Leikfélag Glanni
Leikfélag Glanni

Viðskipti

Stækkar flugstöðina um þriðjung
Föstudagur 7. mars 2025 kl. 06:51

Stækkar flugstöðina um þriðjung

Ný austurálma er stærri en upphaflega byggingin og suðurbyggingin | Austurálman kostaði 30 milljarða

Ný austurálma flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hefur verið tekin í notkun. Um er að ræða framkvæmd upp á 29,6 milljarða króna. Byggingin er um 25.000 fermetrar og stækkar flugstöðina um 30%. Hún er stærri en upphaflega flugstöðin sem opnaði í apríl 1987, stærri en suðurbyggingin sem var opnuð árið 2000 og er því stærsta framkvæmd sögunnar hjá Isavia.

Samtals er flugstöðin því um 80 þúsund fermetrar að flatarmáli.

Verkáætlun stóðst að mestu þrátt fyrir áskoranir eins og heimsfaraldur og stríðið í Úkraínu.

VF Krossmói
VF Krossmói

Austurálman er mikilvægur þáttur í að auka gæði flugvallarins sem styrkir Keflavíkurflugvöll sem tengistöð og gerir hann samkeppnishæfari. Hún er lykilþáttur í framtíðarþróun flugvallarins og gerir næstu áfanga í þróun flugvallarins mögulega.

Framkvæmdir hófust í byrjun sumars 2021 með skóflustungu sem var tekin 1. júní. Árið 2023 var töskusalur á jarðhæð og farangurskerfi í kjallara tekið í notkun. Töskusalurinn bætir alla farangursafhendingu til gesta flugvallarins. Nýtt veitingasvæði tekið í notkun að hluta árið 2024 og að fullu nú í ár en með því fjölgar valkostum fyrir gesti flugvallarins.

Stór og rúmgóður biðsalur í austurálmunni.

Í austurálmunni eru fjögur ný brottfararhlið með landgöngubrúm beint út í flugvél. Þá eru tvö ný brottfararhlið fyrir rútur sem flytja farþega að fjarstæðum og nýr biðsalur sem bætir aðstöðu fyrir gesti flugvallarins.

Fjögur ný flugvélastæði eru við Austurálmuna. Flughlað með eldsneytisáfyllingu er 22.600 fermetrar eða eins og rúmlega þrír fótboltavellir.

Áhersla á öryggismál við framkvæmdina hefur skilað sér í því að engin alvarleg slys hafa orðið.

Töskukerfi fyrir 3,4 milljarða.
Töskusalur hefur verið stækkaður en hluti af nýjungunum er nýtt fararangurskerfi í kjallarana sem farþegar sjá ekki en það kostaði 3,4 milljarða króna.

Hótelbygging innan fimm ára

– 200 til 400 ný störf árlega hjá Isavia.
– Um eitt þúsund starfsmenn í heildina hjá fyrirtækinu.
– Áfram miklar framkvæmdir næsta áratuginn.

„Viðamiklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli munu halda áfram og næstu stóru verkefni verða stækkun landsgangs í miðri flugstöðinni og frekari stækkun austurálmu. Þessar framkvæmdir skapa hundruð starfa en árlega verða til á milli 200 og 400 framtíðarstörf vegna stækkunar flugstöðvarinnar,“ sagði Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar Keflavíkuflugvallar, en ný bygging til austurs, svokölluð austurálma var tekin í notkun í síðustu viku.

Í þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar er m.a. gert ráð fyrir nýrri hótelbyggingu á svæðinu og bílastæðahúsi innan fimm ára. Guðmundur Daði segir að farið verði í undirbúningsfasa fljótlega og athugað með áhuga markaðarins. Ný þriðja hæð mun hýsa landamæravörslu en framkvæmdir þar eru ekki hafnar. Framkvæmdir við byggingu fjórðu hæðar sem hýsa á starfsfólk Isavia ganga hins vegar vel og er gert ráð fyrir því að hún verði tilbúin um næstu áramót enn starfsfólk Isavia er með aðsetur á nokkrum stöðum.

Hjá fyrirtækinu starfa að meðaltali um eitt þúsund manns sem er um 10% allra starfa á Keflavíkurflugvelli.

Austurálman er byggingin vinstra megin við „gömlu“ flugstöðina. Verulegar framkvæmdir eru í kringum flugstöðina eins og sjá má á þessari drónamynd Hilmars Braga.