TR - bjöllutónleikar
TR - bjöllutónleikar

Viðskipti

Bústoð fagnar 50 ára afmæli og kaupir Snúruna
Fimmtudagur 6. mars 2025 kl. 12:38

Bústoð fagnar 50 ára afmæli og kaupir Snúruna

Húsgangaverslunin Bústoð, sem fagnar 50 ára afmæli um þessar mundir, hefur náð samkomulagi um kaup á Snúrunni, sem hefur verið afar vinsæl verslun meðal íslenskra fagurkera síðustu tíu árin í hönnunar- og gjafavöru.  

Snúran hófst sem vefverslun árið 2014 en eftir árs rekstur opnaði stofnandinn, Rakel Hlín Bergsdóttir, verslun í Síðumúla. Árið 2017 fluttist verslunin að Ármúla 38 og hefur staðið þar síðan þar til í lok janúar síðastliðnum. 

Rakel mun vera nýjum eigendum til ráðgjafar næstu mánuði til að gæta þess að sérkenni Snúrunnar haldi sér. Fyrirhugað er að opna netverslun Snúrunnar og verslun að Miðhrauni 24 í Garðabænum í enda mars mánaðar. Í kjölfar opnunar í Garðabænum er stefnt að því að opna Snúruna í Reykjanesbæ með vorinu. Öll helstu vörumerki Snúrunnar halda áfram þegar Snúran opnar aftur, svo sem Design by Us, ByOn, Blomus, Jakobsdal, Dottir Nordic Design, Aida og DAY. 

VF Krossmói
VF Krossmói

„Við erum að stefna á að opna Snúruna í Garðabænum í lok mars. Fram að því munum við fá inn úrval af nýjum vörum frá birgjum Snúrunnar, en við tókum engar eldri vörur, heldur pöntum allt nýtt inn. Eins mun heimasíða Snúrunnar opna á sama tíma með mjög miklu vöruúrvali, bæði í gjafavöru og húsgögnum.“ segir Birgitta Ósk Helgadóttir, nýr verslunarstjóri Snúrunnar en hún ásamt Björgvini Árnasyni, eiga og reka húsgagnaverslunina Bústoð og búa yfir samanlagt 30 ára reynslu af verslunarrekstri. 

„Ég er gríðarlega ánægð með þessa niðurstöðu. Þó fyrirtækið sé komið í nýjar hendur mun ég áfram fá að skipta mér aðeins af og vera til ráðgjafar um pantanir og annað, fyrst um sinn. Ég verð hins vegar að segja að eftir að hafa kynnst Birgittu í gegnum þetta ferli og meðal annars farið með henni á sýningu í París, hef ég trú á því að Snúran muni ekki bara lifa, heldur lifa góðu lífi hjá nýjum eiganda. Þess vegna líður mér svona vel með þessa niðurstöðu,“ segir Rakel Hlín Bergsdóttir stofnandi Snúrunnar.

Bústoð verður áfram á sínum stað

„Við erum gríðarlega spennt að opna Snúruna hér í Reykjanesbæ. Það skal samt áréttað að Bústoð mun halda áfram svo viðskiptavinir okkar þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur. Snúran verður góð viðbót inn í þessa 1.200 m2 sem við erum með hér í Reykjanesbæ. Við erum að fara í ákveðnar framkvæmdir og gera breytingar á versluninni til að ná sérkennum beggja verslana hér inni. Eins mun vöruúrvalið aukast til muna, sérstaklega í gjafavörunni,“ segir Björgvin Árnason en þetta er ekki eina viðbótin sem er á döfinni hjá Bústoð því síðar í þessum mánuði mun félagið kynna samstarf við danskan framleiðanda í rúmum en sá hinn sami hefur getið sér gott orðspor á íslenskum markaði undanfarna áratugi. „Þeir sem eru í rúmahugleiðingum ættu að fara að kíkja til mín fljótlega“ bætir Björgvin við að lokum.

Eins og áður segir fagnar Bústoð 50 ára afmæli um þessar mundir og af því tilefni eru frábær afmælistilboð í boði núna í mars, bæði í húsgögnum og gjafavöru, segir í tilkynningu frá versluninni.