Erfitt að lýsa með orðum að stíga í ræðustól Alþingis í fyrsta skipti
-segir Fida Abu Libdeh, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi
„Það er erfitt að lýsa með orðum þeirri tilfinningu að stíga í ræðustól Alþingis í fyrsta sinn. Þetta var ekki bara formleg stund, þetta var djúpt persónulegt augnablik. Ég fann fyrir þakklæti, auðmýkt og þeirri sterku tilfinningu að þetta væri stórt skref, ekki bara fyrir mig heldur líka fyrir samfélagið sem ég kem úr,“ segir Fida Abu Libdeh, annar varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi en hún tók sæti á Alþingi nýlega og flutti þá sína jómfrúarræðu.

Fida með Höllu Hrund, samflokksþingkonu sinni úr Framsókn í Suðurkjördæmi.
„Ég hugsaði til Suðurnesja, samfélags sem hefur mótað mig og kennt mér gildi samstöðu, baráttu og vonar. Þar er hugmyndaríkt og duglegt fólk, frumkvöðlar, fjölskyldur og fyrirtæki sem eru að skapa eitthvað, stundum við mótvind. Ég vil vera þeirra rödd, standa með þeim sem vilja framtíð hér heima, sem sjá tækifæri í nýsköpun, menntun og uppbyggingu atvinnulífs.
Það sem knýr mig áfram er löngunin til að sjá raunverulegar breytingar, að styðja við þau sem eru að byggja upp, og tryggja að raddir fólksins heyrist. Ég vil sýna með mínum verkum að ég er hér til að hlusta, læra og leggja mitt af mörkum – af heilindum, með hjartað á réttum stað.
Alþingi hefur tekið mér opnum örmum. Það er virkilega góð tilfinning að vera á vinnustað þar sem allir vilja gera sitt besta fyrir samfélagið. Hér er fólk sem leggur sig fram um að tryggja lýðræði, styðja hvert annað og bæta kerfin sem við treystum á.
Og svo verð ég að viðurkenna, það er líka óvænt hlið á þessu öllu. Á alþingi er mjög góður matur og síðdegiskaffi með því besta sem til er! Ég held ég hafi bætt nokkrum kílóum á mig á fyrstu dögunum en ég bætti líka við mig von, orku og trú á verkefnið framundan,“ sagði Fida sem er einn þekktasti frumkvöðull landsins.
Jómfrúarræða Fidu á Alþingi fjallaði um Keili og konur
Virðulegi forseti.
Ég stíg hér í dag í ræðustól með eldmóð í hjarta og þrá eftir breytingum, ekki aðeins fyrir nýsköpun heldur fyrir alla þá sem hafa staðið utan kerfis. Ég er að tala fyrir landsbyggðina, ég er að tala fyrir nýsköpun, ég er að tala fyrir konur í nýsköpun. Þær hafa oft misst af tækifærum vegna ójafnræðis. Ég flutti til Suðurnesja sem ung kona með drauma og vonir eftir að hafa barist fyrir því að fá tækifæri til að öðlast menntun. Í Keili – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, opnaðist leið mín til nýsköpunar og framtíðar en nú ríkir óvissa í okkar heimabyggð. Keilir sem hefur verið lykilstofnun menntunar og nýsköpunar berst fyrir tilveru sinni. Ef stuðningur við skólann hverfur, hvaða tækifæri höfum við á Suðurnesjum? Þetta er ekki bara mál landsbyggðarinnar heldur mál kvenna. Þegar hallar á landsbyggðina þá hallar á konur og hallar á konur í nýsköpun. Við höfum takmarkað aðgengi að fjármagni, við höfum takmarkað aðgengi að ráðgjöfum. Við höfum líka lítið tengslanet. Við verðum að tryggja að háskólanám, starfsnám, endurmenntun og frumkvöðlasetur verði aðgengileg í okkar heimabyggð á Suðurnesjum þar sem ungt fólk og frumkvöðlar, ekki síst konur, konur af erlendum uppruna, fá tækifæri til að vaxa og blómstra. Það þarf skýra áætlun um menntasetur á Suðurnesjum sem byggir undir framtíðarsýn svæðisins.
Ég skora á hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnina í heild að horfa til landsbyggðarinnar og stöðu kvenna sem lykilatriðis í framtíðarsýn þjóðarinnar og hefja alvöruuppbyggingu þar sem nýsköpun, menntun og jafnrétti mynda órofa heild. — Takk fyrir.

Frá Palestínu inn á Alþingi Íslendinga
Fida kom til Íslands frá Palestínu og hefur búið hér og síðasta áratuginn byggt upp fjölskyldu og frumkvöðlafyrirtæki. Víkurfréttir útnefndu hana Mann ársins á Suðurnesjum árið 2014.
Hér er texti sem var birtur við það tækfæri:
Frumkvöðullinn Fida Abu Libdeh sem stofnaði nýlega nýsköpunarfyrirtækið Geosilica á Ásbrú er „Maður ársins á Suðurnesjum 2014“.
Hún kom 16 ára frá Palestínu, gekk í menntaskóla í Reykjavík en náði ekki að ljúka stúdentsprófi vegna erfiðleika með íslenskuna. Hún vildi mennta sig meira og gera meira á lífsleiðinni en var komin í öngstræti þegar hún uppgötvaði háskólabrú í Keili á Ásbrú. Þar var hún greind með lesblindu og fékk viðeigandi hjálp til að halda áfram að læra. Það gerði hún með stæl, lauk stúdentsprófi og síðan í framhaldinu þriggja ára háskólanámi í umhverfis- og orkutæknifræði. Hún stofnaði síðan frumkvöðlafyrirtæki með skólafélaga sínum Burkna Pálssyni og nú um áramótin kom vara þeirra á markaðinn en það er hágæða kísilfæðubótarefni, unnið úr náttúrulegum íslenskum jarðhitakísli. Hún lét ekki þar við sitja á menntunarbrautinni heldur fór samhliða vinnu sinni í nýja fyrirtækinu í MBA nám í Háskólanum í Reykjavík sem hún klárar næsta vor. Það var ekki alveg nóg því hún bætti við þriðja barninu en hún er gift Jóni Kristni Ingasyni viðskiptafræðingi. Fjölskyldan býr á Ásbrú og var með fyrstu íbúunum sem flutti þangað árið 2007.