Allt að 126 íbúðir á BYKO-reitinn við Víkurbraut
Áætlað er að byggja allt að 126 íbúðir í fjölbreyttum stærðum á BYKO-reitnum við Víkurbraut 14 í Keflavík í fimm stökum fjölbýlishúsum í mismunandi stærðum í samræmi við umhverfið.
Bílastæði verða 1,5 á hverja íbúð. Húsin raðast á jaðar lóðar, svo hægt sé að skapa skjólgóðan inngarð á milli þeirra, þar sem íbúar Víkurbrautar 14 og nágrannar geta notið. Lögð er áhersla á heildstæða götumynd og samræmi milli eldri og nýrra mannvirkja, með uppskiptingu og hámarks hæðum, í takt við núverandi hús. Bílastæði verða ofanjarðar og í bílageymslu undir inngarði. Þetta kemur fram í ósk um heimild til að vinna deiliskipulag fyrir Víkurbraut 14 en þar er í dag verslun BYKO í Reykjanesbæ.
JeES arkitektar hafa lagt fram frumdrög að deiliskipulagstillögu f.h. Smáragarðs ehf. Markmið deiliskipulagstillögunnar er að þétta byggð, styrkja götumyndir svæðisins, auka gæði, stuðla að heildstæðu yfirbragði byggðarinnar og skapa lifandi og fallegt miðbæjarsvæði. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur heimilað að unnið sé deiliskipulag fyrir reitinn með fyrirvara um samþykki landeigenda um samkomulag vegna skipulagsvinnunnar.

Svona gæti ný byggð á BYKO-reitnum litið út verði hún að veruleika. Mynd: JeES arkitektar.