínar hendur. Daisha Bradford vakti smá von hjá Grindavík með tveimur þristum en staðan eftir þrjá leikhluta, 66-49 og ljóst að Grindavík þyrfti hálfgert kraftaverk til að snúa leiknum sér í vil.
Ekkert slíkt var í kortunum, hittni Grindavíkur var engan veginn nógu góð og það vantaði þann neista einkenndi liðið í fyrstu tveimur leikjunum. Ísabella var ekki lík sjálfri sér og þessi blóðtaka var meira en liðið þoldi og grátleg niðurstaða staðreynd eftir frábært útlit eftir tvo leiki. Lokatölur 79-64.
Það er erfitt að taka einhverja leikmenn Grindavíkur út fyrir sviga, þær mættu einfaldlega ofjörlum sínum í kvöld og söknuðu Huldu og Ísabellu, þótt sú síðarnefnda hafi verið með en hún var greinilega ekki búin að jafna sig eftir bílslysið fyrir skömmu.
Grindavík þar með komið í sumarfrí.
